Hugmyndin að Mælaborði barna er byggð á vinnu Kópavogsbæjar, UNICEF á Íslandi og félags- og barnamálaráðuneytisins að sögn Hjördísar Evu Þórðardóttur, sérfræðings í félags- og barnamálaráðuneytinu sem sér um þróun og innleiðingu mælaborðsins.
Hún segir mælaborðið styðja við samþættingu, forgangsröðun og stefnumótun í hinu nýja kerfi sem Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, kynnti í gær.
„Öll þjónusta á að byggja á tölfræði og greiningu gagna sem eru á mælaborðinu,“ segir Hjördís Eva.
Hún segir nánari útfærsla mælaborðsins vera í vinnslu innan stýrihóps á vegum Stjórnarráðsins. Í stýrihópnum eiga níu ráðuneyti fulltrúa, auk Hagstofu Íslands, umboðsmanns barna og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Unnið er að uppsetningu mælaborðs fyrir ríki og sveitarfélög. Gögnin sem mynda mælaborðið eru fengin víða úr samfélaginu, frá Hagstofunni, Rannsóknum og greiningu, barnavernd, HSBC rannsókn og Skólapúlsinum.
„Til að tryggja aukið jafnræði barna og tryggja að við séum að stuðla að því að viðkvæmasti hópur barna og þau málefni sem er brýnt að tekið sé á hverju sinni séu aðgengileg. Það er til mjög mikið af gögnum og skýrslum um börn sem koma fram og vekja athygli, umtal og umræðu en enda ofan í skúffu. Það vilja allir gera vel en það hefur vantað heildstæða sýn og markvissa eftirfylgni með tölfræðigögnunum. Með því að setja þau fram í mælaborðinu erum við að tryggja að þessi gögn séu nýtt með markvissari hætti en líka að það sé verið að nota gagnreyndar aðferðir og gögn til að marka stefnu um börn á Íslandi og ekki síst viðkvæmustu hópa barna,“ segir Hjördís Eva.

Leið til að fylgjast með þróun og líðan
Í mælaborðinu eins og það er í Kópavogi er að finna vísitölu barnvæns sveitarfélags og segir Hjördís Eva að starfshópurinn sem vinni að mælaborðinu muni skoða hvort fara eigi sömu leið. Það verði þó gert í fullu samráði við þau sveitarfélög sem koma til með að taka þátt í verkefninu.
„Vísitala er möguleg leið fyrir ríki og sveitarfélögin til að fylgjast með þróun á líðan og velferð barna, hvort þróunin sé jákvæð eða neikvæð, jafnt sem hún styður við forgangsröðun málefna sem eru brýnust hverju sinni.
„Með því að nýta tölfræðigögn um velferð barna í stefnumótun með markvissari hætti er stuðlað að betri forgangsröðun og ráðstöfun fjármuna. Við megum líka aldrei gleyma því að, að baki tölunum eru auðvitað börn og líf og því er gríðarlega mikilvægt að bregðast við,“ segir Hjördís Eva.