Aðgerðarpakki ríkisstjórnarinnar til að mæta yfirstandandi efnahagsástandi hefur tekið töluverðum breytingum í efnahags- og viðskiptanefnd. Þetta segir Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar í samtali við Fréttablaðið. Aðgerðarpakkinn var afgreiddur úr efnahags- og viðskiptanefnd í hádeginu í gær.

„Það er verið að breyta en líka verið að setja inn ný atriði,“ segir Óli Björn. „Menn fengu að fresta helming af opinberum gjöldum í mars fram í miðjan apríl. Gjalddaginn verður núna færður til 15. janúar á næsta ári,“ segir Óli Björn.

Þann 1. júli verður svo greidd orlofsuppbót til öryrkja að upphæð 20.000 kr., skerðingarlaust. Fiskvinnslufólk fer inn í hlutastörfin og hefur nú jafnan rétt til þeirra eins og aðrir.

Sérstök nefnd fylgist með lánum og arðgreiðslum

Fyrirtæki sem fá lán, sem að hluta til verða með ríkisábyrgð, mega ekki greiða út arð eða kaupa eigin hlutabréf á meðan á ríkisábyrgðinni stendur. „Það verður komið á fót nefnd til að fylgjast með framkvæmd þessara lána.  Nefnd sem hefur heimild til að kalla eftir upplýsingum frá lánastofnun. Sú nefnd gefur skýrslu til ráðherra sem hann leggur síðan fyrir Alþingi á sex mánaða fresti,“ segir Óli Björn og bætir við að ekki sé annað hægt en að vera með hart eftirlit með þessum lánum.

Þá verða gerðar breytingar varðandi rafrænar undirskriftir og þinglýsingar þannig það verður auðveldari að ganga frá skilmálabreytingum fyrir einstaklinga og fyrirtæki.

„Við gerum síðan töluverðar breytingar á uppgjöri er varðar aðflutningsgjöld (tollkrít) og útgreiðslu innskatts á virðisauka sem skiptir fyrirtæki gríðarlega miklu máli. Það er verið að hjálpa fyrirtækjum að fara í gegnum þennan virðisaukaskatts gjalddaga sem er núna fram undan. Það verður fellt niður álag á vangreiddan virðisaukaskatts,“ segir Óli Björn.