Frá 1. mars 2020 til og með 20. apríl hafa verið skráð 312 brot gegn sóttvarnalögum í málaskrá lögreglu. Af þeim hafa aðeins 90 mál farið í sektarmeðferð eða tæplega 29 prósent málanna. Þetta kemur fram í svari ríkislögreglustjóra við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Alls koma 413 aðilar við sögu í þessum málum, 349 einstaklingar og 64 fyrirtæki, þannig að sumir þessara aðila koma að fleirum en einu máli. Þá geta fleiri en einn aðili verið skráðir í sama máli og dæmi eru um að eigandi fyrirtækis og fyrirtækið séu hvort tveggja skráð fyrir einu og sama brotinu.

Sektarmeðferð er ferill þar sem ákveðið hefur verið að sekta fyrir brot, en málin geta verið komin mislangt á þeirri braut. Sektargerðin gæti hafa verið gefin út, hefur þegar borist hinum brotlega aðila eða hann greitt sektina.

Aðeins sektarmeðferð í um átta prósent tilvika

Sem áður segir hafa 90 mál ratað í sektarmeðferð. Það eru mál 85 einstaklinga og fimm fyrirtækja. Sé litið sérstaklega til fyrirtækja hafa mál vegna brota þeirra farið í sektarmeðferð í nærri átta prósent tilvika.

Þeir brotaflokkar sem um ræðir eru brot á skyldu til að fara í sóttkví, brot í sóttkví, einangrun ekki haldin eða henni ekki sinnt þrátt fyrir staðfesta sýkingu, brot á sóttvarnalögum, brot á reglum um fjöldasamkomur og brot á reglum um lokun samkomustaða.

Hjá ríkislögreglustjóra fengust ekki upplýsingar um fjárhæðir sektanna sem um ræðir.