Ákveðið var á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun að framlengja þær aðgerðir innanlands sem eru nú í gildi um tvær vikur en þetta kom á blaðamannafundi um málið rétt í þessu. Svandís tilkynnti þar að sóttvarnalæknir hafi í minnisblaði sínu lagt það til að aðgerðirnar verði framlengdar og var farið eftir því.

„Það kemur fram í minnisblaðinu að meira en helmingur einstaklinga 70 ára og eldri sem hafa greinst í þessari bylgju sé á fyrstu viku veikinda og því sé ekki komin reynsla á því hvernig gangur veikinda verður hjá þessum hópi. Í því ljósi telur sóttvarnalæknir ekki tímabært að aflétta aðgerðum innanlands,“ sagði Svandís á blaðamannafundinum.

Þá er gert ráð fyrir að skólastarf muni fylgja gildandi takmörkunum með þeirri undantekningu að slakað verður á grímuskyldu, þar sem nemendur fæddir fyrir 2006 munu geta af sér grímurnar þegar sest er niður í skólastofu en börn fædd eftir 2006 þurfa ekki að nota grímu.

Ríkisstjórnin fundaði fyrir hádegi þar sem samkomutakmarkanir voru meðal annars til umræðu en upprunalega stóð til að kynna aðgerðirnar í hádeginu að fundinum loknum. Til þess kom þó ekki og var þess í stað tilkynnt að aðgerðirnar yrðu kynntar á blaðamannafundi klukkan 16.

Enn margir að greinast

Til stóð að núverandi reglugerð myndi gilda út föstudaginn 13. ágúst en þar er kveðið á um 200 manna samkomubann, eins metra reglu og grímuskyldu innandyra þar sem ekki er hægt að halda viðunandi fjarlægð milli einstaklinga.

Sú reglugerð tók gildi á miðnætti aðfaranótt sunnudagsins 24. júlí en fyrir það höfðu engar samkomutakmarkanir verið innanlands í mánuð. Ákveðið var að grípa aftur til aðgerða í ljósi fjölda smita og greinast enn reglulega með veiruna.

„Frá því að þessi reglugerð tók gildi þá hefur fjöldi greindra smita verið með því mesta frá upphafi faraldursins og hlutfall jákvæðra sýna hefur verið tiltölulega mikið,“ sagði Svandís á blaðamannafundinum en bætti við að sóttvarnalæknir segi þann fjölda ekki segja allt um áhrif faraldursins á Landspítala.

„Nú erum við í raun að vinna nánari greiningu á því hversu góða vernd bólusetningin veitir gegn alvarlegum veikindum, bæði meðal viðkvæmra hópa og almennt, þar sem við byggjum á áhættuflokkum fyrir bólusetningu, áhættuflokkun göngudeildar og fleiru,“ sagði Svandís.

Fréttin verður uppfærð.