„Varðandi fréttir um að stað­setning úr far­síma hafi ekki borist stjórn­endum að­gerða í tíma er þeim ein­fald­lega vísað frá sem röngum,“ segir i yfir­lýsingu frá að­gerða­stjórn lög­reglunnar vegna fréttar af síma­gögnum sem vísuðu á flug­vélina sem fannst í Þing­valla­vatni.

Frétta­blaðið sagði frá því í morgun að svo virtist sem „mikil­væg grund­vallar­gögn, vegna leitarinnar að flug­vélinni TF-ABB sem hvarf síðast­liðinn fimmtu­dag, hafi ekki borist til stjórn­enda leitarinnar fyrr en löngu eftir að ein­hverjir björgunar­sveitar­mannanna voru komnir með þau í hendur,“ eins og segir í fréttinni.

Þá segir frétt Frétta­blaðsins að þótt gögnin hafi legið fyrir í gagna­grunni björgunar­sveita og gengið manna á meðal strax á fimmtu­dag þegar TF-ABB var saknað hafi það ekki verið fyrr en á föstu­dags­morni sem stjórn­endur leitarinnar kváðust hafa fengið ný síma­gögn er­lendis frá. Þá hafi upp­hafist mikil leit í Ölfu­s­vatns­vík þar sem flug­vélin fannst síðan, ein­mitt á þeim stað sem gögnin úr síma eins far­þegans höfðu vísað á daginn áður.

Sagði gögnin hafa borist lögreglu nóttina eftir slysið

Í Frétta­blaðinu í dag segir Oddur Árna­son, yfir­lög­reglu­þjónn hjá Lög­reglunni á Suður­landi, að um­rædd síma­gögn hefðu borist að­farar­nótt föstu­dags en neitaði að gefa upp ná­kvæma tíma­setningu á því hve­nær gögnin hafi borist.

Nú segir að­gerðar­stjórn lög­reglunnar hins vegar að „fyrsta vís­bending“ um þessi gögn hafi borist síð­degis daginn sem flug­vélin hvarf.

„Í sam­eigin­legum að­gerða­grunni björgunar­sveita og al­manna­varna þ.m.t. LHG, lög­reglu, sjúkra­flutninga, Isavía ofl. er fyrsta vís­bending úr far­síma skráð þann 3. febrúar kl. 17:51. Klukkan 15:40 þennan sama dag lá fyrir í sama grunni eftir gögnum Isavia að flug­leiðin hafi verið um Gríms­nesið,“ segir í yfir­lýsingu lög­reglunnar.

Þá segir lög­reglan að leit með sér­stakri vél frá danska hernum hafi fyrst beint að Gríms­nesi og suður­hluta Þing­valla­vatns. Klukkan 17:40 á fimmtu­deginum, sem er ellefu mínútum áður en fyrr­nefnd vis­bending barst í að­gerða­grunninn, hafi þyrla Land­helgis­gæslunnar með menn úr sér­að­gerða­sveit verið í sér­stakri leit yfir og í Ölfu­s­vatns­vík.

„Form­leg stað­festing á síma­gögnum, sem þegar höfðu verið notuð við skipu­lagningu leitar­að­gerða, fékkst ekki fyrr en síðar frá þar til bærum yfir­völdum er­lendis,“ segir síðan í yfir­lýsingu lög­reglunnar.

Breytt skipulag fréttaflutnings frá aðgerðum við Þingvallavatns

Posted by Lögreglan á Suðurlandi on Þriðjudagur, 8. febrúar 2022