Nemandi við Fjöl­brauta­skólann í Breið­holti gagn­rýnir við­brögð skólans eftir að þeim var til­kynnt að sam­nemandi hennar nauðgaði henni í sumar­fríi þeirra beggja árið 2020. Þau eru 19 ára í dag en voru um 17 ára þegar at­vikið átti sér stað og því bæði börn.

Málið var kært til lög­reglu í mars árið 2021 og segir stúlkan að hún hafi fengið sím­tal frá lög­reglu fyrir nokkrum vikum um að rann­sókn málsins væri að hefjast.

Nemandinn opnaði sig um málið á sam­fé­lags­miðlum í gær í kjöl­far um­ræðu um slík mál innan fram­halds­skóla. Þar segir hún að það eins sem skólinn hefði boðið henni, eftir að hafa verið til­kynnt um málið, var að fá að taka mynd af stunda­skránni hans svo hún gæti forðast hann.

„Ég var svo búin að læra stunda­töfluna hans svo vel að ég vissi betur hvar hans næsti tími var en minn,“ segir stúlkan í samtali við Fréttablaðið en hún óskaði þess að vera nafnlaus. Skólinn hefur staðfest í samtali við Fréttablaðið að atvikið hafi verið tilkynnt til þeirra.

„Allir vinir mínir eru hér og þótt mig langi ekki að vera í kringum hann, vil ég ekki þurfa að flýja.“

Skipti um skóla

Stúlkan náði einum af sex á­föngum önnina eftir og var með fjölda fjar­vista.

„ Að vera í skóla með geranda sínum er ekkert grín, kvíða­köst hverja nótt fyrir skólann og kvíða­köst inná bað­her­bergi á milli tíma. Af­því að hann komst upp með nauðgun þá byrjaði hann að hrella mig í skólanum því hann vissi að hann kæmist upp með það líka,“ segir hún í færslu sinni.

Spurð hvort að hún hafi beðið um önnur úr­ræði eða hvort skólinn hafi boðið henni önnur úr­ræði segir hún að skólinn hafi boðist til þess að að­stoða hana við að komast inn í annan skóla en auk þess bauðst skólinn til þess að láta kennarana hennar vita af málinu svo að þau gætu að­stoðað hana ef hann væri með ein­hverjum hætti að á­reita hana á meðan þau væru í skólanum.

„Allir vinir mínir eru hér og þótt mig langi ekki að vera í kringum hann, vil ég ekki þurfa að flýja.“

Í sam­tali við Frétta­blaðið segir stúlkan, sem enn er nemandi, þar að hún hefði viljað fá önnur og betri við­brögð. Eftir að hafa gengið illa hætti hún í skólanum haustið 2021 en hóf svo núna í haust aftur nám í FB.

„Ég saknaði vina minna og námið í hinum skólanum hentaði mér ekki. Námið í FB hentar betur og er því hér núna,“ segir hún og að þetta seinki hennar út­skrift.

Hún segir að hún hefði viljað sjá meira frá skólanum eftir að þeim var til­kynnt um málið.

„Hann ein­hvern veginn hefur völdin og ég hefði viljað fá hann í fjar­nám.“

Guðrún Hrefna skólameistari segir að mistök hafi verið gerð þegar málið var ekki tilkynnt til barnaverndar innan skólans.
Mynd/Aðsend

Ekki tilkynnt til barnaverndar

Guð­rún Hrefna Guð­munds­dóttir skóla­meistari Fjöl­brauta­skólans í Breið­holti segir að stjórnendur skólans hafi gert mistök þegar málið kom upp og ekki tilkynnt það til barnaverndar. Beðist var afsökunar á því. Hún segir að skólastjórnendur séu tilbúnir til að endurskoða viðbrögð óski stúlkan eftir því.

Í samtali við Fréttablaðið segir Guðrún Hefna að innan skólans starfi teymi náms­ráð­gjafa, sál­fræðingur og mark­þjálfi sem nem­endur geti leitað til.

„Ef svona mál koma upp þá er tekin staða með þol­endum og hlustað á þá og reynt að gera líf þeirra bæri­legra,“ segir Guð­rún og að það sé reynt að koma til móts við þol­endur með því að færa til á stunda­töflum svo að gerandi og þolandi mætist ekki í tíma og að sam­skipti þeirra séu lág­mörkuð. Hún segir að auk þess sé einnig rætt við ger­endur en að hvert mál sé ein­stakt og tekið á því með ó­líkum hætti.

Hún út­skýrir að skólinn vinni al­mennt eftir á­ætlun gegn ein­elti sem lesa má á heima­síðu skólans.

„Brjóti nemandi af sér gegn öðrum nemanda innan skólans, er tekið á því máli sam­kvæmt reglum skólans og á­kvæðum um með­ferð á­greinings­mála,“ segir Guð­rún og vísar í skóla­reglur á vef skólans hér.

Gætu þegið hjálp

„Við myndum sannar­lega þiggja hjálp í með­ferð slíkra mála. T.d. gæti verið gott að til væri fagráð kyn­ferðis­of­beldis sem veitti skólum leið­beiningar um með­höndlun slíkra mála. Við í skólanum viljum gera allt sem við getum til að styðja þol­endur, en oft er ekki ljóst hvað við megum gera. Á þessu þarf að taka heild­rænt í kerfinu sem slíku,“ segir Guð­rún.

Hún segir að þessi mál komi sem betur fer ekki upp oft en að ef að þau komi upp, og varði börn, þá eigi að til­kynna það líka til barna­verndar­nefndar. Í máli stúlkunnar sem um ræðir var það ekki gert og segir Guð­rún að um hafi verið að ræða mis­tök, sem hafi svo verið leið­rétt.

„Vinnu­reglan er sú að slík mál eru til­kynnt til barna­verndar. Í þessu til­viki voru gerð þau mis­tök að málið var ekki til­kynnt til barna­verndar. Þessi mis­tök byggðu á mis­skilningi þar sem at­burðurinn hafði átt sér stað um sumarið og starfs­maður innan skólans sem sagt var frá málinu áttaði sig ekki á því að ekki var búið að til­kynna það. Á fundi með nemandanum og for­eldri hennar voru mis­tökin viður­kennd og beðist af­sökunar á þeim,“ segir Guð­rún.

Heldurðu að það hefði verið hægt að bregðast við með öðrum hætti í þessu máli?

„Já, til­kynna hefði átt um málið til barna­verndar­nefndar. Eftir sam­tal við nemandann og for­eldrið leitaði skóla­meistari ráða hjá fagráði ein­eltis­mála hjá Mennta­mála­stofnun. Niður­staðan var sú að mynda skjald­borg um nemandann innan skólans meðal kennara hennar og starfs­fólks til að tryggja að hún hefði á­vallt ein­hvern að leita til ef hún fyndi sig ó­örugga innan skólans. Þessi ráð­stöfun var á­kveðin í sam­ráði við nemandann og for­eldri hennar sem voru sátt við hana. Einnig var gripið til þess ráðs að tala við hinn meinta geranda. Var það gert í hvert sinn sem nemandinn kvartaði yfir á­reiti af hans hálfu innan skólans.

Hvorki nemandinn né for­eldri hennar gerðu at­huga­semdir við þetta verk­lag eftir að það var á­kveðið í sam­einingu og sýndist okkur sem sátt væri með það. Síðar á­kvað nemandinn að fara í annan skóla. Núna hefur nemandinn hins vegar snúið til okkar í skólann á ný,“ segir Guð­rún enn fremur um mál stúlkunnar.

Spurð hvort hún muni bregðast við málinu núna segir hún að skóla­stjórn­endur séu til­búnir til þess að fara yfir málið á ný.

„Megin at­riðið er að hlusta á þarfir nemandans og finna leiðir til að hjálpa henni að finna sig örugga innan skólans.“