Þjóðhagslegt gildi nýsköpunar var til umræðu í nýjum umræðuþætti á Hringbraut í stjórn Páls Kr. Pálssonar. Þátturinn ber heitið Nýsköpun og gestir í fyrsta þætti eru þau Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Þórður Magnússon, stjórnarformaður Eyrir Invest og Hrönn Greipsdóttir framkvæmdastjóri nýsköpunarsjóðs.

„Í stóru myndinni eru margir á síðustu mánuði, og gegnum þennan heimsfaraldur búnir að átta sig á gildi nýsköpunar. Nýsköpun er ekki lengur eitthvað tískuorð heldur sú stoð sem við sáum vaxa hvað mest gegnum heimsfaraldur þegar við sáum hrikta í öðrum eins og ferðaþjónustunni,“ segir Áslaug Arna.

Hún segir utanaðkomandi aðstæður hafa áhrif á hinar ýmsu útflutningsstoðir Íslendinga, en ekki áhrif á hugvitið eða hugverkaiðnaðinn og það sem kemur frá þekkingargeiranum.

„Við sáum það, og höfum séð hvaða áhrif þetta hefur í stóru myndinni. Það er að segja, bara útflutningstekjur. Þær stóru tölur sem við sjáum, hvernig þetta er að skila sér til baka til þjóðfélagsins. Síðan 2013 hefur þessi geiri vaxið um 91 prósent. Þar er bara verið að tala um hugverkaiðnaðinn. Við erum ekki bara búin að skilgreina þessa nýju stoð en hún er að verða gríðarlega stór,“ segir Áslaug Arna.

Hún segist einkum líta til tveggja þátta, það séu loftslagsmálin annars vegar og hins vegar heilbrigðismálin.

Kostnaður tvöfaldist án nýsköpunar

„Við sjáum það í skýrslu McKinsey um stafræna væðingu heilbrigðiskerfisins og mikilvægi þess að taka nýsköpun inn þar. Við eigum ekki annarra kosta völ. Ef við nýtum ekki nýjustu tækni og nýsköpun í heilbrigðiskerfinu mun kostnaður tvöfaldast við kerfið á næstu árum og við þurfum að bæta í mannskap um 45 prósent,“ segir hún.

„En ef við nýtum nýsköpun í kerfinu eru þessar tölur allt aðrar, þrjátíu prósent kostnaðaraukning og þrjú prósent mannauðsaukning. Þetta eru gríðarlegar tölur sem skipta okkur máli gagnvart því að reka hérna samfélag sem við viljum. Ef við eigum að eiga þess kost á, að gera það vel. Sama á auðvitað við um loftslagsmálin að lausnir við stóru áskorununum munu ekki koma frá ríkinu heldur frá fólki, hugmyndum og hugviti sem við þurfum að ýta undir og lyfta.“

Áslaug Arna segist heyra einna mest frá fyrirtækjum sem nú eru að stækka, að auðvelda þurfi aðgengi að erlendum sérfræðingum. „Það hefur verið forgangsmál hjá mér,“ segir ráðherrann.