Aðalmeðferð í stærsta kókaínmáli Íslandssögunnar hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur nú rétt í þessu. Fjórir menn eru ákærðir fyrir innflutning á tæpum hundrað kílóum af kókaíni auk peningaþvættis upp á samtals tæpar 63 milljónir króna. Mennirnir voru handteknir 5. ágúst síðastliðinn og var málið yfir þeim þingfest í nóvember. Þar neituðu þeir allir ýmist sök eða neituðu að taka afstöðu til málsins.

Allir helstu fjölmiðlar landsins eru samankomnir í héraðsdómi til að fylgjast með málinu í dag. Mennirnir komu í fylgd lögreglu og verjenda sinna í dómsal. Þrír þeirra skýldu andlitum sínum á bakvið stílabækur en einn mætti með sólgleraugu og hauskúpu-grímu á meðan fjölmiðlar tóku myndir.

Enginn sakborninganna fjögurra á langan sakaferil að baki. Þrír eru þrítugsaldri en sá fjórði og elsti á sjötugsaldri, Páll Jónsson. Hann er timburinnflytjandi og í ákæru segir að fyrirtækið hans Hús og Harðviður hafi verið notað til peningaþvættis.

Þá er Jóhannes Páll Durr einnig á meðal sakborninga. Hann er á þrítugsaldri og hefur meðal annars verið liðsstjóri íslenskra landsliða í rafíþróttum. Hinir tveir eru Daði Björnsson á þrítugsaldri og Birgir Halldórsson einnig á þrítugsaldri.

Efnin voru gerð uppæk í Hollandi en meðal þess sem saksóknari krefst þess að verði dæmt upptækt er Rolex úr, Lexus bifreið, Wolkswagen Tiguan bifreið, 83 trjádrumbar, Samsung farsímar, Iphone farsími, grammavog, Apple fartölva, handsög, vog, sjö viðarbitar og svört ferðataska.

Mennirnir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald 5. ágúst 2022.
Fréttablaðið/Valli
Mennirnir eru ákærðir fyrir innflutning á tæplega 100 kílóum af kókaíni. Markaðsvirði efnanna eru talin vera um tveir milljarðar króna.
Mynd/Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu

Efnin komu aldrei til landsins

Lögreglan handtók fjóra karlmenn þann 5. ágúst 2022 vegna rannsóknar á stærsta kókaínmáli Íslandssögunnar. Mennirnir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald síðar sama dag í Héraðsdómi Reykjavíkur í þágu rannsóknarinnar.

Í tilkynningu frá lögreglu daginn eftir var greint frá því að málið varðaði innflutning á miklu magni af fíkniefnum og að mennirnir hefðu verið handteknir í sameiginlegum aðgerðum lögregluliðanna á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum, ríkislögreglustjóra og héraðssaksóknara. Málið komst upp vegna upplýsinga úr umfangsmiklu peningaþvættismáli og gögnum úr dulkóðuðu appi.

Efnin voru flutt í timbri í gámi frá Brasilíu til Hollands og þaðan átti að flytja efnin til Íslands. Efnin komu þó aldrei til landsins þar sem tollyfirvöld í Hollandi gerðu efnin upptæk og komu í staðin fyrir gerviefnum í timbrinu. Flutningur gámsins hélt sínu striki og var sendur áfram til Íslands líkt og til stóð frá upphafi. Gámurinn kom til landsins í lok júlí og var afgreiddur af tollsvæði í byrjun ágúst.

Þann 4. ágúst fylgdist lögreglan svo með því þegar timbrið var fjarlægt úr gámnum af einum sakborninga málsins. Síðar sama dag fjarlægði annar sakborningur malsins efnin úr timbrinu og tók hluta þeirra með sér áður en lögregla handtók hann.

Fjórir menn voru handteknir 5. ágúst 2022 og úrskurðaðir í gæsluvarðhald sama dag í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Fréttablaðið/Valli

Neituðu sök við þingfestingu

Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í nóvember síðastliðnum. Þar neituðu fjórmenningarnir ýmist sök eða neituðu að taka afstöðu til málsins. Sakborningarnir voru viðstaddir í gegnum fjarfundarbúnað.

Páll, Daði og Jóhannes neituðu allir sök á innflutningi á kókaíni en Birgir tók ekki afstöðu til málsins og óskaði eftir fresti til að tjá sig um ákæruna. Þá neituðu Páll, Daði og Jóhannes einnig sök á peningaþvætti.

Jóhannes er einnig ákærður fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa haft 5,24 grömm af marijúana og 38,25 grömm af MDMA í vörslu sinni sem lögreglan fann við leit á heimili hans. Hann játaði sök með fyrirvara um magnið fyrir héraðsdómi við þingfestingu málsins.

Daði var einnig ákærður fyrir fíkniefnalagabrot. Hann var tvisvar gripinn með samtals um 43 grömm af marijúana ásamt því að hafa verið með 995 grömm af kannabislaufum, 265 grömm af kannabisplöntum og 25 kannabisplöntur á heimili sínu. Daði játaði sök með fyrirvara um magn.

Vísað frá vegna formgalla

Aðalmeðferð málsins átti upphaflega að fara fram í héraðsdómi í byrjun janúar en var frestað. Anna Barbara Andradóttir, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, krafðist þess að fjórmenningarnir fengju ekki að vera viðstaddir við skýrslugjöf hvers annars til að koma í veg fyrir að framburður eins litist af framburði annars.

Héraðdsómur hafnaði kröfunni en saksóknari kærði úrskurðinn til Landsréttar sem vísaði málinu að endingu frá vegna formgalla.

Aðalmeðferð málsins fer líkt og fyrr segir nú fram í héraðsdómi en talsverðar líkur eru á að aðalmeðferð málsins dragist á langinn þar sem enn liggur ekki fyrir matsgerð sérfræðings á vegum Háskóla Íslands um þyngd og styrkleika fíkniefnanna. Þá vantar enn þýðingar á ýmsum skjölum tengdum málinu.

Verjendur sakborninganna vildu að fíkniefnin yrðu vigtuð upp á nýtt, en það reyndist ekki hægt þar sem hollensk yfirvöld eyddu öllu efninu nema tíu grömmum.