Aðalheiður Ámundadóttir, blaðamaður á Fréttablaðinu, vinnur að handriti heimildamyndar sem kvikmyndaframleiðandinn Sigurjón Sighvatsson framleiðir um Bitcoin málið svokallaða.

Vísir greinir frá því í dag að Sigurjón væri að undirbúa gerð heimildarmyndarinnar en vitnað er í frétt Screen Daily sem birtist í gær. Framleiðslufyrirtæki Sigurjóns, Palomar Pictures, framleiðir myndina ásamt Sýn.

Aðalheiður staðfestir umrætt samstarf við Sigurjón og að undirbúningur hafi staðið frá því í haust. Hún hafi flogið til suðurhluta Spánar í desember á síðasta ári til að ræða við helstu aðila málsins; Sindra Þór Stefánsson og félaga hans sem þar eru búsettir.

Aðalheiður hefur fjallað ítarlega um málið fyrir Fréttablaðið frá því að það kom upp í upphafi árs 2018 og hefur fylgt því frá upphafi til enda. Hún sat aðalmeðferð málsins í héraðsdómi Reykjaness áður en sjömenningar voru sakfelldir fyrir aðild sína að þjófnuðum úr gagnaverum hér á landi. Þeir áfrýjuðu síðar málinu til Landsréttar.

Málið hefur vakið mikla athygli á heimsvísu og hefur meðal annars verið fjallað um það í New York Times, Guardian og tímaritinu Vanity Fair.

Bitcoin málið í hnotskurn

Fyrstu fréttir voru fluttar af innbrotum í gagnaver í upphafi árs 2018. Þá var brotist inn í þrjú gagnaver og stolið mörg hundruð sérhæfðum tölvum sem notaðar er til að grafa eftir rafmyntinni Bitcoin.

Grunur féll fljótlega á Sindra Þór og hóp annarra manna þar á meðal öryggisvörð. Gríðarleg leit var gerð af tölvubúnaðinum sem teygði sig yfir heimsálfu.

Fylgst var náið með rafmagnsnotkun landsmanna en tölvur eins og þær sem stolið var nota mikið rafmagn. Leitin skilaði þeim árangri að nánast öll kannabisframleiðsla á landinu var gerð upptæk en tölvurnar hafa þó aldrei fundist.

Allt ætlaði um koll að keyra þegar fréttir bárust af því að Sindri Þór hefði strokið úr fangelsinu Sogni, pantað sér leigubíl sem flutti hann til Keflavíkurflugvallar þaðan sem hann flaug til Stokkhólms með sömu vél og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Við tók mikið fjölmiðlafár þá daga sem Sindri var á flóttanum en hann var loks handtekinn í miðborg Amsterdam.

Sindri er einn fárra sem greitt hefur tryggingafé í því skyni að fá að yfirgefa landið þrátt fyrir farbann sem hann var úrskurðaður í eftir heimkomuna. Hann greiddi 2,5 milljónir og flaug til Spánar þar sem hann býr ásamt konu sinni og börnum, gegn því skilyrði að mæta til aðalmeðferðar málsins sem fór fram desember 2018.

Sjö voru ákærðir fyrir innbrotin og voru allir sakfelldir. Sindri Þór fékk þyngsta dóminn, fangelsi í fjögur ár og sex mánuði.