Grænkeraparið, Natasha Katherine Cuculovski og Luca Padalini, eru stödd hér á landi til að vekja athygli á réttindum dýra og veganisma. Þau stóðu í gær fyrir mótmælum í verslun Hagkaups þar sem þau spiluðu ýmis óhljóð sem heyrast frá dýrum þegar þeim er slátrað.
Parið, sem yfirleitt er kallað „That Vegan Couple“, segir í samtali við Fréttablaðið að þau hafi ferðast um allan heim og alls staðar sé eins komið fram við dýr. Þau misnotuð og beitt ofbeldi. Þau telja að með Internetinu og samfélagsmiðlum sé auðveldara fyrir aðgerðarsinna að koma því áleiðis til almennings hvernig sé komið fram við dýr. Þau telja að flest mannfólk aðhyllist hugsjónir veganisma, um að ekki eigi að beita dýr óþarfa ofbeldi eða misnotkun, en að margir eigi eftir að samræma gjörðir sínar við hugsjónirnar. Þau telja að með tíð og tíma eigi það þó eftir að breytast.
Spurð hvort áhugi Íslendinga á grænkeralífsstíl, eða veganisma, hafi verið mikill og hvort hann komið þeim á óvart segir Natasha að þau eigi góðan vin frá Íslandi sem sé vegan aðgerðasinni, hann hafi verið búinn að fræða þau um stöðuna hérlendis og hafi hvatt þau til að koma hingað.
„Við vissum hvað væri að gerast og vonuðust til þess að geta komið með eitthvað nýtt og meira til Íslands. Það er því það sem við gerðum með truflunarmótmælunum í gær, það hafði aldrei verið gert hér áður. Viðbrögðin komu kannski ekki endilega á óvart, en við erum mjög ánægð með þau,“ segir Natasha.
Hún segir að hér á Íslandi megi sjá á öllum þeim fjölda sem aðhyllast veganisma að það er hægt að gera það á frekar auðveldan hátt.
„Það er sístækkandi hreyfing, það eru æ fleiri veitingastaðir sem bjóða upp á vegan mat, það er ekkert óvenjulegt eða á jaðrinum við að vera vegan lengur. Það er venjuleg hugmynd. Meirihluti fólks er nú þegar sammála hugsjón veganisma. Þau styðja ekki óþarfa ofbeldi gegn dýrum og árið 2019 er óþarfi að misnota dýr eða vera ofbeldisfull gagnvart þeim fyrir mat, klæðnað, prufu, skemmtun eða nokkuð annað. Við getum lifað hamingjusamlegu lífi án þess. Fólk er sammála því í hjarta sínum og hug, en þarf að færa það í sínar gjörðir þrisvar á dag. Það eru góð tækifæri til þess hér á Íslandi,“ segir Natasha.
Mótmæltu í Hagkaup í gær
Í gærkvöldi stóðu þau fyrir friðsamlegum mótmælum, eða svokallaðri truflun, í Hagkaup í Skeifunni. Nærri kjötkæli verslunarinnar stóð hópur fólks, sem tók þótt í mótmælunum, með svart límband fyrir munninum og spilaði fyrir gesti verslunarinnar óhljóð sem dýr gefa frá sér við slátrun. Um var að ræða fyrstu truflunar-mótmæli sem haldin hafa verið á Íslandi.
Fjallað var um gjörninginn í gær á vef Fréttablaðsins. Mikill fjöldi fólks hefur brugðist við fréttinni á bæði vefmiðlinum og á Facebook og skilið eftir athugasemdir. Sumir styðja gjörninginn á meðan aðrir gera það ekki. Natasha og Luca segir að það komi þeim ekkert á óvart. Gjörningurinn sé gerður til að vekja hjá fólki viðbrögð.
„Sama hvort það er á jákvæðan eða neikvæðan hátt þá erum við endanlega að reyna að vekja fólk til umhugsunar um réttindi dýra. Við erum auðvitað að tala um stórar félagslegar breytingar og alltaf þegar kemur að breytingum þá fer mannfólkið í vörn í byrjun,“ segir Luca.
Milljónir orðin vegan
Spurður hvort að það sé að breytast og fólk sé orðið jákvæðara í garð veganisma og til slíkra breytinga segir Luca ljóst að fólk sé jákvæðara víða um heim.
„Milljónir manns eru orðin vegan. Sérstaklega á síðustu árum má sjá stigvaxandi vöxt á mörgum sviðum. Sama hvort það er litið til fjölda fólk sem er orðið vegan, vegan matvöru sem er í boði, líka á veitingastöðum og verslunum sem eru ekki endilega vegan. Einnig má sjá aukningu í áhuga á grasrótarsamtökum um allan heim og þátttöku í þeim,“ segir Luca.
Natasha tekur undir þetta og bætir við að því sterkari sem hreyfing dýrverndunarsinna er, því hraðar breiðist út sannleikur um hvernig er komið fram við dýr.
„Þetta er mjög auðveld umbreyting. Fólk sér að hvernig er komið fram við dýr samræmist ekki þeim gildum sem þau nú þegar hafa. Fólk styður ekki að dýr séu beitt ofbeldi að óþörfu eða að saklausar verur séu misnotaðar. Að verða grænkeri snýst því aðeins um að aligning gjörðir okkur við gildi sem við höfum fyrir. Dýraverndunarsinnar varpa ljósi á sannleikann og gera þannig almenningi það ljóst hvernig er komið fram við dýrin. Það er ein ástæða þess að vöxtur í veganisma er svo mikill núna um allan heim. Það sem iðnaðurinn hefur áður getað falið fyrir neytandanum, eru dýraverndunarsinnar nú að sýna almenningi og fólk getur því nú tekið upplýsta ákvörðun um hvort þau vilji halda áfram að styðja við slíkt eða ekki,“ segir Natasha.
Parið hefur verið hér síðan fyrir helgi og hafa tekið þátt í mörgum viðburðum. Þau héldu fyrirlestur og vinnusmiðju á Gauknum síðasta fimmtudag og tóku þátt í Cube of Truth mótmælum á Lækjartorgi síðasta föstudag. Á laugardaginn tóku þau þátt í samstöðuvöku fyrir dýr í samvinnu við Reykjavík Animal Save. Samstöðuvakan var haldin, líkt og áður, við húsnæði Sláturfélags Suðurlands. Fylgst var með því þegar dýrin voru flutt til slátrunar og birt myndbönd þar sem heyra mátti þegar dýrunum var slátrað.
Natasha og Luca fara af landi brott á morgun til Grikklands þar sem þau halda ferðalagi sínu áfram. Spurð hvort það verði fleiri viðburðir á Íslandi áður en þau fara heim segja þau að best sé fyrir áhugasama að fylgjast með á samfélagsmiðlum.

Eins komið fram við dýr um allan heim - líka á Íslandi
Undanfarin ár hefur komið út gríðarlega mikið af heimildarmyndum þar sem aðgerðasinnar hafa tekið upp í leyni myndskeið og myndir í sláturhúsum og birt þau svo á samfélagsmiðlum. Í fyrra kom út myndin Dominion. Myndin afhjúpar öfgafullar aðstæður og slæma meðferð á dýrum í landbúnaði í Ástralíu. Spurð hvort þau telji að sömu aðstæður og meðferð á dýrum sé að finna hér á Íslandi segir Luca að aðstæður séu svipaðar víðs vegar um heim.
„Svo dýrin endi á matardisknum, verður að skera þau á háls og sú gjörð, ein og sér, er ofbeldisfull. Það skiptir því kannski ekki máli hvort það gerist hér á Íslandi, Í Ástralíu, eða annars staðar. Ofbeldi er ofbeldi og að skera einhvern á háls getur aldrei verið friðsamleg athöfn. Sérstaklega þegar aðthöfnin er óþörf og fórnarlambið vill ekki deyja,“ segir Luca.
Natasha segir að ein hrikalegasta senan í Dominion sé þegar svínin eru leidd til slátrunar, en áður en þeim er slátrað fara þau í gasklefa þar sem þau eru gerð metvitundarlaus, áður en þau eru skorin á háls.
„Við vitum að hér á Íslandi er að finna slíka gasklefa í einhverjum sláturhúsum. Það sem gerist hér, það gerist líka annars staðar í heiminum. Þetta eru staðlar og löglegar aðgerðir sem að er notast við í landbúnaði um allan heim. Ef að myndefni væri tekið upp í Asíu, Ástralíu, Bandaríkjunum og á Íslandi og svo blandað saman og sýnt fólki, þá gæti það ekki greint hvað er tekið upp hvar, því alls staðar eru sömu staðlar. Það er engin góð leið, eða betri leið, til að framkvæma slæman hlut og það er rangt að skera einhvern á háls að óþörfu,“ segir Natasha.
Natasha og Luca eru á ferðalagi um heiminn til að vekja fólk til umhugsunar um réttindi dýra. Áður en þau komu til Íslands voru þau í Kanada í fimm vikur og eftir að þau fara héðan munu þau heimsækja 14 lönd í Evrópu. Í fyrra fóru þau í samskonar ferðalag um Bretland, Írland og Bandaríkin.
„Þegar þú heimsækir þessar drápsverksmiðjur, býli og aðra staði þar sem dýr eru misnotuð í ólíkum löndum og heimsálfum, þá sérðu að það sama er að gerast alls staðar. Það er vegna þess að dýr eru álitin neysluvara og þau eru einn hluti framleiðslunnar í iðnaði sem veltir mörgum milljörðum árlega. Iðnaðurinn hugsar eingöngu um ágóða, hefur enga miskunn og misnotar dýr, manneskjur og umhverfið,“ segir Luca.
Fjölmiðlar aðgengilegir á Íslandi
Natasha og Luca segja að það sé ekki endilega munur á því í heiminum hversu meðvitað fólk er, sérstaklega þegar litið er til þess að upplýsingarnar eru öllum aðgengilegar á Internetinu og berast fljótt um á samfélagsmiðlum.
„Ég held að það sé að verða algengara og staðlað um allan heim að sjá fólk berjast fyrir réttindum dýra. Munurinn hér á Íslandi er að fjölmiðlar eru fljótir að fjalla um veganisma. Í öðrum löndum er kannski mikið að gerast en erfitt fyrir aðgerðasinna að fá pláss í fjölmiðlum. Hér virðist fólk vera opnara fyrir þessum upplýsingum, og það er frábært,“ segir Natasha.
Þau segja að smæð landsins vinni einnig með aðgerðasinnum hér og það geti jafnvel verið auðveldara hér að koma upplýsingunum áleiðis til fólks um réttindi dýra.

Tegundamismunun algeng um allan heim
Natasha og Luca fóru síðdegis í dag í hvalaskoðun og sögðu að það hafi komið þeim á óvart að konan sem sá um túrinn hvatti sérstaklega fram við ferðamennina sem voru í ferðinni til að borða ekki hvalkjöt á veitingastöðum, en hafi svo á sama tíma hvatt til neyslu á öðrum dýrum.
„Hún var mjög skýr að hvalkjöt og hvalaveiðar væru ekki hluti af íslenskri menningu og ef að við vildum styðja við þessar fallegu verur í náttúrunni þá þyrftu við að huga að því að vernda þær, og það myndum við gera með því að borða þær ekki. En svo hélt hún áfram og sagði að við ættum að njóta þess að borða öll hin dýrin og fiskinn sem er í boði á Íslandi. Við urðum fyrir miklum vonbrigðum með það því með því var hún að ýta undir tegundamismunun [e. Speciesism] þar sem gefið er í skyn að ákveðnar dýrategundir séu æðri en aðrar. Í þessu tilviki, að hvalurinn sé dýrmætari en til dæmis kind eða kýr“ segir Natasha.
Hún segir að öll dýr vilji lifa og því sé um að ræða ákveðna þversögn. Með því að ýta undir slíka tegundafordóma og mismunun sé á sama tíma ýtt undir misnotkun á sumum tegundum, en ekki öðrum.
„Öll dýr eru jöfn þegar litið er til getu þeirra til að þjást og vilja þeirra til að lifa frjáls og í friði. Þau eiga öll skilið að lifa lífi sínu eins og þau vilja, alveg eins og við, og án þess að vera stjórnað af öðrum“ segir Natasha.
Haldið þið að þetta muni nokkurn tíma breytast?
„Það er áhugavert að velta því fyrir sér. Þótt að borgararéttindi hafi verið leidd í lög á 7. áratugnum er kynþáttahatur enn ríkjandi í samfélaginu. Ég að réttindi dýra verði leidd í lög á okkar tímum, en hvort að við getum útrýmt tegundafordómum, er ég ekki viss um. Það gæti viðgengist lengur, eins og kynþáttahatur hefur gert,“ segir Luca.
Heimurinn verður ekki vegan á einni nóttu
Oft þegar fjallað er um veganisma spyr fólk hvað eigi að gera við öll dýrin í heiminum ef allir verði vegan. Luca segir að þau séu oft spurð að þessu en telur ekki að fjöldi dýra sé vandamál sem þurfi að hafa áhyggjur af.
„Því miður fyrir öll dýrin sem eru fórnarlömb um allan heim, verður heimurinn ekki vegan á einni nóttu. Það sem það þýðir er að smám saman verður minni eftirspurn eftir dýraafurðum og samhliða því mun iðnaðurinn smám saman rækta færri dýr. Dýrin eru aðeins ræktuð í dag til að þau séu svo skorin á háls. Eftir því sem að eftirspurn minnkar þá minnkar framleiðslan þannig að einn dag verður fjöldinn orðinn þannig að við getum komið þeim fyrir í sérstöku friðlandi og hugsað um þeim og leyft þeim að lifa ævi sína, hamingjusöm, á öruggum stað,“ segir Luca.
Luca segir að þótt mikið sé fjallað um misnotkun dýra í matvælaiðnaði megi ekki gleyma því að dýr og dýraafurðir eru einnig notuð í ýmsan klæðnað, snyrtivörur, skemmtun, prufu og í gæludýraiðnaðinum.
„Það þarf að veita því meiri athygli og fólk þarf að vera meðvitað um það hvernig og á hvaða máta dýr eru misnotuð,“ segir Luca.
Hægt er að fylgjast með parinu á heimasíðu þeirra hér og á Facebook og Instagram.