„Ég verð bara sorg­mædd,“ segir Minni­e Eggerts­dóttir sem bíður eftir því að komast í opna hjarta­að­gerð á Land­spítalanum. Í tví­gang hefur að­gerðinni verið frestað á síðustu stundu, nú síðast í morgun þar sem ekkert rúm var laust á gjör­gæslu­deild spítalans.

Mikið hefur verið rætt um þunga stöðu á Land­spítalanum að undan­förnu. Skurð­að­gerðum hefur í­trekað verið frestað og hafa læknar og aðrir heil­brigðis­starfs­menn sent frá sér neyðar­kall. Stjórn Fé­lags bráða­lækna sendi fyrir skemmstu frá sér opið bréf þar sem meðal annars kom fram að spítalinn ráði ekki við dag­leg störf og réttindi sjúk­linga væru fótum troðin.

Þá sagði Tómas Guð­bjarts­son, hjarta­skurð­læknir á Land­spítala, á Morgun­vaktinni á Rás 1 í morgun að staðan á gjör­gæslu­deild væri hörmu­leg. Tíma­spurs­mál væri hve­nær sjúk­lingur myndi láta lífið vegna langrar biðar eftir skurð­að­gerð.

Frestað á síðustu stundu

Minni­e er ein þeirra sem hefur þurft að bíða og hefur að­gerð sem hún átti fyrst að gangast undir í byrjun mánaðarins í tví­gang verið frestað. Hún er bú­sett á Akur­eyri og hefur þurft að koma sér til Reykja­víkur til þess eins að þurfa frá að hverfa á síðustu stundu.

„Málið er það að ég greinist með kalkaða hjarta­loku í kringum 20. ágúst á Sjúkra­húsinu á Akur­eyri. Mér var sagt strax að það gæti tekið 2-3 mánuði þangað til ég fengi að­gerð á Land­spítalanum,“ segir Minni­e og bætir við að hún hafi sætt sig við þá bið þó hún sé með mikil ein­kenni og með tals­verða verki.

Svo fór að hún var boðuð í að­gerð þann 3. nóvember síðast­liðinn og var hún komin suður til Reykja­víkur nokkrum dögum fyrr, meðal annars til að fara í rann­sóknir og við­töl. Undir­búningur fyrir að­gerðina gekk en í þann mund sem verið var að flytja hana inn á skurð­deild þann 3. nóvember var henni til­kynnt að búið væri að fresta að­gerðinni.

„Þá er ég búin að vera hérna í fjórar nætur á sjúkra­hótelinu og greiða fyrir það tæpar 30 þúsund krónur,“ segir hún og bætir við að hún og sam­býlis­maður hennar hafi keyrt von­svikin norður til Akur­eyrar þann 4. nóvember.

„Sár von­brigði“

Það var svo í síðustu viku að Minni­e var aftur boðuð í að­gerð og átti hún að fara fram í morgun. Úr varð að sam­býlis­maður hennar keyrði suður á laugar­dag en Minni­e ætlaði að taka flugið. Afar vont veður var á laugar­dag og var öllu flugi af­lýst. Minni­e komst síðan suður með flugi um miðjan dag í gær.

„Það vantar sár­lega að styrkja þetta sjúkra­hús. Það er alveg greini­legt.“

Í morgun, líkt og í fyrra skiptið, var Minni­e til­kynnt að búið væri að fresta að­gerðinni en þá var búið að sótt­hreinsa hana og gera hana klára fyrir að­gerðina. „Það voru sár von­brigði,“ segir hún og bætir við að þessar í­trekuðu frestanir hafi sín á­hrif á til­finninga­lífið.

Að­spurð segir Minni­e að vonir standi til að að­gerðin geti farið fram á morgun, en af fenginni reynslu getur hún ekki stólað á það. „Ef eitt­hvað kemur upp, bíl­slys til dæmis, þá getur vel farið svo að að­gerðinni verði frestað. Þetta kerfi er svo við­kvæmt, það má ekki við neinu.“

Ekki boð­leg staða

Minni­e segist hafa fengið þær út­skýringar að fyrri að­gerðinni hafi verið frestað þar sem það vantaði hjúkrunar­fræðinga en í morgun voru engin rúm laus á gjör­gæslu­deildinni.

Að­spurð hvort hún vilji koma ein­hverju á fram­færi við ráða­menn þjóðarinnar um stöðuna á spítalanum, segir Minni­e:

„Það vantar sár­lega að styrkja þetta sjúkra­hús. Það er alveg greini­legt. Það er kannski 10 daga bið á Karolinska-sjúkra­húsinu í Stokk­hólmi eftir svona að­gerð. Þetta er ekki alveg boð­legt, hvorki fyrir fólkið sem vinnur þarna né okkur sem erum að koma til að bjarga lífi okkar.“