Ólafur Kjartansson, framkvæmdastjóri Úrvinnslusjóðs, segir að stjórn Úrvinnslusjóðs muni krefjast þess að sænska fyrirtækið Swerec tryggi að plastið sem flutt var frá Íslandi til Svíþjóðar árið 2016 til endurvinnslu fari í réttan farveg. Fjallað var um það í Stundinni í dag að plastið hafi legið óendurunnið í vöruhúsi frá því að það var flutt þangað.
Í svari til Fréttablaðsins segir Ólafur að sterkar vísbendingar séu komnar fram um að plastumbúðirnar hafi ekki farið í þá vinnslu sem gert var ráð fyrir.
„Stjórn Úrvinnslusjóðs mun krefjast þess að Swerec tryggi að umrætt plast fari í réttan farveg. Jafnframt verður tekið til gaumgæfilegrar athugunar hvort tilefni sé til að afturkalla staðfestingu sjóðsins á fyrirtækinu sem ráðstöfunaraðila,“ segir Ólafur.
Ólafur segir að ábyrgðin í þessu máli liggi hjá alfarið hjá Swerec.
„Sjóðnum ber að ná tilteknum markmiðum um endurvinnslu/endurnýtingu og notar til þess þá fjármuni sem hann hefur úr að spila til að stuðla að því að úrgangur rati í réttan farveg. Hins vegar er það svo að þegar menn standa ekki við orð sín hlýtur hvað helst að koma til greina að bjóða mönnum að ráða bót á gjörðum sínum eða sæta ella öðrum afleiðingum. Þegar að því kemur virðist munurinn á stöðu Grön Punkt í Noregi og Úrvinnslusjóðs á Íslandi einna helst vera sá að Úrvinnslusjóður á ekki í samningssambandi heldur vissu stjórnsýslusambandi við Swerec. Helgast það af því hvernig framlengd framleiðendaábyrgð hefur verið innleidd á Íslandi. Í samanburðinum er staða Úrvinnslusjóðs til að ná fram efndum því ef til vill takmarkaðri,“ segir Ólafur.
Aðspurður hvort að Úrvinnslusjóður ætli að koma í veg fyrir að áframhaldandi viðskipti verði á Íslandi við Swerec segir Ólafur að um árabil hafi þrír úrvinnsluaðilar verið skráðir og samþykktir á Íslandi sem ráðstöfunaraðilar varðandi blandaðar plastumbúðir frá heimilum. Það eru Stena og Swerec í Svíþjóð og PreZero í Þýskalandi
„Stjórn Úrvinnslusjóðs mun taka þetta fyrir þegar frekari gögn liggja fyrir. Þjónustuaðilar hafa hingað til valið þá ráðstöfunaraðila sem þeir eiga í viðskiptum við að því gefnu að ráðstöfunaraðilarnir hafi fengið staðfestingu sjóðsins. Eins og áður segir hefur sjóðurinn málefni Swerec til skoðunar,“ segir Ólafur.
Swerec verði krafið upplýsinga
Hann segir að Swerec verði krafið um upplýsingar um ástæður þess að plastumbúðir frá Íslandi sé að finna í þessu vöruhúsi og hversu mikið magn er um að ræða og hvort að fyrirtækið hafi þegar gert eitthvað í málinu.
„Hafa ber í huga að þær upplýsingar sem fram hafa komið gefa aðeins vísbendingu um að plastúrgangur hafi ratað í rangan úrvinnslufarveg á tilteknu tímabili. Hjá sjóðnum liggja engar upplýsingar fyrir um misbresti í meðferð annars úrgangs,“ segir Ólafur í svarinu og ítrekað að starfsemi Úrvinnslusjóðs sætir um þessar mundir stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar og að stjórn sjóðsins hafi lýst ánægju með að málefni sjóðsins hafi verið felld í slíkan farveg.
Getur almenningur treyst því að ruslið fari í réttan farveg en endi ekki í geymslu eins og Stundin hefur sýnt fram á að gerðist fyrir rusl frá árinu 2016?
Ólafur segir að frá árinu 2017 liggi fyrir, frá Swerec og öðrum ráðstöfunaraðilum, sundurliðaðar tölur um ráðstöfun plastúrgangs frá heimilum eftir flokkun. Hann segir að umfjöllun Stundarinnar í dag snúi að úrgangi sem ekki skilaði sér í réttar farveg á tilteknum tíma og að á þessum tímapunkti búi Úrvinnslusjóður ekki yfir upplýsingum um frekari annmarka á meðferð úrgangs, plastúrgangs eða annars úrgangs, sem gefa ástæðu til að ætla annað en að úrgangur hafi ratað að öðru leyti í réttan farveg.
„Úrvinnslusjóður greiðir endurgjald til þjónustuaðila sem taka að sér að koma úrgangi í réttan farveg hjá ráðstöfunaraðilum. Úrvinnslusjóður mun herða á kröfum um upplýsingagjöf varðandi endanlega ráðstöfun hvort heldur er í samskiptum við þjónustuaðila eða ráðstöfunaraðila,“ segir Ólafur í svari sínu.
Hann segir að almenningur eigi að geta treyst því að sá úrgangur sem að sjóðurinn greiði fyrir fari í réttan farveg og að stjórn Úrvinnslusjóðs leggi verulega áherslu á bættan rekjanleika úrgangs.
„Það er hagur allra að úrgangur rati í réttan farveg og að því mun sjóðurinn áfram vinna. Þó upp hafi komið tilvik sem gefa vísbendingu um ranga meðhöndlun hvað tiltekinn úrgangsflokk varðar er ekki unnt að líta svo á að öll úrgangsmál séu í ólestri enda ratar það sem vel er gert of sjaldan í kastljós fjölmiðla. Í engu falli gefur umfjöllun Stundarinnar tilefni til að ætla að úrgangsmál séu í ólestri á Íslandi eða annars staðar heldur er hún mikilvæg árétting á mikilvægi þess að úrgangsmál séu ávallt í réttu horfi,“ segir Ólafur.
Senduð þið vísvitandi inn rangar úrvinnslutölur til Umhverfisstofnunar?
„Nei. Úrvinnslusjóður hefur aldrei sent inn vísvitandi rangar tölur. Byggt hefur verið á upplýsingum frá þjónustuaðilum og ráðstöfunaraðilum.“
Hvers vegna var það ekki leiðrétt?
„Á síðasta ári var farið ítarlega yfir allar tölur yfir endurvinnsluhlutföll varðandi plastumbúðir í samvinnu við Umhverfisstofnun og umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Kallað var eftir ítarlegri upplýsingum frá ráðstöfunaraðilum, m.a. frá Swerec. Í framhaldinu voru sendar leiðréttar tölur til Umhverfisstofnunar sem byggja á sameiginlegum skilningi þessara þriggja aðila,“ segir Ólafur í svari sínu og að ef það fáist staðfest að það plast sem liggur í umræddu vöruhúsi hafi ekki verið rétt skráð varðandi endanlega ráðstöfun, verði það að sjálfsögðu leiðrétt.