Sjö COVID-19 smit greindust hér á landi í gær og var aðeins einn þeirra var í sóttkví við greiningu en þetta hefur RÚV eftir heimildum frá almannavörnum. Auk tilfellanna sjö sem greindust innanlands í gær greindist einn við landamærin en beðið er eftir mótefnamælingu úr því sýni.
Alls eru 58 manns í einangrun hér á landi vegna COVID-19 og eru 454 manns í sóttkví. Þá er einn inniliggjandi á spítala með sjúkdóminn en sá er á legudeild Landspítala. 72 þúsund sýni hafa verið tekin innanlands auk tæpra 64 þúsund við landamæri.
Telur þau vera í nokkuð góðum málum
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að hann teldi þau vera í nokkuð góðum málum er varðar smit hér á landi og að niðurstöður úr skimun Íslenskrar erfðagreiningar bendi ekki til þess að það sé útbreitt samfélagssmit.
Líkt og áður hefur verið greint frá var gripið til hertra sóttvarnaráðstafanna í kjölfar þess sem að aukins fjölda smita en ráðstafanirnar tóku gildi á hádegi í gær. Samkvæmt þeim ráðstöfunum miðast fjöldatakmarkanir við 100 manns og tveggja metra reglan er skylda á ný. Að sögn Þórólfs má búast við að sjá megi árangur þeirra aðgerða á næstu vikum.