Mun færri skjálftar hafa mælst á svæðinu við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga frá miðnætti og á sama tíma í gær.

Alls hafa um 400 skjálftar mælst á svæðinu frá miðnætti, að því er fram kemur á vef Veðurstofu Íslands.

Í gærmorgun, 27. desember, mældist jarðskjálfti að stærð 3,6 og um hálf eitt leytið í gær mældist annar að stærð 3 um tvo kílómetra vestan við Kleifarvatn.

Aðeins hefur dregið úr jarðskjálftavirkni á svæðinu.

Óróamælingar við Fagradalsfjall á Reykjanesskaganum.
Mynd/Veðurstofa Íslands

Grjóthrun mögulegt

Jarðskjálftarnir í gær eru túlkaðir sem gikkskjálftar á vef Veðurstofu Íslands. Þar segir að talið sé að orsök þeirra megi rekja til aukins þrýstings við Fagradalsfjall vegna kvikusöfnunar.

Ferðamenn eru hvattir til að sýna aðgát í bröttum hlíðum á svæðinu þar sem gikkskjálftum fylgir gjarnan grjóthrun ásamt því að forðast svæði þar sem grjót getur hrunið.

Samkvæmt upplýsingum af vef Veðurstofu Íslands kemur fram að ekki hafi borist tilkynningar um nýlegt grjóthrun á svæðinu en ef öflugri skjálftar mælist aukist líkur á grjóthruni.

Frá því að jarðskjálftahrinan hófst, þann 21. desember, hafa rúmlega 19 þúsund skjálftar ælst, þar af fjórtán að stærð 4,0 eða stærri.

Lítill fyrirvari ef það gýs

Fréttablaðið greindi frá því í gær að vísbendingar séu um að kvikan undir Geldingadölum sitji grunnt. Fólki sé ráðlagt frá því að fara í gönguferðir á gosstöðvarnar.

Vísindaráð Almannavarna fundaði í gær með sérfræðingum Veðurstofu Íslands um stöðuna á Reykjanesinu. Talið er að eldgos geti hafist á hverri stundu og með litlum sem engum fyrirvara.