Varaþingmaður Vinstri grænna segir að það sé ekki ósætti innan flokksins vegna útlendingafrumvarps Jón Gunnarssonar dómsmálaráðherra. Hins vegar er grasrót flokksins ósátt við frumvarpið sjálft og hafa 30 félagar Vinstri grænna sent áskorun á þingflokk Vinstri hreyfingar – græns framboðs og skorað á þingflokkinn að fella frumvarpið.
Í dag birtist grein á Vísi titluð „Grasrót gegn útlendingafrumvarpi“. Þar segir hópur fólks innan Vinstri grænna að útlendingafrumvarpið einkennist af útlendingaandúð og það virðist hafa það eitt markmið að neita fleirum, enn hraðar, um hæli.
„Um leið er viðkomandi refsað með ómannúðlegri og ómanneskjulegri meðferð, mögulega án læknisaðstoðar eða annarrar virðingar á grunnmannréttindum. Skortur er á samráði við þá aðila sem vinna og koma að málaflokknum, aðilum með sérþekkingu og reynslu, já og eldri kynslóðir útlendinga sem þekkja af eigin raun hvernig betur má að slíku standa. Það sanna ótal umsagnir frá fagaðilum og mannréttindahreyfingum sem hafa ekki ratað inn í frumvarpið,“ segir meðal annars í skoðunarpistlinum.
Daníel E. Arnarsson, varaþingmaður VG í Reykjavík suður er meðal höfunda pistilsins. Hann neitar fyrir að það sé ósætti innan flokksins vegna umrædds frumvarps og segir samtalið við flokksforystuna vera gott. Hann sér enga aðra lausn í málinu en að frumvarpinu verði hafnað.
„Við höfum verið í mjög góður samtali við flokksforystuna og þau vita vel að því að við erum mjög ósátt við þetta frumvarp. Ég er eiginlega sannfærður um að þau eru það líka. Ég held í hjörtum þeirra vilja þau ekki samþykkja þetta. Það er ekkert í stefnu VG sem er hægt að sjá í þessu frumvarpi og ekki heldur í ríkisstjórnarsáttmála, nema með atvinnuleyfin, en það hefði getað verið sér frumvarp,“ segir Daníel í samtali við Fréttablaðið.
Meðal þeirra sem hafa varað við afleiðingum frumvarpsins er Embætti landlæknis og Læknafélagið. Í athugasemdum landlæknis segir að af frumvarpinu verði ráðið að sú staða geti skapast að útlendingar verði sviptir rétti til heilbrigðisþjónustu. „Slíkt er óásættanlegt,“ sagði Embætti landlæknis.
„Þegar maður er búinn að lesa umsagnir um frumvarpið, þá lendir maður á því að það verður að hafna þessu frumvarpi. Ég sé enga aðra lausn á því,“ segir Daníel.
Að sögn Daníels hafa mörg góð mál komið frá ríkisstjórninni. Hann segir að útlendingafrumvarpið sé í berhögg við stefnu ríkisstjórnarinnar.
„Það eru mjög mörg góð mál að fara í gegn, eins og kynrænt sjálfræði, aðgerðaáætlun gegn hatri og fleira. Þetta kemur manni spánskt fyrir sjónir, að þessi ríkisstjórn með VG, sem hefur talað fyrir mannréttindamálum ætli síðan að samþykkja þetta frumvarp. Ég held að það sé það sem komi okkur í grasrótinni mest á óvart, vegna þess að þetta er svo á skjön við önnur mál sem hafa komið frá þeim , sem eru virkilega góð,“ segir Daníel.
Daníel segist hafa fulla trú á því að ráðherrar VG í ríkisstjórninni séu að gera allt sem þau geta gagnvart frumvarpinu.
„Ég trúi því hjartanlega að þau séu að því. VG hefur alltaf talað fyrir mannréttindum og stefna flokksins þegar það kemur að umsækjendum um alþjóðlega vernd er mjög skýr og hefur ekki breyst mikið. Það sem við erum að gera með þessu er að styðja forystuna okkar,“ segir Daníel.
Daníel segir að frumvarpið sé skref aftur á bak miðað við núgildandi útlendingalög.
„Að okkar mati er þetta ómannúðlegt frumvarp. Þessi tímarammi sem er styttur í frumvarpinu er vondur. Við sjáum ekki fram á það að þetta sé mannúðlegra frumvarp heldur en núgildandi útlendingalög. Þá spyrjum við okkur, af hverju erum við að taka skref aftur á bak þegar við eigum að taka skref fram á við þegar það kemur að mannúð og mannréttindum?,“ segir Daníel.