Ekkert nýtt tilfelli COVID-19 var greint hér á landi síðasta sólahringinn, síðasta smit var greint þann 12. maí.

Aðeins fjórir einstaklingar hafa því greinst í maí af um 7.500 sýnum sem voru tekin. Virk smit í landinu eru nú sex en enginn er innilggjandi á á Landspítala og enginn á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Alls hafa 15 prósent þjóðarinnar farið í sýnatöku eða um 57.000 manns. Þórólfur Guðnason, sóttavarnalæknir fór yfir stöðu mála á upplýsingafundi almannavarna með tilliti til COVID-19 hér á landi í hádeginu.

„Fá tilfelli eru að greinast og það lítur út fyrir að það séu mjög fá tilfelli í samfélaginu okkar," segir Þórólfur.

Skiptar skoðanir á opnun landamæra

Þórólfur segir það ljóst að margir eru ekki sáttir við tillögurnar um að opna landið. Það sé eðlilegt og lýsi því að fólk hafi greinilega áhyggjur af faraldrinum og hvernig hann mun þróast héðan í frá.

„Allir hafa rétt á sínum skoðunum, en læknar og aðrir þurfa að taka tillit til þess að á einhverjum tímapunkti þurfi að opna landið. Hvort sem að það er núna eða eftir sex mánuði, þá munum við standa frammi fyrir sömu áskorunum."

Þórólfur segist skilja þessar áhyggjur fólks en að hann sé ekki sammála þeim og hann væntir þess að ræða við kollega sína varðandi þessi mál.

Í dag verður hafist handa við að skipuleggja opnun landsins. Vinnuhópurinn sem sér um framkvæmdina vinnur að hugmyndum sem samræmast hugmyndum sóttavarnalæknis.

Hópurinn þarf að skila af sér tillögum fyrir 25. maí en opnun landamæra tekur gildi ekki síðar en 15. júní.