Ekkert nýtt tilfellli af COVID-19 greindist hér á landi síðasta sólarhringinn og eru því sex dagar frá því að smit greindist síðast hér á landi samkvæmt upplýsingum á vefsíðunni covid.is. Síðasta smitið var greint þann 12. maí.

Virk smit í landinnu eru nú aðeins þrjú talsins en enginn er inniliggjandi á sjúkrahúsi.

Alls voru 305 sýni tekin til greiningar í gær, 121 á sýkla- og veirufræðideild Landspítala og 184 hjá Íslenskri erfðagreiningu. Í heildina hafa ríflega 57 þúsund sýni verið tekin til greiningar frá upphafi faraldursins.

Alls hafa 1.789 einstaklingar náð bata en 727 eru nú í sóttkví og hefur þeim fjölgað úr 532 í gær. Lík­legt er að það komi til af því að verið sé að færa inn farþegalista úr skip­um og flug­vél­um sem komið hafa til lands­ins síðustu daga.

Fréttin hefur verið uppfærð.