Óperan KOK eftir Þórunni Grétu Sigurðardóttur sem byggir á samnefndri ljóðabók Kristínar Eiríksdóttur sem kom út árið 2014 var frumsýnd á Nýja sviði Borgarleikhússins á miðvikudaginn.

Ljóð Kristínar, sem fjalla á beinskeyttan hátt um samband og sambandsleysi, eru í öruggum höndum Þórunnar Grétu tónskálds, sem nær vel að fanga bæði ástand og umhverfi með óhefðbundinni tækni.

Gréta Sigurðardóttir notar hljóðlíkingar með hörpu og fiðlu í forgrunni þegar hún vinnur með ljóðatexta Kristínar Eiríksdóttur í óperunni KOK.
Fréttablaðið/Valli

„Harpan og fiðlan eru hluti af ákveðinni veru. Ég nota hljóðlíkingar þegar ég vinn með texta og einn áhrifavaldur í fiðluhljóminum er ítalska tónskáldið Salvatore Sciarrino,“ segir Þórunn. Hún segir eitthvað líkamlegt við textann hennar Kristínar.

Eldgos og gæsahúð

„Þetta er svo mikil gæsahúð; hárin rísa, neglurnar klofna. Þarna er verið að lýsa líkamlegu ástandi þegar maður gengur í gegnum ákveðnar tilfinningar. Þetta fer í gegnum líkamann áður en röddin brýst fram. Ég vinn mikið út frá þessum hughrifum og bý til hljóðheim með þessum lýsingum, út frá þessum hrolli, þessari klígju og þessum kalda svita í lófunum.“

Þungamiðjan í verkinu er að standa upp gegn einhverju ofurefli og það sem gerist í líkamanum í aðdraganda og í kjölfar þess. Þórunn segir að skipta megi verkinu niður í þrjá þætti: jarðhræringarnar, kvikusöfnun og gos.

„Við vorum einmitt að æfa þetta í mestu jarðskjálftahrinunum. Kannski hugsa ég svolítið um verkið eins og eldgos.“

Þórunn nýtur þess að semja verk ofan í flytjendur, ef svo mætti að orði komast, og reyna á þanþol raddarinnar og er verkið nánast samið fyrir Hönnu Dóru Sturludóttir mezzósópran.

Ryk dustað af minningum

Ljóðabók Kristínar er mjög sjónræn og þar er blandað saman ljóðum og myndlist. Í sviðsetningu óperunnar er unnið áfram með þessa hugmynd með því að varpa myndböndum, sem Sigurður Möller Sívertsen hannaði, á vegginn, gólfið og á flytjendurna sjálfa.

Una Sveinbjarnardóttir fiðluleikari og Hanna Dóra Sturludóttir mezzósópran túlka og tjá flóknar tilfinningar í óperunni KOK sem byggir á ljóðum Kristínar Eiríksdóttur.
Mynd/Gunnlöð Jóna

„Við ákváðum að fara lengra inn í þetta ástand sem Kristín skapar í ljóðabók sinni,“ segir Sigurður.
Sviðið er sveipað hvítu efni sem minnir á dúka eða rúmföt; búið er að breiða yfir húsgögnin, eins og til að varðveita gamalt heimili í tímahylki. Í gegnum verkið sjáum við söngkonuna dusta rykið af erfiðum minningum með orðum Kristínar og tónlist Þórunnar.

Sjálfbærir búningar

Hvítir kjólar flytjendanna virðast renna saman við umhverfið; fiðluleikarinn Una Sveinbjarnardóttir og hörpuleikarinn Katie Buckley eru eins og varanlegur hluti af frásögninni í verkinu en í lokin nær ljóðmælandinn, sem Hanna Dóra mezzósópran túlkar, bókstaflega að klæða sig úr ástandinu.

„Þegar ég les textann hennar Kristínar sé ég fyrir mér eitthvað fornt og tímalaust og mig langaði að ná þessu fram í búningahönnuninni,“ útskýrir Steinunn Eyja Halldórsdóttir búningahönnuður. Steinunn hannaði búningana og sviðsmynd með sjálfbærni að leiðarljósi og notaði efni frá Rauða krossinum.

Ofbeldi ástarinnar
Þórunn, Kristín og Kolfinna Nikulásdóttir leikstjóri hafa áður unnið saman við gerð útvarpsverksins Fákafen sem hlaut Grímuverðlaun árið 2018.

„Það var aldrei spurning um neitt annað, hver ætti að gera þetta verk,“ segir Kolfinna með vísan til þess að þær hafi smollið saman í fyrra verkefninu. Hún upplifði bókina á sama hátt og Þórunn, sem myndrænt og líkamlegt verk.

Leikstjórinn Kolfinna Nikulásdóttir segir alltaf hafa legið beint við að þær Þórunn Gréta myndu vinna verkið saman.
Fréttablaðið/Valli

„Kristín nær að draga upp mynd af ástarsambandi sem maður getur sjálfur ekki orðað, um þetta ofbeldi í ástinni. Þarna nær hún að festa hendur á hinu ósagða, eitthvað sem maður finnur fyrir gegnumgangandi í ástinni og mennskunni. Þetta er á einhverri vídd sem maður finnur en nær ekki að setja í orð í daglegu lífi.

Hún gerir þetta svo meistaralega,“ lýsir Kolfinna. Hún segist hafa þurft að lesa bókina í hollum og þurft að leggja hana ítrekað frá sér þegar líkami hennar brást við orðunum.

„Þetta virkar eins og endurlit manneskju á eitthvert ástand sem var, ofbeldi, kúgun, eða eitthvað sem var ekki rétt en án þess að vera af einhverjum ásetningi. Kannski var þetta óvart. Stundum upplifir maður ástina í sjálfri sér sem ofbeldisfulla. Það er stundum erfitt að orða það en eina leiðin til þess að tala um það er með því að finna það í gegnum svona verk.“

Saumuð dramatík

Á meðan Þórunn vann í hljóðvíddinni var Kolfinna að huga að hinu þrívíða. Vinna þeirra fléttaðist svo saman og var svo dramatíkin saumuð inn í óperuna.

„Ég er með mjög úthugsaðar hugmyndir um hverja hreyfingu og bendingu en þetta er algjör samvinna. Ég sá fyrir mér hvítt því mig langaði að vinna með leikhúsmiðilinn og fara eitthvert með hann og Steinunn kom með þessa hugmynd með lökin.

Mér er búið að líða eins og málara að vinna með Pálma Jónssyni ljósamanni og Sigurði Möller, manni mínum og myndbandshönnuði. Nú er mikið í tísku að vinna með mínímalisma en mér finnst gaman að fara gegn því. Það mætti segja að þetta verk sé óður til miðilsins á ákveðnum myndlistarfleti. Við komumst upp með það því óperan er svo abstrakt.“

Ákveðinn línudans

Er erfitt að koma svona abstrakt verki frá sér á skiljanlegan hátt? Að segja svona sögu eða varpa fram þessu ástandi?
„Þetta er í raun tvennt ólíkt: Að segja sögu og vekja tilfinningu. Við eltum það sem er í bókinni, það er ekki línuleg frásögn eða saga þótt það sé fullkomin uppbygging í bókinni. Við erum vön sögu og viljum sögu, eðlilega. Þannig að okkar verkefni var að teygja þetta nær söguforminu án þess að svíkja þetta abstrakt form og lögmálin í ljóðlistinni og tónlistinni.

Þetta er ákveðinn dans því mér finnst eins og þetta verk sé ekki saga, þetta er ástand,“ segir Kolfinna og vekur athygli á þeirri þróun sem verður á ljóðmælandanum í gegnum verkið sem byrjar á „mér“ og „þér“ og endar á „okkur“ og „þeim“.

„Bókin byrjar á: „þú gafst mér holur og ég gaf þér tönn“ og færist út í: „við eigum svo lítið“ og „þið gáfuð okkur“. Hún fer úr þessum minnsta hring yfir í stærri hring, úr þessu persónulega yfir áfallamynstur sem erfist milli kynslóða.“

Önnur sýning á KOKi verður í Borgarleikhúsinu í kvöld, sunnudaginn 9. maí.