UN Wo­men á Ís­landi og 66°Norður, með stuðningi frá utan­ríkis­ráðu­neytinu, skrifuðu undir sam­komu­lag í desember um að styðja við at­vinnu­sköpun fyrir konur á flótta í Tyrk­landi, sem koma frá Sýr­landi, Afgan­istan og Írak. Þær munu fá þjálfun í fata­fram­leiðslu, með það mark­mið að leiðar­ljósi að þær öðlist fjár­hags­legt sjálf­stæði og þekkingu sem nýtist þeim jafn­vel á­fram í önnur verk­efni, í að byggja upp sam­fé­lag og skapa verð­mæti.

Þær munu læra að endur­nýta efni og styrkja með því hring­rásar­hag­kerfi innan SADA-mið­stöðvarinnar, sem hýsir þær. SADA-mið­stöðin er stað­sett í borginni Gazian­tep í Tyrk­landi, en um hálf milljón flótta­fólks býr í Tyrk­landi. SADA-mið­stöðin er at­hvarf fyrir flótta­konur, en þar geta þær sótt sér ýmsa þjónustu eins og dag­gæslu og fræðslu. Gazian­tep er einungis 100 kíló­metra norður af landa­mærum Sýr­lands, en stór hluti flótta­fólks kemur þangað frá Aleppo í Sýr­landi.

Myndin er tekin við SADA-miðstöðina þar sem verkefnið mun eiga sitt heimili.
Mynd/UN Women

Konur fái rödd og hlut­verk

Stella Samúels­dóttir, fram­kvæmda­stýra UN Wo­men á Ís­landi, og Bjarn­ey Harðar­dóttir, einn eig­enda 66°Norður, segja að fyrsta fræ­korninu að þessu verk­efni hafi verið sáð fyrir þremur árum, en nú fyrst sé verk­efnið að fá á sig mynd. Þær eru þó á sama tíma mjög skýrar með það að þeirra mark­mið sé ekki að koma ein­hverju upp sem fyrst, heldur að það sé hægt að koma af stað verk­efni, fyrir konur á flótta, til lengri tíma. Að verk­efnið sé unnið á for­sendum þessara kvenna og að þær fái rödd og hlut­verk í því sem fyrst.

„Við höfum verið að vinna í okkar sam­fé­lags­legu á­byrgð, okkar hring­rás, og þó svo að okkar sam­fé­lags­lega á­byrgð sé að mestu hér á Ís­landi, fannst okkur mikil­vægt að við gætum látið gott af okkur leiða, og þá sér­stak­lega til kvenna,“ segir Bjarn­ey og að að­koma 66°Norður felist í því að koma með efni, þekkingu, færni og hug­vit til þessara kvenna.

„Það sem er svo mikil­vægt við þetta verk­efni er að það verði ekki ein­skiptis, eða einn styrkur. Okkar mark­mið er að þetta verði eitt­hvað sem þessar konur geta tekið á­fram og notað til að byggja sér ein­hvern grunn. Tekju­grunn, fram­færslu og öryggi fyrir börnin sín. Allt sem þær hafa ekki núna í Tyrk­landi,“ segir Bjarn­ey.

Á myndinni með Stellu og Bjarneyju er Íris Björk Kristjánsdóttir sem starfar hjá UN Women í Tyrklandi.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Manneskja á staðnum nauð­syn

Hún segir verk­efnið snúast að stærstum hluta um fólk og að einn mikil­vægasti þátturinn í því að koma þessu á lag­girnar, sé Íris Björg Kristjáns­dóttir sem starfar fyrir UN Wo­men í Tyrk­landi og hefur búið þar í um fimm ár.

„Íris hefur starfað í þessu verk­efni um ára­bil,“ segir Stella, en í vikunni fengu UN Wo­men og 66°Norður kynningu frá Írisi á verk­efninu, stöðunni í Tyrk­landi og leið­beiningar um hvernig best sé að standa að slíku verk­efni þar í landi, svo það gangi upp til lengri tíma.

„Það er svo mikil­vægt að hafa skilning á um­hverfinu sem við erum að stíga inn í. Við heyrðum frá Írisi hversu við­kvæmt um­hverfið er og hversu var­lega við þurfum að stíga til jarðar. Það má ekki byggja upp of miklar væntingar því að­stæður eru svo daprar. Það eru allir sam­mála um að þetta sé til lengri tíma og það er mikil­vægt að hafa mann­eskju þarna á staðnum sem þekkir alla inn­viði og gefur verk­efninu trú­verðug­leika,“ segir Bjarn­ey.

Hún segir að inn­legg Írisar hafi hjálpað þeim vel að skilja að mark­miðin séu til langs tíma og að það sé mikil­vægt að hafa þrek og vilja í það. Hún segir að enn sé ekki búið að á­kveða hversu margar konur fái þjálfun, en að þær vilji stilla væntingum í hóf, byrja ró­lega og eiga meira inni síðar.

„Við þurfum að skoða hvort þetta verði bara sýr­lenskar konur, eða hvort það verði líka tyrk­neskar konur. Svo eigum við eftir að eiga sam­tal við alla hags­muna­aðila, en það getur verið að við byrjum ekki nema á 10 til 20 konum,“ segir Bjarn­ey.

Þetta snýst miklu meira um á­byrgð sem ég finn sem manneskja, og hvernig ég hef á­kveðin tól sem geti látið þetta gerast. Það sem hræðir mig er að það verði ekkert úr þessu.

Konur fá ekki sömu tæki­færi

Fjórar milljónir flótta­manna eru skrá­settar í Tyrk­landi, og af þeim eru lík­lega hálf milljón kvenna frá Afgan­istan, Sýr­landi og Írak. Þessar konur, og al­mennt konur á flótta, verða oft út undan og tekur Bjarn­ey sem dæmi að af heildar­fjölda út­gefinna at­vinnu­leyfa í Tyrk­landi, séu að­eins þrjú prósent til kvenna.

„Þær standa höllum fæti og eiga sér oft ekki tals­mann eða tæki­færi til að láta rödd sína heyrast.“

Fyrsta varan sem fer í fram­leiðslu í Tyrk­landi heitir Faðmurinn og er taska. 66°Norður sér um að senda efni út til Tyrk­lands sem konurnar vinna og svo er varan send aftur hingað til Ís­lands þar sem hún verður seld, bæði í verslunum 66°Norður og í gegnum UN Wo­men. Lík­lega á næsta ári, og mun allur á­góði verk­efnisins renna til þessara kvenna og til verk­efnisins í gegnum UN Wo­men.

Mikið í húfi

Bjarn­ey segir að um mikið frum­kvöðla­starf sé að ræða þar sem fyrir­tæki, UN Wo­men og utan­ríkis­ráðu­neytið skuld­binda sig til að vinna að þessu saman, en verk­efnið er unnið eftir Heims­mark­miðum Sam­einuðu þjóðanna og fékk styrk úr Heims­mark­miða­sjóði at­vinnu­lífsins um þróunar­sam­vinnu.

„Við vonumst til þess að eftir þrjú ár verði þetta ein­hvers konar for­dæmi fyrir önnur lönd og fyrir­tæki til að taka upp. Það er mikið í húfi og mikil á­byrgð í þessu verk­efni, að sýna fram á að þetta sé hægt,“ segir Bjarn­ey.

Stella segist sam­mála því og að þau bindi sterkar vonir við að sam­starfið við 66°Norður sé að­eins það fyrsta.

„En þess vegna viljum við tryggja að þetta sé vel gert og að það séu allir á sömu blað­síðu. Það er þriggja ára verk­efna­skil­greining, þar sem við förum nánar út í það hvernig þetta verður gert, án þess að við sköpum ó­raun­hæfar væntingar. Okkar hlut­verk er að styðja við þetta starf og þá meira út frá þróunar- og jafn­réttis­málum og þekkingu á þörfum flótta­kvenna, auk þess sem við höfum víð­tæka og mikla þekkingu á því hvernig er að koma svona vöru á markað,“ segir Stella.

Ekki hrædd um orð­sporið

Slíku verk­efni fylgir á­vallt ein­hver á­hætta, bæði getur um­ræða um flótta­fólk oft verið erfið og á tíðum haturs­full, auk þess sem verk­efni af þessum toga eiga það til að verða að engu, eða skila ekki því sem lofað var.

Spurð hvort hún hafi á­hyggjur af því að ef illa fer geti það skaðað fyrir­tækið eða í­mynd þess, svarar Bjarn­ey því neitandi.

„Þetta snýst miklu meira um á­byrgð sem ég finn sem manneskja, og hvernig ég hef á­kveðin tól sem geti látið þetta gerast. Það sem hræðir mig er að það verði ekkert úr þessu. Á­hrif verk­efnisins á orð­spor okkar veldur mér ekki á­hyggjum, því við munum alltaf gera þetta af heilindum. Mér finnst bara á­byrgðin svo mikil að hjálpa, að fá þennan sprota. Okkur er treyst, utan­ríkis­ráðu­neytið gerir það og mér finnst mikil­vægt að við látum það gerast,“ segir Bjarn­ey.

Stella segir mikil­vægt í því sam­hengi að það sé heild­stæð sýn og á­hersla á að verk­efnið haldi á­fram um langa tíð.

„Þetta er fólk með mikla þekkingu en við komum inn til að auka færni þess, sam­keppnis­hæfni og getu til að koma sínum vörum eða þekkingu inn á markað. Það getur leitt til þess að önnur fyrir­tæki eða hönnuðir leiti til þeirra, hér­lendis eða í Tyrk­landi.“

Stella segir þetta gott inn­legg í um­ræðu um sér­staka stöðu flótta­kvenna í heiminum og bendir á að sjaldan sé tekið til­lit til þeirra og þeirra sér­stöku að­stæðna. Margar séu einar en sumar jafn­vel með börn og viti ekkert hvar eigin­menn eða barns­feður þeirra eru, lifandi eða látnir.

„Með þessu fá þær tæki­færi til að mennta sig, fæða sig og klæða og við getum líka lært af þessu á Ís­landi, um hvernig er hægt að gefa fólki tæki­færi. Því það vilja allir fá tæki­færi. Það vilja auð­vitað flestir búa heima hjá sér, en í þeirra til­felli geta þau það ekki og lík­lega geta þau það aldrei. Ég hef mikla trú á þessu verk­efni og hlakka til að sjá hvað við getum gert saman og hvaða tæki­færi þetta opnar fyrir aukna þátt­töku fyrir­tækja í mann­úðar­starfi,“ segir Stella að lokum.