UN Women á Íslandi og 66°Norður, með stuðningi frá utanríkisráðuneytinu, skrifuðu undir samkomulag í desember um að styðja við atvinnusköpun fyrir konur á flótta í Tyrklandi, sem koma frá Sýrlandi, Afganistan og Írak. Þær munu fá þjálfun í fataframleiðslu, með það markmið að leiðarljósi að þær öðlist fjárhagslegt sjálfstæði og þekkingu sem nýtist þeim jafnvel áfram í önnur verkefni, í að byggja upp samfélag og skapa verðmæti.
Þær munu læra að endurnýta efni og styrkja með því hringrásarhagkerfi innan SADA-miðstöðvarinnar, sem hýsir þær. SADA-miðstöðin er staðsett í borginni Gaziantep í Tyrklandi, en um hálf milljón flóttafólks býr í Tyrklandi. SADA-miðstöðin er athvarf fyrir flóttakonur, en þar geta þær sótt sér ýmsa þjónustu eins og daggæslu og fræðslu. Gaziantep er einungis 100 kílómetra norður af landamærum Sýrlands, en stór hluti flóttafólks kemur þangað frá Aleppo í Sýrlandi.

Konur fái rödd og hlutverk
Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi, og Bjarney Harðardóttir, einn eigenda 66°Norður, segja að fyrsta frækorninu að þessu verkefni hafi verið sáð fyrir þremur árum, en nú fyrst sé verkefnið að fá á sig mynd. Þær eru þó á sama tíma mjög skýrar með það að þeirra markmið sé ekki að koma einhverju upp sem fyrst, heldur að það sé hægt að koma af stað verkefni, fyrir konur á flótta, til lengri tíma. Að verkefnið sé unnið á forsendum þessara kvenna og að þær fái rödd og hlutverk í því sem fyrst.
„Við höfum verið að vinna í okkar samfélagslegu ábyrgð, okkar hringrás, og þó svo að okkar samfélagslega ábyrgð sé að mestu hér á Íslandi, fannst okkur mikilvægt að við gætum látið gott af okkur leiða, og þá sérstaklega til kvenna,“ segir Bjarney og að aðkoma 66°Norður felist í því að koma með efni, þekkingu, færni og hugvit til þessara kvenna.
„Það sem er svo mikilvægt við þetta verkefni er að það verði ekki einskiptis, eða einn styrkur. Okkar markmið er að þetta verði eitthvað sem þessar konur geta tekið áfram og notað til að byggja sér einhvern grunn. Tekjugrunn, framfærslu og öryggi fyrir börnin sín. Allt sem þær hafa ekki núna í Tyrklandi,“ segir Bjarney.

Manneskja á staðnum nauðsyn
Hún segir verkefnið snúast að stærstum hluta um fólk og að einn mikilvægasti þátturinn í því að koma þessu á laggirnar, sé Íris Björg Kristjánsdóttir sem starfar fyrir UN Women í Tyrklandi og hefur búið þar í um fimm ár.
„Íris hefur starfað í þessu verkefni um árabil,“ segir Stella, en í vikunni fengu UN Women og 66°Norður kynningu frá Írisi á verkefninu, stöðunni í Tyrklandi og leiðbeiningar um hvernig best sé að standa að slíku verkefni þar í landi, svo það gangi upp til lengri tíma.
„Það er svo mikilvægt að hafa skilning á umhverfinu sem við erum að stíga inn í. Við heyrðum frá Írisi hversu viðkvæmt umhverfið er og hversu varlega við þurfum að stíga til jarðar. Það má ekki byggja upp of miklar væntingar því aðstæður eru svo daprar. Það eru allir sammála um að þetta sé til lengri tíma og það er mikilvægt að hafa manneskju þarna á staðnum sem þekkir alla innviði og gefur verkefninu trúverðugleika,“ segir Bjarney.
Hún segir að innlegg Írisar hafi hjálpað þeim vel að skilja að markmiðin séu til langs tíma og að það sé mikilvægt að hafa þrek og vilja í það. Hún segir að enn sé ekki búið að ákveða hversu margar konur fái þjálfun, en að þær vilji stilla væntingum í hóf, byrja rólega og eiga meira inni síðar.
„Við þurfum að skoða hvort þetta verði bara sýrlenskar konur, eða hvort það verði líka tyrkneskar konur. Svo eigum við eftir að eiga samtal við alla hagsmunaaðila, en það getur verið að við byrjum ekki nema á 10 til 20 konum,“ segir Bjarney.
Þetta snýst miklu meira um ábyrgð sem ég finn sem manneskja, og hvernig ég hef ákveðin tól sem geti látið þetta gerast. Það sem hræðir mig er að það verði ekkert úr þessu.
Konur fá ekki sömu tækifæri
Fjórar milljónir flóttamanna eru skrásettar í Tyrklandi, og af þeim eru líklega hálf milljón kvenna frá Afganistan, Sýrlandi og Írak. Þessar konur, og almennt konur á flótta, verða oft út undan og tekur Bjarney sem dæmi að af heildarfjölda útgefinna atvinnuleyfa í Tyrklandi, séu aðeins þrjú prósent til kvenna.
„Þær standa höllum fæti og eiga sér oft ekki talsmann eða tækifæri til að láta rödd sína heyrast.“
Fyrsta varan sem fer í framleiðslu í Tyrklandi heitir Faðmurinn og er taska. 66°Norður sér um að senda efni út til Tyrklands sem konurnar vinna og svo er varan send aftur hingað til Íslands þar sem hún verður seld, bæði í verslunum 66°Norður og í gegnum UN Women. Líklega á næsta ári, og mun allur ágóði verkefnisins renna til þessara kvenna og til verkefnisins í gegnum UN Women.
Mikið í húfi
Bjarney segir að um mikið frumkvöðlastarf sé að ræða þar sem fyrirtæki, UN Women og utanríkisráðuneytið skuldbinda sig til að vinna að þessu saman, en verkefnið er unnið eftir Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og fékk styrk úr Heimsmarkmiðasjóði atvinnulífsins um þróunarsamvinnu.
„Við vonumst til þess að eftir þrjú ár verði þetta einhvers konar fordæmi fyrir önnur lönd og fyrirtæki til að taka upp. Það er mikið í húfi og mikil ábyrgð í þessu verkefni, að sýna fram á að þetta sé hægt,“ segir Bjarney.
Stella segist sammála því og að þau bindi sterkar vonir við að samstarfið við 66°Norður sé aðeins það fyrsta.
„En þess vegna viljum við tryggja að þetta sé vel gert og að það séu allir á sömu blaðsíðu. Það er þriggja ára verkefnaskilgreining, þar sem við förum nánar út í það hvernig þetta verður gert, án þess að við sköpum óraunhæfar væntingar. Okkar hlutverk er að styðja við þetta starf og þá meira út frá þróunar- og jafnréttismálum og þekkingu á þörfum flóttakvenna, auk þess sem við höfum víðtæka og mikla þekkingu á því hvernig er að koma svona vöru á markað,“ segir Stella.
Ekki hrædd um orðsporið
Slíku verkefni fylgir ávallt einhver áhætta, bæði getur umræða um flóttafólk oft verið erfið og á tíðum hatursfull, auk þess sem verkefni af þessum toga eiga það til að verða að engu, eða skila ekki því sem lofað var.
Spurð hvort hún hafi áhyggjur af því að ef illa fer geti það skaðað fyrirtækið eða ímynd þess, svarar Bjarney því neitandi.
„Þetta snýst miklu meira um ábyrgð sem ég finn sem manneskja, og hvernig ég hef ákveðin tól sem geti látið þetta gerast. Það sem hræðir mig er að það verði ekkert úr þessu. Áhrif verkefnisins á orðspor okkar veldur mér ekki áhyggjum, því við munum alltaf gera þetta af heilindum. Mér finnst bara ábyrgðin svo mikil að hjálpa, að fá þennan sprota. Okkur er treyst, utanríkisráðuneytið gerir það og mér finnst mikilvægt að við látum það gerast,“ segir Bjarney.
Stella segir mikilvægt í því samhengi að það sé heildstæð sýn og áhersla á að verkefnið haldi áfram um langa tíð.
„Þetta er fólk með mikla þekkingu en við komum inn til að auka færni þess, samkeppnishæfni og getu til að koma sínum vörum eða þekkingu inn á markað. Það getur leitt til þess að önnur fyrirtæki eða hönnuðir leiti til þeirra, hérlendis eða í Tyrklandi.“
Stella segir þetta gott innlegg í umræðu um sérstaka stöðu flóttakvenna í heiminum og bendir á að sjaldan sé tekið tillit til þeirra og þeirra sérstöku aðstæðna. Margar séu einar en sumar jafnvel með börn og viti ekkert hvar eiginmenn eða barnsfeður þeirra eru, lifandi eða látnir.
„Með þessu fá þær tækifæri til að mennta sig, fæða sig og klæða og við getum líka lært af þessu á Íslandi, um hvernig er hægt að gefa fólki tækifæri. Því það vilja allir fá tækifæri. Það vilja auðvitað flestir búa heima hjá sér, en í þeirra tilfelli geta þau það ekki og líklega geta þau það aldrei. Ég hef mikla trú á þessu verkefni og hlakka til að sjá hvað við getum gert saman og hvaða tækifæri þetta opnar fyrir aukna þátttöku fyrirtækja í mannúðarstarfi,“ segir Stella að lokum.