Minna en fjórðungur þeirra fyrirtækja og stofnana sem samkvæmt lögum ber að verða sér úti um jafnlaunavottun fyrir lok þessa árs hefur hlotið vottun. Jafnlaunavottun var lögfest í júní árið 2017 og felur hún í sér að öllum fyrirtækjum og stofnunum þar sem starfa fleiri en 25 manns á ársgrundvelli beri að gæta þess að ekki sé mismunun í launum eftir kyni.

Fyrsti áfangi laganna nær til fyrir­tækja og stofnana þar sem starfa 250 manns eða fleiri og ber þeim fyrirtækjum að öðlast jafnlaunavottun fyrir 31. desember 2019. Fyrirtæki af þeirri stærðargráðu eru 289 talsins hér á landi og einungis 66 þeirra hafa öðlast vottunina.

Heimild er til að beita dagsektum allt að fimmtíu þúsund krónum á dag hafi þessi fyrirtæki ekki hlotið jafnlaunavottun fyrir lok þessa árs. En samkvæmt svari frá Jafnréttisstofu við fyrirspurn Fréttablaðsins, verður dagsektum ekki beitt nema að vel ígrunduðu máli.

Fjórir aðilar hér á landi hafa leyfi til að gefa út vottun á jafnlaunakerfi fyrirtækja en ljóst þykir að ekki náist að klára vottunarferli þeirra 223 fyrirtækja og stofnana sem ættu að hafa öðlast vottun á þessu ári.

„Nú er árið að verða hálfnað þannig að það er orðið svolítið tvísýnt hvort þetta náist, ef við gefum okkur að það fari tveir til þrír vinnudagar í hverja vottun þá er nú auðvelt að leggja það saman,“ segir Kjartan J. Kárason, framkvæmdastjóri Vottunar hf. sem er einn þessara fjögurra aðila.

Hann bætir því við að vel hefði verið hægt að gefa út jafnlaunavottun á mun fleiri fyrirtæki og stofnanir en þessi sextíu og sex sem nú þegar hafa öðlast þær. „Óskastaðan hefði verið sú að þetta hefði komið jafnt yfir árið, þetta er bara eins og ef allir bílar ættu að fara í skoðun fyrir árslok og þá færu líklega allir á sama tíma.“

Fyrir árslok 2020 ber þeim fyrirtækjum og stofnunum sem hafa 150-249 starfsmenn af öðlast jafnlaunavottun svo enn fleiri vottanir ber að gefa út á næsta ári. „Á sama tíma bætist við eftirfylgni þeirra fyrirtækja sem fá vottun í ár, svo á næsta ári verður þetta enn meira en þetta er í ár.“ Jafnlaunavottun fyrirtækja og stofnana er fylgt eftir árlega með skoðun á þeim fyrirtækjum sem hlotið hafa vottun. Þriðja hvert ár á sér svo stað stærra skoðunarferli.

Hafsteinn Einarsson, ráðgjafi hjá PwC, segir að eðlilegt væri að fjölga þeim sem gefa út jafnlaunavottun til þess að létta á stöðunni. „Þegar búið er að setja löggjöf þar sem allir eru skyldugir til þess að hafa jafnlaunavottun væri eðlilegt að fjölga þeim aðilum sem hafa leyfi til þess að gefa út vottun, og víkka þannig flöskuhálsinn sem hefur stíflast.“