Óskin um eilíft líf er örugglega tálsýn nema menn trúi á aðrar víddir en þá sem við búum í akkúrat núna. Ekki ætla ég að fara nánar út í þá sálma og eftirlæt það iðkendum hverrar trúar fyrir sig á hvaða ferðalagi viðkomandi er. Hins vegar hefur maðurinn lengi velt vöngum yfir því hvernig við getum lengt veru okkar hér og hefur læknisfræðin og þróun hennar auðvitað spilað aðalhlutverkið þar. Með nýrri tækni, meiri þekkingu og framleiðslu lyfja og bóluefna höfum við náð mjög langt. Umhverfi okkar og aðstæður auk fjárráða hafa mikið um þetta að segja líka og samanburðurinn við fátækari og efnaminni lönd sýnir það glöggt.


Margar aðferðir hafa verið prófaðar í því skyni og tilraunir gerðar en án þess að teljandi árangur hafi náðst í því að hægja á öldrun, hvað þá lengja umtalsvert líf einstaklinga. Góð gen og almenn skynsemi koma manni ansi langt þar til flóknari stuðnings verður þörf. Forvarnir eru nauðsynlegar til að draga úr líkum á sjúkdómsmyndun og þá skiptir rétt meðferð höfuðmáli til að draga úr hrörnun og versnandi líkamsstarfsemi líkt og við háum blóðþrýstingi og sykursýki svo dæmi séu tekin.


Ég fæ oft spurninguna um það hvort ekki séu einhver leyndarmál sem við læknar eigum eða töfralyf sem geta yngt mann upp eða bætt starfsemi líkamans. Oft koma þá til tals hormónar og hormónalyf. Sérstaklega er þá verið að horfa til karl- og kvenhormóna auk vaxtarhormóns en þau eru mun fleiri líkt og IGF eða melatónín og núna nýverið gamalt sykursýkislyf sem við höfum notað mikið í gegnum tíðina. Vissulega hafa þessi efni margvísleg áhrif og geta tímabundið haft jákvæð áhrif, en við þekkjum ekki til hlítar þær aukaverkanir sem af þeim kunna að hljótast. Það að snúa við öldrun, eða „anti aging“ meðferðir sem boðið er upp á, er að verulegu leyti á tilraunastigi, þó við vitum mun meira í dag en við gerðum fyrir einungis fáum árum. Þá eru í boði ýmsir kokteilar af vítamínum, andoxurum, hormónum, mataræðisleiðbeiningum, föstu og hreyfingu. Þó má segja að enn vanti nægjanlega einstaklingsmiðaðar nálganir, sem ég hef áður sagt að sé líklega framtíðin.

Það er ekkert leyndarmál að samvera með fjölskyldu og vinum er að öllum líkindum enn einn lykillinn að langlífi og góðri heilsu bæði líkamlega og andlega. Það að rækta sig og aðra, vera góð manneskja í grunninn og hjálpsöm á sama tíma og við sinnum eigin frumþörfum er sennilega ein besta leiðbeining sem við getum gefið. Mikilvægt er að muna að tíminn sem okkur er gefinn er takmarkaður og það er um að gera að njóta hans og gefa af sér.


Okkur hefur ekki enn tekist að finna lykilinn að eilífu lífi, né heldur tekist sérlega vel upp ennþá þrátt fyrir mikinn áhuga og vilja að sanna virkni einstaka meðferða. Mikið af gögnum byggir á dýratilraunum sem ekki endilega eru yfirfæranlegar á menn. Því gildir hið fornkveðna ennþá, jafnvægi og meðalhóf er best. Það má þó leyfa sér stöku óhóf af og til. Það er ágætis leiðbeining að lifa lífinu lifandi og njóta ferðalagsins, það gleymist stundum líka.