Í dag er sumar­dagurinn fyrsti og sam­kvæmt gögnum Veður­stofunnar var ís­lenski veturinn nokkuð hag­stæður. Ís­lenski veturinn er frá fyrsta vetrar­degi 23.októ­ber 2020 til og með 21.apríl 2021.

Í gögnum sem tekin voru saman fyrir Frétta­blaðið um veturinn sam­kvæmt ís­lensku daga­tali kemur fram að ill­viðri hafi verið fá­tíð og veturinn snjó­léttur. Þá var nokkuð þurrt suð­vestan­lands en úr­komu­samara norð­austan­lands.

Veturinn var þurr í Reykja­vík en úr­koman mældist um 70 prósent af meðal­úr­komu áranna 1991 til 2020. Á Akur­eyri var veturinn aftur á móti ó­venju úr­komu­samur og mældist úr­koman 50 prósent um­fram meðal­lag áranna 1991 til 2020.

Þetta er þriðji úr­komu­samasti veturinn á Akur­eyri, úr­koma mældist meiri veturna 2013 til 2014 og 1988 til 1989.

Veturinn var snjó­léttur sam­kvæmt gögnum Veður­stofunnar en al­hvítir dagar í Reykja­vík voru 12, sem er 43 færri en að meðal­tali 1991 til 2020. Al­hvítir dagar hafa ekki verið eins fáir þar síðan veturinn 1976 til 1977, þá voru þeir 10.

Á Akur­eyri voru al­hvítir dagar 65, sem er 28 færri en að meðal­tali 1991 til 2020.

65 dagar voru alhvítir á Akureyri í vetur, en þeir voru aðeins tólf í Reykjavík.
Fréttablaðið/Auðunn

13. hlýjasti veturinn frá 1950

Meðal­hiti ís­lenska vetrarins í Reykja­vík var 1,9 stig og er það 0,5 stigum ofan meðal­lags frá 1991 til 2020 og 0,1 stigi yfir meðal­lagi síðustu tíu ára.

Á Akur­eyri var meðal­hiti ís­lenska vetrarins 0,3 stig sem er 0,2 stigum yfir meðal­lagi áranna 1991 til 2020 en -0,1 stigi undir meðal­tali síðustu tíu ára.

Í Reykja­vík var veturinn sá 13. hlýjasti frá árinu 1950 og 17. hlýjasti á sama tíma á Akur­eyri.