Hekla Lind Jónsdóttir, unga konan sem lést í bakgarði við íbúðarhús við Snorrabraut í apríl í fyrra, var illa marin eftir átök við lögreglu og fullyrðir réttarmeinafræðingur að aðgerðir lögreglu hafi átt umtalsverðan þátt í dauða hennar.

Í áliti réttarmeinafræðings, byggt á krufnarskýrslu, kemur fram að áverkar á líkama Heklu hafi verið vegna ofsafenginna högga, „mjög líklega þrýstingshögga sem gætu hafa haft áhrif á öndunargetu hennar og þannig stuðlað að láti hennar.“

Fjallað var um málið í nýjasta þætti Kompás, en þar var meðal annars rætt við foreldra hennar sem töldu að lögreglan hafi farið offari.

Lögreglumenn komu í stað sjúkrabíls

Hekla var í geðrofsástandi eftir neyslu fíkniefna það kvöld og hafði vinur Heklu hringt oft eftir sjúkrabíl sem kom aldrei. Þess í stað komu tveir lögreglumenn á vettvang sem kom Heklu í mikið uppnám og reyndi hún að flýja undan þeim.

Lögreglumennirnir tveir reyndu að handsama Heklu í bakgarði við íbúðarhús og hafi þá komið til átaka. Í bráðabirgðaniðurstöðum krufninga kom fram að Hekla hafi líklegast verið með æsingsóráðsheilkenni en í því ástandi gætu átök við lögreglu hafa leitt til dauða hennar.

„Hún dó bara í miðjum slagsmálum, þetta er sturlað, hún dó.“

Móðir Heklu sagði í samtali við Kompás að læknir hennar hafi sagt henni að Hekla hafi farið í hjartastopp í höndum á lögreglu. Við sviðsetningu lögreglu á handtökunni kom fram að lögreglumennirnir hafi ítrekað sett hnén í bakið á Heklu. Þeir sem annast kennslu lögreglumanna voru viðstaddir sviðsetninguna og var það mat þeirra að lögreglumennirnir hafi beitt viðurkenndum handtökuaðferðum.

„Þetta voru að minnsta kosti ekki viðurkenndar hjúkrunaraðferðir,“ sagði faðir Heklu í samtali við Kompás.

Réttarmeinafræðingur, sem var einnig viðstaddur sviðsetninguna, lokaði áliti sínu um að þörf væri á ítarlegri greiningu aðgerðarsérfræðings lögreglu á atburðarrásinni til að meta hvort réttalætanlegt hafi verið að beita slíku afli við þessar aðstæður. Slík greining fór hins vegar aldrei fram.

Kompás birti samtal lögreglu í lögreglubílnum eftir að óskað var eftir sjúkrabíl í kjölfar átakanna. Annar lögreglumaðurinn hafi þá sagt: „Hún dó bara í miðjum slagsmálum, þetta er sturlað, hún dó.“

Málinu var vísað til héraðssaksóknara en látið falla niður í lok sumars þar sem það var ekki talið líklegt til sakfellingar. Málið var fellt niður á grundvelli 145. greinar sakamálalaga. Rannsókn málsins lauk í upphafi júlímánaðar og var ljóst, eftir að málið hlaut meðferð hjá ákærenda hjá embættinu, að enginn yrði sóttur til saka.

Ríkissaksóknari staðfesti ákvörðun héraðssaksóknara síðastliðinn nóvember.