Þóra Hrund Guð­brands­dóttir, við­skipta- og markaðs­fræðingur og mark­þjálfi, segir að það sé alltaf góður tími til að setja sér mark­mið. Það þurfi ekki endi­lega að gera það um ára­mót. Þóra Hrund er annar eig­enda fyrir­tækisins MUNUM sem gefur á hverju ári út MUNUM dag­bókina sem er hönnuð til að há­marka líkur á að ná árangri með mark­miða­setningu.

Spurð hvort ára­mót séu besti tíminn til að setja sér mark­mið segir Þóra Hrund þau á­kveðin tíma­mót en séu ekkert endi­lega besti tíminn.

„Ára­mótin eru alltaf á­kveðin tíma­mót og því kannski al­gengt að fólk sé að setja sér mark­mið á þeim tíma. Fólk er oft búið að borða mikið og ó­hóf­lega um jólin, hreyfa sig minna og vaka lengur og því oft mikil þörf hjá fólki að breyta um gír. Ára­mótin eru þó ekkert endi­lega betri tími en annar til að setja sér mark­mið en það getur verið gott að fara inn í nýtt ár með skýrari sýn og stefnu um hvað árið ber í skauti sér,“ segir Þóra Hrund.

Hún segir að hvaða tími sem er henti og að það geti verið gott að setja sér mark­mið ár­lega. Eitt ár sé þó frekar langur tími og það geti verið erfitt að halda yfir­sýn yfir mark­miðin sín yfir svo langan tíma.

„Í raun eru það svo langur tími að það getur verið erfitt að fylgja þeim eftir nema að vera mjög skipu­lagður og agaður í þessari vinnu. Það getur því verið gott að skipta árinu niður í árs­fjórðunga eins og fyrir­tækin gera. Það er miklu ger­legra að horfa og gera að­gerða­bundnar á­ætlanir þrjá mánuði fram í tímann og taka síðan stöðuna fyrir fram­haldið,“ segir Þóra Hrund.

Hún segir að það sé mikil­vægt að hafa í huga að rann­sóknir bendi til þess að það séu ekki nema um 20 prósent af fólki sem, að stað­aldri, setji sér mark­viss mark­mið.

„Ef við snúum þeirri tölu við og skoðum þá í raun þann hóp sem er ekki að setja sér mark­mið, eða um 80 prósent af fólki, þá má í raun segja að sá hópur hafi ekki á­kveðna stefnu eða sýn í sínu lífi og hvað það vilji fá út úr því. Við festumst oft í dag­legri rútínu og gleymum að gefa okkur rými til að hugsa hvað er það sem ég virki­lega vil eða langar að fá út úr lífinu,“ segir Þóra Hrund.

Myndir/MUNUM

Oftar í sleik við manninn sinn

Hún segir það mjög al­gengan mis­skilning að mark­miða­setning sé leiðin­leg og að mark­miðin krefjist tak­markanna og aga.

„Það er í raun fátt skemmti­legra en að setja sér skemmti­leg mark­mið. Til dæmis að setja sér mark­mið um meiri sam­veru með fjöl­skyldu eða vinum, lesa fleiri bækur eða fara á fleiri deit með makanum. Ein sem ég átti spjall við um daginn ætlar að fara oftar í sleik við manninn sinn á þessu ári. Þetta eru allt skemmti­leg og göfug mark­mið og ekkert síður mikil­væg fyrir okkur en að ætla að setja sér mark­mið um hreyfingu, að missa ein­hver jóla kíló eða ætla að fá launa­hækkun í vinnunni,“ segir Þóra Hrund.

Hún segir að til að ná mark­miðunum þurfi að varast að þau verði ekki of al­menn, heldur vel skil­greind og að þau séu gerð SMART.

„Sem er vel þekkt og auð­veld að­ferð til að nota í mark­miða­setningu til að há­marka líkurnar á að við náum að fylgja þeim eftir,“ segir Þóra Hrund.

Ekki gott að ætla sér að sigra árið fyrstu vikuna í janúar

Hún segir að það sé gott að hafa í huga þegar maður setur sér mark­mið að ætla sér ekki að sigra árið fyrstu vikuna í janúar.

„Okkur hættir til að ætla okkur of mikið og ætla að taka allt í gegn á nýju ári. Við ætlum að taka út allan sykur eftir allt jóla­konfektið, hreyfa okkur á hverjum degi, vakna snemma og byrja daginn á því að hug­leiða í 10 mínútur. Það er ein­mitt á­stæðan fyrir því að um 80 prósent af fólki er búið að svíkja ára­móta­heitið sitt fyrir 15. janúar. Þetta eru of stórar breytingar á skömmum tíma til að við séum lík­leg til að halda þetta út til lengri tíma,“ segir Þóra Hrund.

Hún segir lykilinn að byrja smátt og helst þannig að það taki því ekki að sleppa því að gera það sem maður hefur sett sér að gera.

„Síðan getur maður hægt og ró­lega bætt við. Ef maður finnur að mark­miðið sitt er ekki raun­hæft og við eigum í erfið­leikum með að fylgja því eftir þá er mikil­vægt að slaufa því ekki eða breyta mark­miðinu sjálfu heldur að skoða leiðina sem við erum að fara til að ná mark­miðinu okkar og endur­skil­greina hana. Er mark­miðið mitt of al­mennt, er mæli­einingin rangt skil­greind hjá mér eða er það tíma­ramminn sem er rangur, er ég ekki búin að búta þetta niður í nægi­lega mörg lítil skref eða að­gerðir. Það er partur af mark­miða­setningunni að þurfa að að­laga ferlið að mark­miðinu þínu og því það allra mikil­vægasta að þegar við dettum af baki eða gerum mis­tök að gefast ekki upp heldur að koma sér aftur á bak og finna nýja leið í átt að mark­miðinu sínu,“ segir Þóra Hrund.

Heldurðu að 2020 setji mark­miða­setningu fólk í annað sam­hengi? Svo margt sem má ekki eins og að hittast og fara í rækt og annað – sem er kannski oft það sem fólk ætlar sér að bæta?

„Ég held að mörg mark­mið og margir draumar hafa runnið í sandinn á síðasta ári út af að­stæðum sem enginn átti von á. Við hjá MUNUM upp­lifum að fólk sé í miklu mark­miða­ham og ætlar að taka árið 2021 með trompi því bókin okkar varð upp­seld á met tíma í ár. Það er hollt og gott að upp­lifa það að við höfum ekki alltaf fulla stjórn á lífinu okkar og þá skiptir að­lögunar­hæfni og það að geta verið sveigjan­legur miklu máli,“ segir Þóra Hrund.

Þóra Hrund segir að hægt sé að setja sér markmið einn eða með öðrum. Það geti verið gott að deila markmiðunum með öðrum.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Mikilvægt að vera sveigjanleg en samt setja tímaramma

Hún segir það eiga við mark­miða­setningu eins og lífið sjálft. Við þurfum að geta að­lagað mark­miðin að að­stæðum hverju sinni og nefnir sem dæmi að ef maður hefur sett sér mark­mið um að fara í ræktina þrisvar sinnum í viku þá verði í stað þess að skoða aðra hreyfingu sem getur komið í staðinn á meðan ræktin er lokuð. Þóra Hrund segir að það hjálpi mikið að setja mark­miðunum tíma­ramma.

„Það er líka bara allt í góðu ef maður á­kveður að gefast bara ekki upp því tíminn rann út. En það er akkurat þess vegna sem það er svo mikil­vægt að hafa tíma­mörk. Það eru ef­laust fleiri en ég sem kannast við að eiga það til að vera vinna hlutina á síðustu stundu, en þá er svo mikil­vægt að hafa þessi tíma­mörk sem veita manni bæði á­kveðið að­hald og setja á mann pressu þegar kemur að þessum tíma­mörkum,“ segir Þóra Hrund.

Í MUNUM bókinni er sér­stak­lega fjallað um að það sé stundum gott að deila mark­miðum sínum með öðru. Þóra Hrund segir að það sé þekkt að fólk virðist eiga erfiðara með að svíkja aðra, en að svíkja sjálfan sig.

„Það er er lægri þröskuldur því oft veit enginn af því nema við. Þegar við deilum með öðrum getur það ýtt undir það að við viljum ekki svíkja aðra eða vera þekkt fyrir að vera manneskjan sem svíkur mark­miðin sín. Sjálfs­virðing okkar byggir að miklu leyti á því hversu dug­leg við erum að standa með okkur sjálfum og því sem við ætlum okkur og því er mikil­vægt að setja sjálfan sig framar­lega í for­gangs­röðinni og reyna að forðast það að svíkja okkur sjálf trekk í trekk,“ segir Þóra Hrund.

Fer á markmiða-deit með manninum sínum

Hún segir það þó fara eftir eðli mark­miðanna hvort það sé gott að deila þeim með öðrum eða jafn­vel setja sér mark­mið með öðrum.

„Það er alltaf á­kveðið að­hald og pressa að segja öðrum frá og getur aukið líkurnar á því að við fylgjum planinu eftir. Stundum eru hópar, pör, teymi, fyrir­tæki eða fjöl­skyldur að setja sér sam­eigin­leg mark­mið sem getur verið bæði gott og gaman að vinna að. Þá er þetta sam­eigin­leg reynsla og verk­efni sem maður deilir með öðrum,“ segir Þóra Hrund.

Hún segist mikil tals­manneskja þess að setja sér mark­mið með öðrum. Hún hafi sjálf sem dæmi sett sér mark­mið með manninum sínum og það hafi Erla, hinn eig­andi MUNUM., líka gert.

„Við Erla eigum báðar á­kveðið mark­miða-­deit með mönnunum okkar á hverju ári þar sem við förum yfir árið sem var að líða, hvað gekk vel og hvað mætti betur fara og setjum okkur svo mark­mið fyrir það næsta. Bæði per­sónu­leg, vinnu­tengd og sem par og fljöl­skylda. Þetta er ó­trú­lega skemmti­leg vinna og maður fer spenntur inn í nýtt ár með alls­konar spennandi í kortunum og eitt­hvað til að hlakka til sem er svo gott vega­nesti inn í árið og hvers­dags­leikann,“ segir Þóra Hrund.

Hún segir að einnig hafi þetta nýst henni sem frá­bært leið til að kenna börnunum hennar til að setja sér mark­mið og hugsa á þennan hátt um það sem þau eru að gera.

„Ég á einn sjö ára sem æfir taekwondo og það á hug hans allan. Bara með því að spyrja hann ein­faldar spurningar eins og hvað langar þig að gera á árinu 2021? Hvað ætlar þú að gera í taekwondoinu til að fá blátt belti og hvað þarftu að gera til að æfa þig? Hvað langar þig að við gerum saman sem fjöl­skylda? Þá erum við komin með mjög skýr mark­mið og væntingar sem hægt er að ræða reglu­lega og fylgjast með fram­gangi. Þannig lærir hann bæði að hafa á­hrif á það sem við ætlum að gera á árinu og líka að taka á­byrgð á eigin árangri og að hann komi ekki að sjálfu sér,“ segir Þóra Hrund.

Það er ein­mitt á­stæðan fyrir því að um 80 prósent af fólki er búið að svíkja ára­móta­heitið sitt fyrir 15. janúar. Þetta eru of stórar breytingar á skömmum tíma til að við séum lík­leg til að halda þetta út til lengri tíma

Búin í markmiðavinnu þegar allt breyttist

Spurð um hennar per­sónu­legu mark­mið fyrir árið sem var að hefjast segir Þóra Hrund að hún hafi síðla síðasta sumars farið í djúpa mark­miða­vinnu og hafi verið komin með vel skil­greindan far­veg fyrir komandi tíma en svo hafi lífið gripið inn í.

„Mark­miðin tóku heldur miklum breytingum þegar ég komst að því að ég ætti von á mínu þriðju barni, sem er auð­vitað bara dá­sam­legt. Ég er því núna að setja mikinn fókus á lífs­stíls­breytingar til lengri tíma og þar eiga dag­legar venjur stóran þátt. Ég er að skoða venjurnar mínar og hvort þær séu að þjóna mér eða ekki. Ör­litlar breytingar sem við gerum endur­tekið geta haft gríðar­leg á­hrif til lengri tíma og skera oft úr um árangur á hvaða sviði sem er. Pínu­lítil stefnu­breyting getur skilað þér á allt annan á­fanga­stað. Mig langar að til­einka mér fleiri góðar venjur sem þjóna mér bæði and­lega og líkam­lega,“ segir Þóra Hrund.

Spurð hvort hún hafi nokkurn tíma ekki náð mark­miðum sínum segir hún að það hafi oft gerst. Þegar það gerist sé mikil­vægt að gefa sér rými bæði í mis­tök og að allt gangi ekki alltaf eftir eins og maður vonaðist eftir. Gott sé að velta því fram hvað hafi orðið til þess að maður náði ekki mark­miðinu og í stað þess að gefast upp að ein­beita sér að því að finna aðra leið að því.

„Það að mis­takast er partur af ferlinu og þá er bara að endur­marka leiðina ef maður vill enn þá ná þessu mark­miði. Við eigum það líka til að stýrast af ótta við mis­tök og kort­leggja allt sem mögu­lega gæti farið úr­skeiðis og því bara á­kveðið að það sé nú bara betra að sleppa þessum blessuðu mark­miðum. Það er gott að prufa að snúa við­horfinu við og hugsa hvað ef þetta verður bara frá­bært og gengur svaka­lega vel? Það er miklu betra að standa ekki uppi í eftir­sjá yfir því að hafa ekki reynt heldur en að láta vaða og fikra sig á­fram í rétta átt því eitt er víst, að við skorum ekki í 100 prósent af þeim skotum sem við tökum ekki,“ segir Þóra Hrund.

Hvað langar þig að gera árið 2021? MUNUM býður þér á fyrirlestur í kvöld mánudaginn 11. janúar kl.20. Farið verður...

Posted by MUNUM on Monday, 11 January 2021

Mörg tæki og tól sem aðstoða

Þóra Hrund segir að hægt sé að nýta sér fjöl­breytta flóru tækja og tóla til að fylgjast með mark­miða­setningu sinni. Hún mælir þó að sjálf­sögðu með MUNUM dag­bókinni sem sé sér­stak­lega hönnuð sem verk­færi í slíkri vinnu og til að halda utan um allt á einum stað.

„En það eru ótal mörg önnur tól og tæki sem ég hvet fólk til að nýta sér og finna sér við sitt hæfi. Rann­sóknir hafa marg­sýnt fram á að það að skrifa mark­mið niður með blað og penna eykur líkurnar á því að við náum mark­miðum okkar um­tals­vert svo gamli mátinn á alltaf vel við. Sjálf vil ég reyna að hafa þetta ná­lægt mér og tengja við þau tól sem ég nota dag frá degi og er ég auð­vitað al­gjör­lega „húkt“ á dag­bókinni minni. Einnig nota ég App­le úrið mitt til að minna mig á alls­kyns hluti sem ég er að reyna að temja mér og þá sér­stak­lega í tengslum við góðar venjur eins og að standa reglu­lega upp, drekka vatn, og muna að anda djúpt. Eins má nefna öpp eins og Fabolous fyrir venjur og 25 minu­tes fyrir tíma­stjórnun,“ segir Þóra Hrund.

Hún segir að lokum að hún vilji skora á les­endur að setja sér eitt mark­mið næstu 30 daga og ef að fólk vilji að­stoð sé MUNUM að fara af stað með 30 daga á­skorun fyrir ein­stak­linga.

„Ekki ætla þér um of, stattu frekar við það sem þú ætlar þér og mundu að verð­launa þig í lokin.“

Hægt er að kynna sér bókina og aðrar vörur MUNUM hér á vef­síðunni.