Ólafur Kjartans­son, fram­kvæmda­stjóri Úr­vinnslu­sjóðs, segir að stjórn Úr­vinnslu­sjóðs muni krefjast þess að sænska fyrir­tækið Swerec tryggi að plastið sem flutt var frá Ís­landi til Sví­þjóðar árið 2016 til endur­vinnslu fari í réttan far­veg. Fjallað var um það í Stundinni í dag að plastið hafi legið ó­endurunnið í vöru­húsi frá því að það var flutt þangað.

Í svari til Frétta­blaðsins segir Ólafur að sterkar vís­bendingar séu komnar fram um að plast­um­búðirnar hafi ekki farið í þá vinnslu sem gert var ráð fyrir.

„Stjórn Úr­vinnslu­sjóðs mun krefjast þess að Swerec tryggi að um­rætt plast fari í réttan far­veg. Jafn­framt verður tekið til gaum­gæfi­legrar at­hugunar hvort til­efni sé til að aftur­kalla stað­festingu sjóðsins á fyrir­tækinu sem ráð­stöfunar­aðila,“ segir Ólafur.

Ólafur segir að á­byrgðin í þessu máli liggi hjá al­farið hjá Swerec.

„Sjóðnum ber að ná til­teknum mark­miðum um endur­vinnslu/endur­nýtingu og notar til þess þá fjár­muni sem hann hefur úr að spila til að stuðla að því að úr­gangur rati í réttan far­veg. Hins vegar er það svo að þegar menn standa ekki við orð sín hlýtur hvað helst að koma til greina að bjóða mönnum að ráða bót á gjörðum sínum eða sæta ella öðrum af­leiðingum. Þegar að því kemur virðist munurinn á stöðu Grön Punkt í Noregi og Úr­vinnslu­sjóðs á Ís­landi einna helst vera sá að Úr­vinnslu­sjóður á ekki í samnings­sam­bandi heldur vissu stjórn­sýslu­sam­bandi við Swerec. Helgast það af því hvernig fram­lengd fram­leið­enda­á­byrgð hefur verið inn­leidd á Ís­landi. Í saman­burðinum er staða Úr­vinnslu­sjóðs til að ná fram efndum því ef til vill tak­markaðri,“ segir Ólafur.

Að­spurður hvort að Úr­vinnslu­sjóður ætli að koma í veg fyrir að á­fram­haldandi við­skipti verði á Ís­landi við Swerec segir Ólafur að um ára­bil hafi þrír úr­vinnslu­aðilar verið skráðir og sam­þykktir á Ís­landi sem ráð­stöfunar­aðilar varðandi blandaðar plast­um­búðir frá heimilum. Það eru Stena og Swerec í Sví­þjóð og PreZero í Þýska­landi

„Stjórn Úr­vinnslu­sjóðs mun taka þetta fyrir þegar frekari gögn liggja fyrir. Þjónustu­aðilar hafa hingað til valið þá ráð­stöfunar­aðila sem þeir eiga í við­skiptum við að því gefnu að ráð­stöfunar­aðilarnir hafi fengið stað­festingu sjóðsins. Eins og áður segir hefur sjóðurinn mál­efni Swerec til skoðunar,“ segir Ólafur.

Swerec verði krafið upplýsinga

Hann segir að Swerec verði krafið um upp­lýsingar um á­stæður þess að plast­um­búðir frá Ís­landi sé að finna í þessu vöru­húsi og hversu mikið magn er um að ræða og hvort að fyrir­tækið hafi þegar gert eitt­hvað í málinu.

„Hafa ber í huga að þær upp­lýsingar sem fram hafa komið gefa að­eins vís­bendingu um að plast­úr­gangur hafi ratað í rangan úr­vinnslufar­veg á til­teknu tíma­bili. Hjá sjóðnum liggja engar upp­lýsingar fyrir um mis­bresti í með­ferð annars úr­gangs,“ segir Ólafur í svarinu og í­trekað að starf­semi Úr­vinnslu­sjóðs sætir um þessar mundir stjórn­sýslu­út­tekt Ríkis­endur­skoðunar og að stjórn sjóðsins hafi lýst á­nægju með að mál­efni sjóðsins hafi verið felld í slíkan far­veg.

Getur al­menningur treyst því að ruslið fari í réttan far­veg en endi ekki í geymslu eins og Stundin hefur sýnt fram á að gerðist fyrir rusl frá árinu 2016?

Ólafur segir að frá árinu 2017 liggi fyrir, frá Swerec og öðrum ráð­stöfunar­aðilum, sundur­liðaðar tölur um ráð­stöfun plast­úr­gangs frá heimilum eftir flokkun. Hann segir að um­fjöllun Stundarinnar í dag snúi að úr­gangi sem ekki skilaði sér í réttar far­veg á til­teknum tíma og að á þessum tíma­punkti búi Úr­vinnslu­sjóður ekki yfir upp­lýsingum um frekari ann­marka á með­ferð úr­gangs, plast­úr­gangs eða annars úr­gangs, sem gefa á­stæðu til að ætla annað en að úr­gangur hafi ratað að öðru leyti í réttan far­veg.

„Úr­vinnslu­sjóður greiðir endur­gjald til þjónustu­aðila sem taka að sér að koma úr­gangi í réttan far­veg hjá ráð­stöfunar­aðilum. Úr­vinnslu­sjóður mun herða á kröfum um upp­lýsinga­gjöf varðandi endan­lega ráð­stöfun hvort heldur er í sam­skiptum við þjónustu­aðila eða ráð­stöfunar­aðila,“ segir Ólafur í svari sínu.

Hann segir að al­menningur eigi að geta treyst því að sá úr­gangur sem að sjóðurinn greiði fyrir fari í réttan far­veg og að stjórn Úr­vinnslu­sjóðs leggi veru­lega á­herslu á bættan rekjan­leika úr­gangs.

„Það er hagur allra að úr­gangur rati í réttan far­veg og að því mun sjóðurinn á­fram vinna. Þó upp hafi komið til­vik sem gefa vís­bendingu um ranga með­höndlun hvað til­tekinn úr­gangs­flokk varðar er ekki unnt að líta svo á að öll úr­gangs­mál séu í ó­lestri enda ratar það sem vel er gert of sjaldan í kast­ljós fjöl­miðla. Í engu falli gefur um­fjöllun Stundarinnar til­efni til að ætla að úr­gangs­mál séu í ó­lestri á Ís­landi eða annars staðar heldur er hún mikil­væg á­rétting á mikil­vægi þess að úr­gangs­mál séu á­vallt í réttu horfi,“ segir Ólafur.

Senduð þið vís­vitandi inn rangar úr­vinnslu­tölur til Um­hverfis­stofnunar?

„Nei. Úr­vinnslu­sjóður hefur aldrei sent inn vís­vitandi rangar tölur. Byggt hefur verið á upp­lýsingum frá þjónustu­aðilum og ráð­stöfunar­aðilum.“

Hvers vegna var það ekki leið­rétt?

„Á síðasta ári var farið ítar­lega yfir allar tölur yfir endur­vinnslu­hlut­föll varðandi plast­um­búðir í sam­vinnu við Um­hverfis­stofnun og um­hverfis- og auð­linda­ráðu­neyti. Kallað var eftir ítar­legri upp­lýsingum frá ráð­stöfunar­aðilum, m.a. frá Swerec. Í fram­haldinu voru sendar leið­réttar tölur til Um­hverfis­stofnunar sem byggja á sam­eigin­legum skilningi þessara þriggja aðila,“ segir Ólafur í svari sínu og að ef það fáist stað­fest að það plast sem liggur í um­ræddu vöru­húsi hafi ekki verið rétt skráð varðandi endan­lega ráð­stöfun, verði það að sjálf­sögðu leið­rétt.