Á síðasta ári fæddust 4.879 börn á Íslandi. Það er fjölgun miðað við árið á undan þegar 4.512 börn fæddust hér á landi.

Fæðingarárgangurinn 2021 var sá fjórði fjölmennasti en einungis fæddust hér fleiri börn árin 2009, 2010 og 1960. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.

Árin 2009 og 2010 má segja að hafi verið um margt óvenjuleg á Íslandi vegna bankahrunsins árið áður og það sama má segja um árið 2021 vegna Covid-19 faraldursins.

Sunna Kristín Símonardóttir félagsfræðingur segir aðspurð að líklega megi tengja aukinn fjölda fæðinga hér á landi á síðasta ári við faraldurinn.

„Þetta er sérstaklega áhugavert af því að í mörgum löndunum í kringum okkur hefur Covid í raun og veru orðið til þess að fæðingartíðni lækki enn þá meira, en á sumum stöðum eins og á Íslandi virðist þetta hafa þau áhrif að hún eykst,“ segir Sunna.

Hún segir engar rannsóknir hafa verið gerðar á aukinni tíðni fæðinga í kjölfar Covid en uppi séu hinar ýmsu getgátur. „Það sem við vitum er að konur eru að eignast börn síðar en þær gerðu áður fyrr og kannski opnaðist þarna einhver gluggi til að eignast barn eða bæta við barni,“ segir Sunna.

„Við vorum meira heima við og margir hófu að líta inn á við, dytta að heimilinu, við ferðuðumst minna og vorum ekki jafnupptekin í þessu daglega amstri og það að eignast barn gæti verið hluti af því og því að líta inn á við,“ bætir Sunna við.

Árið 1960, er 4.916 börn fæddust hér á landi, var fjöldi lifandi fæddra barna á hverja konu 4,27 börn. Fæðingartíðni hefur undanfarin ár farið minnkandi og árið 2009 var hún 2,22 börn á hverja konu.

Sunna segir aukna fæðingartíðni ólíklega til frambúðar.
Fréttablaðið/Valgarður Gíslason

Á síðasta ári var fæðingartíðnin 1,82 börn á hverja konu, sem var þó meira en árið áður þegar hún var 1,72 börn. Samkvæmt Hagstofunni er yfirleitt miðað við að frjósemi þurfi að vera um 2,1 barn til að viðhalda mannfjölda til lengri tíma.

Sunna segist telja að þrátt fyrir að fæðingum hafi fjölgað á síðasta ári sé fæðingartíðni líklega ekki að aukast til frambúðar. „Reyndar var búið að spá því að fjölgunin yrði enn þá meiri svo þetta er minni hvellur en fólk átti von á,“ segir hún. Spáð hafði verið að yfir fimm þúsund börn myndu fæðast á síðasta ári.

Hún segir að undanfarin ár hafi borið meira á því að konur taki meðvitaða ákvörðun um að eignast færri eða engin börn, þá séu konur einnig að verða eldri þegar þær eignist börn.

Spurð að því hvernig hægt sé að auka fæðingartíðni að nýju til að viðhalda mannfjölda, segir Sunna réttu leiðina ekki þá að grípa til aðferða sem skerði frelsi kvenna eða að tala konur inn á það að eignast fleiri börn.

„Þetta snýr frekar að jafnrétti og því að horfa á þau samfélagslegu kerfi sem við höfum skapað til að hjálpa foreldrum að sinna hlutverkinu. Skólakerfið, leikskóla og fæðingarorlof, svo dæmi séu tekin,“ segir Sunna Kristín Símonardóttir.