Angela Merkel, Þýskalandskanslari, segir að Þýskaland beri ævarandi ábyrgð á því að stríðsglæpir nasista gleymist ekki. Kanslarinn heimsótti Auschwitz, útrýmingarbúðir nasista í fyrsta sinn í dag. BBC greinir frá.

Merkel heimsótti búðirnar ásamt pólska forsætisráðherranum Mateusz Morawiecki og fórnarlambs helfararinnar, hinum 87 ára gamla Bogdan Stanislaw Bartnikowski. Gengu þau þrjú saman inn um hlið búðanna og undir alræmda skiltinu með áletruninni „Arbeit macht frei“ (Vinnan gerir ykkur frjáls.)

„Að muna glæpina er ábyrgð sem lýkur aldrei. Hún er órjúfanlegur hluti af landinu okkar,“ sagði Merkel í ræðu sinni. „Að gera sér grein fyrir þessari ábyrgð er hluti af þjóðareinkenni okkar, skilningi okkar á því sem er upplýst og frjálst þjóðfélag...lýðræði.“

Þá bað hún fórnarlömb helfararinnar afsökunar fyrir hönd Þjóðverja og sagðist ekki eiga orð til að lýsa sorginni. Hún sagði það aldrei hafa verið mikilvægara að muna helförina, á meðan vaxandi gyðingahaturs og ofsókna gæti í Evrópu. 67

Þá verða brátt 75 ár síðan sovéskir hermenn frelsuðu búðirnar, eða þann 27. janúar. Merkel er sögð hafa heimsótt búðirnar nú, fari svo að hún láti af embætti kanslara fyrr en áætlað var. Fregnir hafa borist af óánægju samstarfsmanna hennar meðal Jafnaðarmanna í ríkisstjórn og gætu þeir brátt ákveðið að láta af stuðningi við stjórnina.