Vara­þing­maður Vinstri grænna segir að það sé ekki ó­sætti innan flokksins vegna út­lendinga­frum­varps Jón Gunnars­sonar dóms­mála­ráð­herra. Hins vegar er gras­rót flokksins ó­sátt við frum­varpið sjálft og hafa 30 fé­lagar Vinstri grænna sent á­skorun á þing­flokk Vinstri hreyfingar – græns fram­boðs og skorað á þing­flokkinn að fella frum­varpið.

Í dag birtist grein á Vísi titluð „Gras­rót gegn út­lendinga­frum­varpi“. Þar segir hópur fólks innan Vinstri grænna að út­lendinga­frum­varpið ein­kennist af út­lendinga­and­úð og það virðist hafa það eitt mark­mið að neita fleirum, enn hraðar, um hæli.

„Um leið er við­komandi refsað með ó­mann­úð­legri og ó­manneskju­legri með­ferð, mögu­lega án læknis­að­stoðar eða annarrar virðingar á grunn­mann­réttindum. Skortur er á sam­ráði við þá aðila sem vinna og koma að mála­flokknum, aðilum með sér­þekkingu og reynslu, já og eldri kyn­slóðir út­lendinga sem þekkja af eigin raun hvernig betur má að slíku standa. Það sanna ótal um­sagnir frá fag­aðilum og mann­réttinda­hreyfingum sem hafa ekki ratað inn í frum­varpið,“ segir meðal annars í skoðunar­pistlinum.

Daníel E. Arnars­son, vara­þing­maður VG í Reykja­vík suður er meðal höfunda pistilsins. Hann neitar fyrir að það sé ó­sætti innan flokksins vegna um­rædds frum­varps og segir sam­talið við flokks­for­ystuna vera gott. Hann sér enga aðra lausn í málinu en að frum­varpinu verði hafnað.

„Við höfum verið í mjög góður sam­tali við flokks­for­ystuna og þau vita vel að því að við erum mjög ó­sátt við þetta frum­varp. Ég er eigin­lega sann­færður um að þau eru það líka. Ég held í hjörtum þeirra vilja þau ekki sam­þykkja þetta. Það er ekkert í stefnu VG sem er hægt að sjá í þessu frum­varpi og ekki heldur í ríkis­stjórnar­sátt­mála, nema með at­vinnu­leyfin, en það hefði getað verið sér frum­varp,“ segir Daníel í sam­tali við Frétta­blaðið.

Meðal þeirra sem hafa varað við af­leiðingum frum­varpsins er Em­bætti land­læknis og Lækna­fé­lagið. Í at­huga­semdum land­læknis segir að af frum­varpinu verði ráðið að sú staða geti skapast að út­lendingar verði sviptir rétti til heil­brigðis­þjónustu. „Slíkt er ó­á­sættan­legt,“ sagði Em­bætti land­læknis.

„Þegar maður er búinn að lesa um­sagnir um frum­varpið, þá lendir maður á því að það verður að hafna þessu frum­varpi. Ég sé enga aðra lausn á því,“ segir Daníel.

Að sögn Daníels hafa mörg góð mál komið frá ríkis­stjórninni. Hann segir að út­lendinga­frum­varpið sé í ber­högg við stefnu ríkis­stjórnarinnar.

„Það eru mjög mörg góð mál að fara í gegn, eins og kyn­rænt sjálf­ræði, að­gerða­á­ætlun gegn hatri og fleira. Þetta kemur manni spánskt fyrir sjónir, að þessi ríkis­stjórn með VG, sem hefur talað fyrir mann­réttinda­málum ætli síðan að sam­þykkja þetta frum­varp. Ég held að það sé það sem komi okkur í gras­rótinni mest á ó­vart, vegna þess að þetta er svo á skjön við önnur mál sem hafa komið frá þeim , sem eru virki­lega góð,“ segir Daníel.

Daníel segist hafa fulla trú á því að ráð­herrar VG í ríkis­stjórninni séu að gera allt sem þau geta gagn­vart frum­varpinu.

„Ég trúi því hjartan­lega að þau séu að því. VG hefur alltaf talað fyrir mann­réttindum og stefna flokksins þegar það kemur að um­sækj­endum um al­þjóð­lega vernd er mjög skýr og hefur ekki breyst mikið. Það sem við erum að gera með þessu er að styðja for­ystuna okkar,“ segir Daníel.

Daníel segir að frum­varpið sé skref aftur á bak miðað við nú­gildandi út­lendinga­lög.

„Að okkar mati er þetta ó­mann­úð­legt frum­varp. Þessi tíma­rammi sem er styttur í frum­varpinu er vondur. Við sjáum ekki fram á það að þetta sé mann­úð­legra frum­varp heldur en nú­gildandi út­lendinga­lög. Þá spyrjum við okkur, af hverju erum við að taka skref aftur á bak þegar við eigum að taka skref fram á við þegar það kemur að mann­úð og mann­réttindum?,“ segir Daníel.