Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari segist í samtali við Fréttablaðið ekki vilja tjá sig um vantraustsyfirlýsingu stjórn Eflingar sen gefin var út í kvöld.
Þar fordæmir stjórn félagsins vinnubrögð ríkissáttasemjara í yfirstandandi kjaradeilu félagsins við Samtök atvinnulífsins og sagði hann ekki hafa sýnt því minnstan áhuga að kynna sér mál þeirra eða rökstuðning.
Í tilkynningu svarar embætti ríkissáttasemjara aðeins yfirlýsingum um meint ólögmæti miðlunartillögu embættisins.
„Sáttasemjari kallaði fulltrúa beggja aðila til fundar við sig í þessu skyni áður en miðlunartillagan var birt opinberlega. Í skyldu sáttasemjara til að ráðgast við aðila felst ekki að þeir hafi íhlutunarrétt eða neitunarvald um miðlunartillögu. Með vísan til þessa verður að vísa á bug fullyrðingum um að framsetning miðlunartillögunnar sé ólögmæt á nokkurn hátt,“ segir í tilkynningunni.
Þar segir enn fremur að sökum þeirra aðstæðna sem komnar voru upp í deilum SA og Eflingar var það mat embættisins að óhjákvæmilegt væri að reyna á það úrræði sem samningsaðilar hafa gagnrýnt.
Ríkissáttasemjari boðaði til blaðamannafundar í dag þar sem hann greindi frá því að hann hefði lagt fram miðlunartillögu í deilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins. Miðlunartillagan byggir nær eingöngu á tilboði SA til Eflingar sem hefur verið hafnað af félaginu. Atkvæðagreiðsla um tillöguna hefst á laugarda og stendur til þriðjudags. Allir meðlimir Eflingar greiða atkvæða um hana.