Óeirðalögregla byrjaði í gær að fjarlægja loftslagsaðgerðasinna úr bænum Lützerath í vesturhluta Þýskalands. Aðgerðasinnarnir hafa mótmælt eyðileggingu þorpsins af hálfu þýsks orkufyrirtækis sem hyggst stækka kolanámu í grenndinni.
Aðgerðasinnar klifruðu upp í tré og köstuðu grjóti og skutu flugeldum í átt að lögreglu. Sumir þeirra hafa verið í þorpinu í meira en ár eftir að síðasti íbúinn flutti á brott.
Þýska ríkisstjórnin segist þurfa meiri kol til að uppfylla orkuþörf landsins sem geti ekki lengur reitt sig á gas frá Rússlandi. Mótmælendur segja hins vegar að hætta hefði átt notkun kola fyrir löngu í ljósi loftslagsbreytinga.
Orkufyrirtækið RWE hefur samið við héraðsstjórnina um að takmarka stærð námunnar. Upprunalega stóð til að rífa fimm þorp en hætt var við þær áætlanir. Lützerath verður að öllum líkindum seinasta þýska þorpið sem mun víkja fyrir námavinnslu.