„Það er bara komin niðurstaða og það þýðir ekkert að vera að æsa sig yfir því,“ „sagði Freyja Haraldsdóttir í samtali við Margréti Erlu Maack á Fréttavaktinni á Hringbraut í gærkvöldi. Freyja, baráttukona fyrir fatlaða og fyrrverandi varaþingmaður, var nýverið metin hæf af Barnaverndarstofu til að taka að sér fósturbarn. Viðtalið við Freyju sem tekið er á heimili hennar má sjá í spilaranum hér að neðan.

Málið á sér langan aðdraganda og vann Freyja mál sitt fyrir Hæstarrétti árið 2019. Margrét Erla þáði heimboð til Freyju og þær ræddu úrskurðinn, kommentakerfið og foreldrahlutverkið. Þegar frétt barst af því að Freyja hefði endanlega fengið hæfismat til að fóstra barn birtust ýmis ummæli á samfélagsmiðlum og sum miður góð.

„Það sem mér finnst kannski spaugilegt við þetta er hvað við erum alltaf í einhverjum hamfarahugmyndum"

Barnið myndi örugglega kafna

Aðspurð hvað sé asnalegasta eða heimskulegasta kommentið á samfélagsmiðlum, eða kannski fyndnasta kommentið sem hún man eftir segir hún:

„Ég man eftir einu sem mér fannst alveg magnað og þá sagði einhver að barnið myndi örugglega kafna, það myndi bara borða dótið sitt og ég lægi bara þarna og gæti ekki gert neitt. Það var ótrúlega sorglegt komment en líka samt svo fyndið, ég er með aðstoðarfólk og ef ég eða þau kafna þá fæ ég aðstoð og það er til hlutur sem heitir sjúkrabíll og maður hringir á hann. Það gildir bara það sama eins og á öðrum heimilum."

Það sem mér finnst kannski spaugilegt við þetta er hvað við erum alltaf í einhverjum hamfarahugmyndum, eru í alvöru venjuleg heimili bara svona, allir alltaf að kafna, ég meina hvað er í gangi?“

Sjö ára ferli

„Ég setti bara smá um þetta í status á Facebook og umræðan fór af stað þá, hún hefur náttúrulega verið mjög mikil í gegnum þetta ferli og síst það sem hefur verið erfitt, það rosalega erfitt að fara í gegnum svona dómsmál, þetta eru sjö ár en það er ekki bara ég sem verð fyrir umræðunni heldur bara fatlað fólk almennt, mínir aðstandendur, vinir og svo framvegis. Þetta er alltaf leiðinlegt en það er bara komin niðurstaða,“ sagði Freyja.

Freyja og guðsonurinn Fjölnir, sem hún kallar "stuðsoninn".
Mynd/Freyja Haralds

Fólk hefur til dæmis nefnt að Freyja sé ekki hæf til að umgangast börn, geti það hreinlega ekki. Hið rétta er að Freyja vann í um tíu ár á leikskóla. „Ég lærði þroskaþjálfafræði og hef unnið mikið með börnum og unglingum, verið stuðningsforeldri og bara í alls konar hlutverkum gagnvart börnum.“

Rík af börnum

Freyja á guðson og í kringum hana hjá vinum og fjölskyldu er margt um börn. „Eg er rík af börnum í mínu persónulega lífi og nærumhverfi þar sem ég hef svona fengið að vera í þeirra þorpi eda var það partur af umfjölluninni og niðurstöðunni að ég hefði menntun og reynslu og þá þekkingu sem þarf til að sinna þessu hlutverki,“ segir hún og meina foreldrahlutverkið sem hún fær nú að vera í eftir hina endanlegu niðurstöðu í málinu. „Að annast börn er ekkert framandi fyrir mig,“ bætir Freyja við og að fólki þekki bara ekki betur til um hennar hagi og reynslu.

Fréttavaktin heimsótti Freyju á heimili hennar á tímamótum í lífi hennar
Mynd/Hringbraut

Aðspurð um hvernig hún sjái fyrir sér þá líkamlegu vinnu sem felst í að sjá um barn segir Freyja: „Það bara rosalega eftir því á hvaða aldri barnið er og hvað maður þarf að vera mikið í svona líkamlegum hlutum en auðvitað er það alltaf partur af því að vera foreldri og þar er ég með aðstoðarfólk sem vinnu þetta með mér, til dæmis þegar ég er að passa guðson minn, hann er það lítill að hann þarf að fá nýja bleyju og fara í náttfötin og bursta tennurnar þá er þetta bara samstarf, aðstoðarfólkið sér um að gera þessa líkamlegu þætti, eins og að klæða í sokkana en ég er alltaf partur af aðstæðunum og er að tala við barnið og tala það í gegnum þetta og aðstoðarfólki er kannski bara að gera það sem ég er að segja.“

Börnin vita

„Það er er svolítið mín reynsla að, meira að segja með litlu krakkana, að þau vita þetta alveg, og ef það þarf að hlaupa á eftir þeim þá er það bara aðstoðarfólkið sem hleypur á eftir. „Ég er aldrei ein, ég er með aðstoð allan sólarhringinn,“ segir Freyja.

Fréttavaktin er endursýnd á Hringbraut Kl.14.30 og 16.30.