Á­tökin á milli ísraelskra her­manna og palestínskra borgara hafa breiðst yfir Vestur­bakkann eftir margra daga átök á Gaza sem eru meðal blóðugustu stríðs­á­taka á svæðinu síðan 2014. BBC greinir frá.

Að minnsta kosti 10 Palestínu­menn eru sagðir hafa látist á Vestur­bakkanum og hundruð særst eftir að ísraelskir her­menn notuðu byssur, tára­gas og gúmmí­s­kot gegn Palestínu­mönnum sem voru að mestu vopnaðir bensín­sprengjum og flugeldum.

Á­tökin hófust á mánu­dag eftir margra vikna upp­safnaða ólgu í Austur-Jerúsalem sem rakin er til aukinnar á­sóknar ísraelskra land­nema í palestínskar fast­eignir í borgar­hlutanum. Ólgan náði há­punkti sínum í á­tökum á Musteris­hæðinni í gömlu borg Jerúsalem, einum helgasta stað Gyðing­dóms þar sem má einnig finna Al Aksa moskuna, þriðja helgasta stað Íslams­trúar.

Hamas-sam­tökin sendu fjölda flug­skeyta frá Gaza eftir að hafa krafist þess að Ísraels­menn hörfuðu frá svæðinu en flest þeirra voru skotin niður af flug­skeyta­vörnum Ísraels. Ísraels­her hefur svarað með hörðum hefndar­að­gerðum, þar á meðal í­trekuðum loft­á­rásum á Gaza.

Eins og í hryllings­mynd

Að minnsta kosti 126 manns hafa látist á Gaza, þar af 31 börn, og 950 manns eru særðir. 8 manns hafa látist í Ísrael. Sam­einuðu þjóðirnar telja að um það bil 10.000 Palestínu­menn hafi flúið heimili sín á Gaza vegna á­takanna síðan á mánu­dag.

„Okkur leið eins og við værum í hryllings­mynd. Flug­vélarnar sveimuðu yfir okkur og skrið­drekar og sjó­herinn létu sprengjum rigna og við gátum okkur hvergi hreyft. Börn, konur og menn voru öskrandi allt um kring,“ segir Salwa Al-Attar, íbúi á Gaza sem flúði sprengju­á­rásirnar á­samt fjöl­skyldu sinni.

Segir að Hamas muni gjalda dýru verði

Mikil mót­mæli brutust út í borgum og bæjum á Vestur­bakkanum í dag en Ísraels­menn hafa farið með völd á svæðinu síðan 1967. Bar­dagar brutust út á milli ísraelskra her­manna og ungra Palestínu­manna sem sam­kvæmt frétta­ritara BBC, Sebastian Us­her, hafa upp­örvast í ljósi at­burða síðustu viku. Á sama tíma voru haldin mót­mæli á að­liggjandi landa­mærum Jór­daníu og Líbanon að Ísrael til stuðnings Palestínu.

Benja­min Netanyahu, for­sætis­ráð­herra Ísraels, sagði í yfir­lýsingu í dag að hernaðar­að­gerðir gegn palestínskum víga­mönnum myndu halda á­fram eins lengi og þyrfti. For­sætis­ráð­herrann bætti því við að Hamas-sam­tökin, sem hann kallar hryðju­verka­sam­tök, myndu þurfa að gjalda á­tökin dýru verði.

Ísraels­her hefur verið með fjöl­mennt her­lið í við­bragðs­stöðu við landa­mæri Gaza frá því á fimmtu­dag. Herinn hefur sagst vera að í­huga inn­rás á svæðið en á­kvörðun hefur að sögn enn ekki verið tekin.