Samkvæmt nýjum lögum á Spáni sem samþykkt voru í vikunni um kynferðislegt samþykki þýðir já aðeins já.

Washington Post greinir frá.

Neðri deild spænska þingsins staðfesti á fimmtudag ný lög sem krefjast þess að kynferðislegt samþykki sé skýrt, Aðeins já þýði já, kallast lögin.

Lögin setja samþykki í forgrunn skilgreiningar á nauðgun og nú þurfa þolendur kynferðisofbeldis ekki lengur að sanna að ofbeldi eða hótun hafi verið beitt gegn þeim.

Með lögunum verður nauðgun skilgreind sem kynlíf án samþykkis en alls samþykktu 205 þingmenn frumvarpið á móti 141 og sátu þrír hjá.

Ríkisstjórn Pedro Sánchez og Sósíalistaflokksins hefur talað fyrir frumvarpinu frá árinu 2018. Nauðgunarlög Spánar urðu þá mjög umtöluð eftir að myndband fór í dreifingu af fimm karlmönnum nauðga 18 ára gamalli stúlku í Pamplona.

Dómarar töldu ekki um nauðgun að ræða þar sem konan hefði þagað og ekki veitt mótspyrnu. Hæstiréttur dæmdi mennina hins vegar fyrir nauðgun.

Irene Montero, jafnréttisráðherra Spánar, fagnaði lögunum með tísti þar sem hún þakkar feminíska þingmeirihlutanum og bætir við myllumerkinu SoloSÍesSÍ sem þýðir aðeins já er já.