Mjög margir hafa veikst og enn fleiri eiga eftir að gera það, andlát eru fjöldamörg á heimsvísu og þeim fer fjölgandi. Það reynir á, bæði almenning sem býr við verulega breytta heimsmynd, skert frelsi til þess að koma saman og allt annað umhverfi en við eigum að venjast í leik og starfi.

Það reynir ekki síst á starfsfólk í heilbrigðisþjónustu á öllum vígstöðvum, allt frá heilsugæslu og læknavakt til hjúkrunarheimila og svo auðvitað sjúkrahúsa þar sem hinir alvarlega veiku þurfa mikla umönnun. Þetta er ekki búið og við eigum eftir að vera í þessu langhlaupi talsvert í viðbót. Flestir hafa á einhverjum tíma þurft að ganga í gegnum erfiðleika, áföll og jafnvel veikindi. Þá erum við líka vön því að þurfa stundum að leggja eitthvað meira á okkur til að ná árangri, læra undir próf, þjálfa okkur í einhverri íþrótt, tryggja að samskipti við maka, fjölskyldu eða aðra gangi upp. Það eru hinar eðlilegu áskoranir lífsins og það sem styrkir okkur og mótar ásamt öllu hinu sem ég taldi ekki upp


Samstaða og æðruleysi


Í þessum kringumstæðum sem við núna stöndum frammi fyrir þurfum við að gera meira en venjulega, fylgja leiðbeiningum og komast í gegnum þennan storm sem öll heimsbyggðin er að glíma við. Það eru mótandi tímar og má segja að hér á landi sé fólk almennt reiðubúið að taka áskorunum af æðruleysi og standa saman til að leysa úr þeim vanda sem steðjar að. Við höfum iðulega gert það og núna er engin undantekning.

Fyrir heilbrigðisstarfsfólk gildir að geta varist veirunni sjálf og halda heilsu. Þannig tryggjum við að hægt sé að sinna þeim sem veikjast og þurfa aðstoð okkar. Til þess að geta varist er nauðsynlegt að eiga góð samskipti, vera vel upplýst um stöðu mála og fá þann hlífðarbúnað sem þarf á hverjum stað fyrir sig. Vinna samkvæmt ferlum sem eru lagðir upp á mismunandi stöðum heilbrigðiskerfisins og geta reitt sig á samstarfsfólk þegar á þarf að halda.

Það er fyrir utan það að passa svefn, næringu og mataræði auk hreyfingar á sama tíma til að komast í mark án þess að verða bensínlaus á leiðinni. Síðast en ekki síst að treysta á almenning að hann aðstoði við verkefnið með því að reyna að draga úr nýsmitum með þeim leiðbeiningum sem gefnar eru út hverju sinni.

Það er deginum ljósara að við getum komist á þann stað að þurfa að taka erfiðar ákvarðanir hérlendis líkt og kollegar okkar úti heimi, ef álag verður mikið og við höfum ekki nægjanleg úrræði til meðferðar.


Við megum heldur ekki þrátt fyrir þetta ástand gleyma að sinna öllum hefðbundnu verkefnunum sem fara hvergi, veikindi og undirliggjandi sjúkdómar sem þurfa okkar nálgun sem og bráðatilvik sem munu alltaf koma upp. Það er deginum ljósara að við getum komist á þann stað að þurfa að taka erfiðar ákvarðanir hérlendis líkt og kollegar okkar úti heimi, ef álag verður mikið og við höfum ekki nægjanleg úrræði til meðferðar.


Heilbrigðisstarfsfólk í ósanngjarnri stöðu


Í kringumstæðum sem þessum og við ofálag getur heilbrigðisstarfsfólk bugast, gert mistök og sagt eða gert hluti sem það sér eftir. Það er sett í stöðu sem er ósanngjörn og óleysanleg líkt og við höfum fylgst með í löndunum í kringum okkur. Það hefur verið mikið rætt um kulnun og brottfall starfsfólks, það getur aukist eftir svona faraldur.

"Moral Injury" er líka notað talsvert í dag sem þýða mætti sem samviskuáverka, en orðatiltækið á rætur að rekja til hersins og er skilgreint sem andleg vanlíðan sem orsakast af aðgerðum eða aðgerðarleysi sem hafa neikvæð áhrif á siðferðisvitund einstaklings.

Við þurfum því að tryggja að heilbrigðistarfsfólk haldi líkamlegri og andlegri heilsu.


Þetta er ekki geðsjúkdómur líkt og áfallastreituröskun. Hins vegar er talið að sjálfsmyndin skaðist. Upplifun einstaklinga af sjálfum sér eða umhverfi geti orðið neikvæð og leitt til depurðar eða kvíða, langvarandi vanlíðunar og jafnvel sjálfsvígshugsana. Að sama skapi geta slík atvik styrkt einstaklinga og aukið þrautseigju þeirra og getu til að takast á við ný verkefni.

Hvora leiðina einstaklingar fara veltur mikið á stuðningi fyrir, á meðan og eftir að hafa gengið í gegnum slíka lífsreynslu. Við þurfum því að tryggja að heilbrigðistarfsfólk haldi líkamlegri og andlegri heilsu. Við þurfum að vera vakandi fyrir líðan þeirra og gefa tækifæri til viðrunar og meðferðar á öllum stigum faraldursins, en ekki síst að honum loknum. Það gamla orðatiltæki að standa í lappirnar gildir nú sem áður fyrir alla einstaklinga, en við þurfum líka að passa það að standa með fólkinu okkar nú meira en áður.