Sam­kvæmt út­tekt Ríkis­endur­skoðunar á Trygginga­stofnun ríkisins (TR) fengu aðeins 9,4 til 13 prósent líf­eyris­þega réttar greiðslur frá stofnuninni á tíma­bilinu 2016 til 2019.

Þuríður Harpa Sigurðar­dóttir, for­maður Ör­yrkja­banda­lags Ís­lands (ÖBÍ), fagnar út­tektinni sem sýni brota­lamir í al­manna­trygginga­kerfinu sem ÖBÍ hafi vitað um lengi.

„Við höfum í­trekað bent Trygg­inga­stofnun á þetta. Út­tektin sýnir það sem við höfum lengi haldið fram, að allt­of stór hluti líf­eyris­þega er ekki að fá þau réttindi sem þeim ber og það er mjög al­var­legt,“ segir Þuríður.

í skýrslu Ríkis­endur­skoðunar kemur fram að brota­lamir eru í fram­kvæmd al­manna­trygginga­laga og með­ferð stjórn­sýslu­mála hjá TR. Dæmi eru um að við­skipta­vinir hafi fyrir vikið orðið af réttindum sínum, um lengri eða skemmri tíma. Þá þarf TR að sinna betur leið­beiningar­skyldu sinni á­samt því að efla að­gengi og upp­lýsinga­gjöf til við­skipta­vina sem margir eru í við­kvæmri stöðu og treysta al­farið á greiðslur frá stofnuninni.

Trygginga­stofnun hefur bent á að hlut­fall úr­skurða nefndarinnar sem stað­festi verk­lag stofnunarinnar sé yfir 80 prósent en í þeim út­reikningi eru með­talin mál sem eru aftur­kölluð áður en nefndin úr­skurðar í málinu.

„Þetta heitir á góðri ís­lensku að hag­ræða sann­leikanum.“

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að í sumum þeirra til­vika hafi TR breytt fyrri á­kvörðun sinni og kærandi í fram­haldinu dregið kæru sína til baka. Sé leið­rétt fyrir slíkar aftur­kallanir reynist hlut­fall úr­skurða sem stað­festu verk­lag Trygginga­stofnunar eða vísa máli frá hafa verið 61 til 70 prósent á tíma­bilinu 2017 til 2019.

„Þetta heitir á góðri ís­lensku að hag­ræða sann­leikanum. Til þess að reyna að blekkja fólk,“ segir Þuríður.

Spurð hvort það standi til að fara í mála­ferli til þess leið­rétta rangar greiðslur, segir Þuríður að ÖBÍ sé enn að berjast fyrir því að bú­setu­skerðingar ör­yrkja verði leið­réttar.

„Við erum enn að berjast í málinu um bú­setu­skerðingar fólks. Þar sem TR viður­kenndi að hafa reiknað fólk sam­kvæmt rangri reikni­reglu frá árinu 2009. Árið 2018 átti að leið­rétta það og ég veit ekki betur en að eins og staðan er í dag, tveimur árum seinna, sé einungis búið að leið­rétta um 500 ein­stak­linga af 1.500,“ segir Þuríður.

Fólk fái rangt reiknaðan lífeyri

Formaðurinn bætir við að ÖBÍ sé enn að fá fólk til sín með lífeyri sem reiknaður sé eftir rangri reikni­reglu.

Þuríður segir það einnig sér­kenni­legt að eins og fram kemur í skýrslunni séu einungis tveir starfs­menn ráðu­neytis að sinna þessum stóra mála­flokki með­fram öðrum störfum í ráðu­neytinu.

Þá segir einnig í úttektinni að ör­yrkjar leiti dag­lega til ÖBÍ til að fá upp­lýsingar og ráð­gjöf sem TR ætti að veita þeim. Á­stæður þessa eru meðal annars van­traust og ­ó­­­­­ánægja­ með þjónustu stofnunarinnar. Þá virðast margir líf­eyris­þegar eiga í vand­ræðum með að skilja upp­lýsingar sem koma frá TR.

„Þetta út­heimtir oft mikla vinnu af hendi veiks fólk sem á ekki auð­velt með að verja sig,“ segir Þuríður sem kveðst vonast til að fleiri fái rétta úr­lausn sinna mála úr þessu en bendir á að þar sé mikið verk að vinna.