Í fræðigrein sem birtist í nýútkomnu Tímariti lögfræðinga er því haldið fram að lögregluaðgerðir íslensku lögreglunnar í togaranum Polar Nanoq í janúar 2017 hafi hvorki staðist íslensk lög né alþjóðalög. Af því leiði einnig að handtaka Thomasar Møller Olsen, sem síðar var ákærður og dæmdur fyrir að hafa orðið Birnu Brjánsdóttur að bana, hafi farið í bága við stjórnarskrá lýðveldisins og Mannréttindasáttmála Evrópu.

Höfundar greinarinnar eru lögfræðingarnir Bjarni Már Magnússon, prófessor við Háskólann í Reykjavík, og Hlín Gísladóttir.

„Um er að ræða eitt flóknasta lögsögumál í íslenskri réttarsögu. Í því reynir á fjölmörg grundvallaratriði alþjóðalaga og að okkar mati tókst ekki nógu vel upp hjá dómstólum,“ segir Bjarni Már um ástæður þess að þau réðust í fræðilega úttekt á handtökunni í Polar Nanoq. Hann segir aðrar leiðir hafa verið færar fyrir lögregluna sem hefðu verið innan ramma laganna en að þær hafi ekki orðið fyrir valinu. Landsréttur hafi heldur ekki staðist væntingar.

„Í dómum íslenskra dómstóla um tökur á erlendum skipum hefur allt frá 1922 birst mjög áhugaverð lögfræði, jafnvel verið sýndir taktar sem eru á heimsmælikvarða og eru allt of fáum kunnir. Slíkir taktar eru ekki sýndir í dómi Landsréttar.“

Í greininni er sérstaklega fjallað um valdbeitingarheimildir íslenska ríkisins í efnahagslögsögunni, hvaða gildi samþykki skipstjóra skipsins til aðgerða getur haft og hvort og hvaða þýðingu afskiptaleysi ríkis um þjóðréttarbrot hafi.

Meginniðurstaðan í greininni byggir á því að fánaríki hafi sérlögsögu yfir skipum á úthafinu sem og í efnahagslögsögunni í mörgum tilfellum. Á henni séu þó undantekningar og sú helsta að herskip, herflugvélar eða önnur sérstaklega auðkennd skip og loftför sem hafa skýrt umboð ríkis geti farið um borð í skip á úthafi sem og innan efnahagslögsögunnar í ákveðnum tilvikum en aðeins á grundvelli þjóðréttarsamnings nema rökstuddur grunur sé um sjórán, þrælaviðskipti, ólöglegar útvarpssendingar, skipið sé þjóðernislaust eða villi á sér heimildir og sé í raun af sama þjóðerni og ríkisskipið.

Enginn gagnkvæmur samningur um lögregluaðgerðir sem þessar sé í gildi milli Íslands og Danmerkur eða Grænlands. Í slíkum tilvikum sé talið heimilt að hefja aðgerðir liggi skýrt samþykki fyrir þeim, áður en farið er í þær. Slíkt samþykki hafi heldur ekki legið fyrir.

Með þessum rökum og öðrum var komist að þeirri niðurstöðu að handtakan um borð hefði ekki haft lagastoð, sú niðurstaða njóti meðal annars stuðnings dómafordæma Mannréttindadómstóls Evrópu. Landsrétti hefði því verið rétt að staldra lengur við þann þátt málsins og gæta að mannréttindum ákærða eins og þeim beri að gera.

Fjallað er um lagaleg áhrif ólögmætra aðgerða lögreglu í greininni og þeirri spurningu velt upp hvort dómstólar hefðu fallist á að kveða upp refsidóm yfir manni sem handtekinn var ólöglega utan lögsögu ríkisins. Vísað er til venjuhelgaðrar dómaframkvæmdar um að ólögmætar aðgerðir lögreglu leiði sjaldan til frávísunar en frekar til vægari refsingar.