Bryndís Haraldsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar og þingkona Sjálfstæðisflokksins, svaraði á þingi í dag harðri gagnrýni frá því í gær á fundarstjórn hennar í nefndinni. Hún greindi einnig frá því að á morgun mæti bæði dómsmálaráðherra og fulltrúar Útlendingastofnunar á fund nefndarinnar til að ræða brottvísanir.
„Í gær sat ég þetta líka frábæra kvennaþing sem haldið er í Hörpu en mér skilst að hér í gær, undir liðnum fundarstjórn forseta, hafi ég sem formaður allsherjar- og menntamálanefndar verið gagnrýnd fyrir fundarstjórn mína. Ég ætla bara að segja það að halda því fram að eitthvað hafi verið afmáð úr fundargerðum allsherjar- og menntamálanefndar er bara helber vitleysa,“ sagði Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar, á þingfundi í dag.
Þar vísar Bryndís til þingfundar gærdagsins, þar sem fjöldi þingmanna lét í ljós óánægju sína að formaður allsherjar- og menntamálanefndar hafi ekki boðað dómsmálaráðherra og fulltrúa Útlendingastofnunar á fund nefndarinnar á mánudaginn eins og óskað hafði verið eftir í síðustu viku.
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingkona Pírata, var meðal þeirra sem gagnrýndu Bryndísi, en í gærmorgun lagði hún fram bókun á fundi allsherjar- og menntamálanefndar vegna formanns sem ekki boðaði dómsmálaráðherra á fund nefndarinnar í morgun. Arndís vakti athygli á bókun sinni á þingi í gær, en þrír þingmenn höfðu á síðasta fundi nefndarinnar stutt tillögu þess efnis að boða hann á fundinn
„Þegar slík beiðni er lögð fram er formanni nefndar skylt að boða til fundar. Skýrt var að beiðnin laut að því að boða skyldi dómsmálaráðherra, Útlendingastofnun og ríkislögreglustjóra á fundinn, og var jafnframt farið fram á að sendar yrðu tilteknar spurningar til þessara aðila fyrir fundinn til að fundurinn yrði árangursríkur og tóku fundarmenn, meðal annars formaður, undir að það væri gagnlegt,“ segir Arndís í bókun sinni.
Í bókuninni kom einnig fram að formaður hafi ekki boðað aðilana á fundinn, að það hafi verið gerð tilraun til að afmá kröfuna úr fundargerð og að spurningarnar hafi ekki verið sendar.
Í pontu þvertók Bryndís fyrir þessar staðhæfingar Arndísar. Dagskrávaldið sé í hennar höndum þar sem hún er formaður nefndarinnar.
„Og svo öllum sé það ljóst mættu fulltrúar stoðdeildar ríkislögreglustjóra á fund okkar allsherjar- og menntamálanefndar í gær og áttum við þar mjög gott samtal þar sem þessir aðilar fóru yfir þá brottvísun sem að hefur verið mikið í fjölmiðlum,“ sagði Bryndís, og bætti við að á morgun mæti bæði dómsmálaráðherra og Útlendingastofnun á fund nefndarinnar til að ræða sama mál.
„Ég vil koma því á framfæri hér að það hafi verið óskað eftir gestum, við verðum við því að sjálfsögðu. En það er ekki þar með sagt að ég sem formaður nefndarinnar geti ekki haft dagskrárvaldið og ákveðið hverjir koma hvenær,“ sagði Bryndís.