Aðalmeðferð í meiðyrðamáli Johnny Depp á hendur breska slúðurblaðsins The Sun hófst í morgun í London.

Johnny Depp stefndi slúðurblaðið The Sun og ritstjórann, Dan Wootton vegna meiðyrða.

Í grein The Sun sem var birt í apríl 2018 féllu ummælu um skilnað hans við leikkonuna Amber Heard. Heard sótti um skilnað árið 2016 eftir að hafa farið fram á nálgunarbann gegn Depp sökum meints heimilisofbeldis.

Stjörnuparið var gift á árunum 2015 til 2017.

Depp hefur alfarið tekið fyrir ásakanirnar að hafa beitt Heard ofbeldi og segir þær ekki á rökum reistar. Hann krefst þess að ummælin verði dæmd dauð og ómerk.

Johnny Depp og Amber Heard sáust mæta fyrir dóm í London í morgun. Bæði voru þau klædd andlitsgrímu vegna kórónuveirufaraldursins. BBC greinir frá.

Koma Johnny Depp til varnar

Meðal þeirra sem bera vitni í málinu í dag eru barnsmóðir og fyrrverandi kærasta Depp, Vanessa Paradis og fyrrverandi kærasta hans og leikkonan Winona Ryder. Þær muni bera vitni í gegnum fjarskiptabúnað. Búist er við að réttarhöldin muni standa yfir í þrjár vikur.

Málið átti að fara fyrir dóm í lok marsmánaðar en var frestað vegna kórónuveirufaraldursins.

Amber Heard klæddist andlitsgrímu.
Fréttblaðið/ Getty images.