Bryndís Haraldsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar og þingkona Sjálfstæðisflokksins, svaraði á þingi í dag harðri gagnrýni frá því í gær á fundarstjórn hennar í nefndinni. Hún greindi einnig frá því að á morgun mæti bæði dómsmálaráðherra og fulltrúar Útlendingastofnunar á fund nefndarinnar til að ræða brottvísanir.

„Í gær sat ég þetta líka frá­bæra kvenna­þing sem haldið er í Hörpu en mér skilst að hér í gær, undir liðnum fundar­stjórn for­seta, hafi ég sem for­maður alls­herjar- og mennta­mála­nefndar verið gagn­rýnd fyrir fundar­stjórn mína. Ég ætla bara að segja það að halda því fram að eitt­hvað hafi verið af­máð úr fundar­gerðum alls­herjar- og mennta­mála­nefndar er bara hel­ber vit­leysa,“ sagði Bryn­dís Haralds­dóttir, þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins og for­maður alls­herjar- og mennta­mála­nefndar, á þing­fundi í dag.

Þar vísar Bryn­dís til þing­fundar gær­dagsins, þar sem fjöldi þing­manna lét í ljós ó­á­nægju sína að for­maður alls­herjar- og mennta­mála­nefndar hafi ekki boðað dóms­mála­ráð­herra og full­trúa Út­lendinga­stofnunar á fund nefndarinnar á mánu­daginn eins og óskað hafði verið eftir í síðustu viku.

Arn­dís Anna Kristínar­dóttir Gunnars­dóttir, þing­kona Pírata, var meðal þeirra sem gagn­rýndu Bryn­dísi, en í gær­morgun lagði hún fram bókun á fundi alls­herjar- og mennta­mála­nefndar vegna formanns sem ekki boðaði dóms­mála­ráð­herra á fund nefndarinnar í morgun. Arn­dís vakti at­hygli á bókun sinni á þingi í gær, en þrír þing­menn höfðu á síðasta fundi nefndarinnar stutt til­lögu þess efnis að boða hann á fundinn

„Þegar slík beiðni er lögð fram er for­manni nefndar skylt að boða til fundar. Skýrt var að beiðnin laut að því að boða skyldi dóms­mála­ráð­herra, Út­lendinga­stofnun og ríkis­lög­reglu­stjóra á fundinn, og var jafn­framt farið fram á að sendar yrðu til­teknar spurningar til þessara aðila fyrir fundinn til að fundurinn yrði árangurs­ríkur og tóku fundar­menn, meðal annars for­maður, undir að það væri gagn­legt,“ segir Arn­dís í bókun sinni.

Í bókuninni kom einnig fram að for­maður hafi ekki boðað aðilana á fundinn, að það hafi verið gerð til­raun til að afmá kröfuna úr fundar­gerð og að spurningarnar hafi ekki verið sendar.

Í pontu þvertók Bryn­dís fyrir þessar stað­hæfingar Arn­dísar. Dagskrávaldið sé í hennar höndum þar sem hún er formaður nefndarinnar.

„Og svo öllum sé það ljóst mættu full­trúar stoð­deildar ríkis­lög­reglu­stjóra á fund okkar alls­herjar- og mennta­mála­nefndar í gær og áttum við þar mjög gott sam­tal þar sem þessir aðilar fóru yfir þá brott­vísun sem að hefur verið mikið í fjöl­miðlum,“ sagði Bryn­dís, og bætti við að á morgun mæti bæði dóms­mála­ráð­herra og Út­lendinga­stofnun á fund nefndarinnar til að ræða sama mál.

„Ég vil koma því á fram­færi hér að það hafi verið óskað eftir gestum, við verðum við því að sjálf­sögðu. En það er ekki þar með sagt að ég sem for­maður nefndarinnar geti ekki haft dag­skrár­valdið og á­kveðið hverjir koma hve­nær,“ sagði Bryn­dís.