Aðeins tveir af 99 sluppu lifandi eftir að farþegaþota brotlenti í íbúðahverfi í borginni Karachi í Pakistan í gær. Flugvélin var af gerðinni Airbus A320 og var á leið frá Lahore til Karachi en ekki liggur fyrir hvað olli slysinu.
Búið er að finna flugrita vélarinnar og verið er að rannsaka tildrög slyssins. Vélin hafði verið að gera tilraun til lendingar þegar ljóst var að ekki var allt með feldu. Í hljóðupptöku af samskiptum flugmannsins við flugturninn heyrist hann segja að „vélarnar séu farnar“ áður en sambandið slitnaði.
Gjöreyðilagði hús á jörðu niðri
Flugvélin brotlenti í íbúðarhverfi og varð til þess að um 19 byggingar gjöreyðilögðust. Enginn á jörðinni lést þó af völdum árekstursins en þó nokkrir hlutu alvarlegan bruna.
Farþegarnir tveir sem lifðu slysið af björguðust með ólíkum hætti. Annar þeirra, hinn 24 ára gamli Muhammad Zubair, sagðist muna eftir því að hafa elt leiðarljósin sem leiddu að neyðarútgangi vélarinnar þar sem hann hoppaði út um op á væng flugvélarinnar og þaðan á jörðina.
Sætið flaug úr vélinni
Hinn eftirlifandi slyssins, Zafar Masud, sagði systur sinni að það eina sem hann myndi frá slysinu væri ókyrrðin og óöryggið. „Ég skil það sem svo að sætið hans hafi næstum flogið út úr vélinni og hann dottið úr því,“ sagði systir hans í viðtali en bróðir hennar fannst nokkurn spöl frá flakinu.
Neyðarástandi var lýst yfir á öllum sjúkrahúsum Karachi-borgar vegna slyssins en þegar er töluvert álag á spítölum á svæðinu vegna COVID-19 faraldursins.
