Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri lýðheilsu hjá Landlæknisembættinu, segir að unnið sé að mótvægisaðgerðum til að verja geðheilsu barna vegna áhrifa Covid. Þrjú ráðuneyti taki þátt í þeirri vinnu í samstarfi við Embætti landlæknis.

Fréttablaðið hefur fjallað um að neikvæð áhrif af Covid-faraldrinum hafi mælst meiri meðal framhaldsskólanema en grunnskólanema. Ein líkleg ástæða er, samkvæmt upplýsingum frá Landlækni, að meiri takmarkanir voru í framhaldsskólum en grunnskólum þegar rannsókn um líðan barna og ungmenna var unnin hérlendis.

„Við fylgjumst grannt með óbeinum áhrifum Covid á lýðheilsu," segir Dóra Guðrún.Settur hefur verið á laggirnar sérstakur hópur til að fylgjast með áhrifum Covid á geðheilsu. Landlæknisembættið hefur skilað af sér einni áfangaskýrslu og er unnið að þeirri næstu.

Í skýrslunni segir að flestum börnum á grunnskólaaldri á Íslandi hafi farnast vel.„Faraldurinn virðist hins vegar hafa haft afgerandi neikvæð áhrif á líðan framhaldsskólanema, sem voru nánast alfarið í fjarnámi frá vori til ársloka 2020," segir í skýrslunni.

„Það eru einnig vísbendingar um að þau sem höfðu það erfitt fyrir Covid hafi farið verst út úr faraldrinum. Það er því mikilvægt að huga sérstaklega að þeim hópi," segir Dóra Guðrún.