Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að framlengja gildandi reglugerðir um takmarkanir á samkomum og skólastarfi til 9. desember næstkomandi.

Þetta er gert í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis sem ræður gegn því að slaka á sóttvörnum núna vegna þess hvernig faraldurinn hefur þróast síðustu daga. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.

Ríkisstjórnin fundaði í Ráðherrabústaðnum í Tjarnargötu þar sem aðgerðirnar voru meðal umræðuefna, fundinum lauk laust fyrir klukkan tólf.

Í minnisblaði Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis, frá 29. nóvember kemur fram að hafði hann áður gert ráð fyrir að hægt yrði að ráðast í varfærnar tilslakanir á gildandi sóttvarnalögum 2. desember og kynnt ákveðnar hugmyndir þar að lútandi fyrir ráðherra fyrir viku.

Þórólfur endurskoðaði þá tillögur sínar um tilslakanir vegna þróunar faraldursins hér á landi. Í minnisblaðinu kemur fram að upp hafi komið hópsýkingar og smitum fjölgað. Þá virðist fjöldi þeirra sem greinast utan sóttkvíar stefna í línulegan vöxt og hugsanlegan veldisvöxt segir sóttvarnalæknir.

Tillaga hans er sú að engar breytingar verði gerðar á gildandi sóttvarnaráðsstöfunum, þ.e. takmörkunum á samkomum og skólastarfi næstu eina til tvær vikur. Við endurskoðun sóttvarnaráðstafana sem hefjast þegar í stað, verður meðal annars horft til þess hvort tilefni sé til að gera tilslakanir á landsbyggðinni umfram höfuðborgarsvæðið í samræmi við hugleiðingar sóttvarnalæknis.

Tíu manna samkomubann

Gildandi reglugerð kveður á um tíu manna samkomubann, tveggja metra reglu, grímuskyldu þar sem ekki er hægt að tryggja tvo metra og sundlaugum, líkamsræktarstöðvum, börum og skemmtistöðum er enn gert að hafa lokað.

Fréttin hefur verið uppfærð.