Stéttar­fé­lagið Efling hefur lýst yfir von­brigðum með að­gerða­pakka ríkis­stjórnarinnar sem kynntar voru fyrr í dag. Fé­lagið segir í til­kynningu að að­gerðirnar styðji ein­göngu við at­vinnu­rek­endur og efna­fólk og að þær hlunn­fari launa­fólk. Þá sé hvergi komið til móts við til­lögur verka­lýðs­hreyfingarinnar.

Að­gerðirnar eru hugsaðar til stuðnings Lífs­kjara­samningnum til þess að tryggja frið á vinnu­markaði en að­gerðar­pakkinn er í átta liðum. Líkt og áður kemur fram hafa aðilar vinnu­markaðsins undan­farið deilt um hvort for­sendur samningsins standa en for­sætis­ráð­herra segist vonast til að til­lögurnar falli í góðan jarð­veg.

Láta „þjóðarskömm íslensks vinnumarkaðar“ viðgangast

Efling bendir á að í pakkanum sé ekki að finna neinar hald­bærar efndir á lof­orðum stjórn­valda um fé­víti vegna launa­þjófnaðar en þar sé um að ræða „ein­falt rétt­lætis­mál sem kostar ríkis­sjóð ekkert,“ og segir fé­lagið að þau frum­varps­drög sem þau hafi séð séu gagns­laus.

„Svo virðist sem ríkis­stjórnin hyggist láta þjóðar­skömm ís­lensks vinnu­markaðar, refsi­lausan launa­þjófnað at­vinnu­rek­enda, við­gangast til fram­búðar,“ segir í til­kynningu um málið.

Þá segir fé­lagið að lof­orð ríkis­stjórnarinnar um skatta­af­slátt í hluta­bréfa­kaupum veki furðu og gangi þvert á mark­mið skatt­kerfis­breytinga sem lofað var, þar sem breytingunum var ætlað að leið­rétta „stóru skatta­til­færslu“ síðustu ára­tuga frá há­launa- og stór­eigna­fólki yfir á herðar lág­launa­fólks.

Ríkisstjórnin hafi látið beita sig hótunum

„Í stað þess að halda sjálfs­virðingu sinni og verja hags­muni al­mennings lætur ríkis­stjórnin neyða sig til að ausa enn meira fé úr sjóðum hins opin­bera til efna­fólks og stöndugra fyrir­tækja,“ segir enn fremur í til­kynningunni og er full­yrt að ríkis­stjórnin hafi látið SA beita sig hótunum um upp­sögn kjara­samninga.

Efling segir að sam­þykki ríkis­stjórnarinnar á vinnu­brögðum at­vinnu­rek­enda boði ekki gott fyrir sam­ráð aðila vinnu­markaðsins um „græn­bók um fram­tíðar­um­hverfi kjara­samninga og vinnu­markaðs­mála“ sem rætt er um í að­gerða­pakkanum.

„Kostu­legt er að stjórn­völd í­myndi sér að grund­völlur sé fyrir slíku sam­ráði meðan launa­þjófnaður, brot vinnu­markaðs­lög­gjöfinni og hótanir um samnings­rof við­gangast á­tölu­laust.“

Aðgerðirnar lítt úthugsaðar

Þá hefur Al­þýðu­sam­band Ís­lands brugðist við að­gerðar­pakka stjórn­valda en þau leggja einnig fram kröfu um að kveðið verði á um fé­víti vegna launa­þjófnaðar í frum­varpinu. Þá mót­mæla þau fyrir­hugaðri lækkun tryggingar­gjalds þar sem þau segja lækkun þess ekki mæta kröfu um sér­tækar að­gerðir til að mæta sér­tækum vanda.

Sam­bandið fagnar þó í megin­at­riðum öðrum til­lögum ríkis­stjórnarinnar en kallar í sumum til­fellum eftir úr­bótum á þeim eða að­komu að út­færslu þeirra. Sam­bandið segir að­gerðirnar bera merki þess að vera lítt út­hugsaðar og að það vanti heildar­sýn um þær að­gerðir sem nauð­syn­legt er að grípa til.