Björgunar­sveitar­hópar frá suð­vestur­horninu voru kallaðir út rétt fyrir fjögur í dag eftir að tveir hópar týndust í þokunni.

Davíð Már Bjarna­son, upp­lýsinga­full­trúi Lands­bjargar, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að grunur er á að fleiri séu villtir á svæðinu.

„Þetta er orðið þannig að þetta er að minnsta kosti tveir hópar. Þetta er þannig að það er búið að vera lokað í dag. Það er svarta­þoka og leiðinda­veður eins og sést á vef­mynda­vélunum. Fjöl­miðlar og lög­regla hafa greint frá því í dag að það hefur verið slatti af fólki þarna í dag,“ segir Davíð Már.

„Rétt fyrir fjögur fóru að berast til­kynningar frá fyrst einum hóp og svo öðrum sem eru þarna í vand­ræðum. Þetta er um 10 manns sem eru þarna í vand­ræðum, villt, köld og blaut. Það voru kallaðir út björgunar­sveitar­hópar frá suð­vestur­horninu það eru þarna 10 til 15 hópar á leiðinni upp á gos­stöðvarnar,“ segir Davíð Már.

Veðurskilyrðin við gosstöðvarnar eru afar slæm í dag.
Fréttablaðið/Anton Brink

„Þannig við erum til­búin að bregðast við ef þetta verður eitt­hvað meira, sem við vonum auð­vitað ekki, en erum þá alla­vega til taks að því það er vitað af þó­nokkrir um­ferð þarna í dag,“ segir Davíð Már.

Þyrla Land­helgis­gæslunnar var á æfingu þegar leitin hófst og segir Ás­geir Er­lends­son hjá Land­helgis­gæslunni að þyrlan gerði til­raun til að að­stoða við leitina en það gekk ekki vegna veðurs.

„Þegar þeir koma er bara svarta­þoka og ekki nein skil­yrði til að leita úr lofti og þyrlan snéri bara við,“ segir Ás­geir.