Níu læknar hafa nú sagt upp störfum sínum á Reykjalundi eftir að forstjóri Reykjalundar og framkvæmdastjóri lækninga var sagt upp fyrr í mánuðinum. Í frétt RÚV um málið kemur fram að eftir sitji einungis fjórir læknar hjá Reykjalundi, einn þeirra er nýráðinn framkvæmdastjóri lækninga, Ólafur Þór Ævarsson.

Meðal þeirra níu sem sagt hafa upp eru fimm yfirlæknar en þeir voru yfir Miðgarði, taugasviði, greiningarsviði, geðheilsusviði og hjartateymi. Þá hafa hinir fjórir sérþekkingu á endurhæfingu, geðheilbrigði, gigt og offitu.

Mikil óánægja meðal starfsmanna

Fréttablaðið greindi frá því í byrjun október að starfsmenn hafi verið í losti eftir að tilkynnt var um uppsögn forstjórans og framkvæmdastjóra lækninga en starfsmenn lýstu yfir vantrausti á stjórn SÍBS stuttu síðar.

Magdalena Ásgeirsdóttir er ein þeirra sem sagt hefur upp en hún var yfirlæknir í Miðgarði og formaður læknaráðs. Í samtali við Fréttablaðið fyrr í mánuðinum sagði Magdalena að ófremdarástand ríkti á Reykjalundi og starfsmenn hefðu engan til að leita til. Þá sagði Magdalena að búast mætti við fleiri uppsögnum.

Samkvæmt heimildum RÚV voru nokkrir fundir haldnir á Reykjalundi í gær þar sem starfsmenn lýstu óánægju sinni. Allir læknarnir sem sögðu upp koma til með að vinna upp uppsagnarfrest sinn fyrir utan einn.