Jónína Einars­dóttir, leik­skóla­stjóri, segir breytingu á skipu­lagi við­veru­tíma barna á leik­skóla mikil­væga fyrir börnin. Of langur við­veru­tími skapi van­líðan meðal barnanna og meira álag innan leik­skólans.

„Þetta er ekki spurning um það að ég eða aðrir starfs­menn getum farið fyrr heim á daginn. Það að opnunar­tími leik­skóla sé bara til 16:30 í stað 17:00 gerir það að verkum að fleiri starfs­menn mæta fyrr og minnkar á­lagið á morgnana þar af leiðandi mikið,“ segir Jónína meðal annars um þær um­ræður sem skapast hafa í kjöl­far þess að skóla- og frí­stunda­ráð Reykja­víkur­borgar hafi lagt til­lögu fyrir borgar­ráð að breyttum opnunar­tíma leik­skólanna.

Jónína segist fagna styttingunni og að með henni verði gæði leik­skólans aukin og hugað að lýð­heilsu­barna.

„Það starfs­fólk sem vinnur 100 prósent vinnu er þá í síðasta lagi að hefja störf klukkan 8:30 og þar með eru fleiri starfs­menn komnir inn að sinna starfi leik­skólans og börnunum á á­lags­tíma. Þá eru fleiri starfs­menn að taka á móti börnunum þegar verið er að kveðja for­eldra í upp­hafi dags og eykur þessi að­gerð á vel­líðan barnanna,“ segir Jónína.

Biðin eftir foreldrum getur reynst börnum erfið

Eftir klukkan fjögur á daginn segir Jónína börnin vera orðin þreytt og að ein­beiting þeirra sé löngu farin.

„Bið­tíminn byrjar á þessum tíma í þeirra huga af því að sum börnin eru þegar farin heim og að eiga eina klukku­stund eftir er ansi langt og getur reynst mörgum börnum erfiður tími,“ segir hún.

Jónína bendir á það í færslu á Face­book síðu sinni að það að eignast barn á Ís­landi í dag sé val­frjáls að­gerð .

„Að eignast barn er nefni­lega að taka á okkur aukna á­byrgð, á­kveðna lífs­skerðingu sem fellst í að þurfa að haga lífi okkar öðru­vísi. Sumir þurfa að selja sport­bílinn svo vagninn komist í skottið, aðrir að stækka hús­næði, enn aðrir breyta um lífs­stíl og minnka skemmtana­lífið,“ segir hún.

Níu klukkutíma viðvera barna í leikskóla tekur á.
Mynd/Stefán

Jónína segir flesta taka breytingunum fagnandi enda telji fólk sig til­búið til þess að takast á við for­eldra­hlut­verkið.„En erum við í raun til­búin til að takast á við þá á­byrgð og þær breytingar sem við þurfum að gera á okkar lífi þegar við stöndum frammi fyrir því að verða for­eldrar,“ segir hún.

Hún út­skýrir mál sitt frekar og segir: „Jú það er okkar þegar upp er staðið að sinna þessum ein­stak­ling sem við sjálf á­kváðum að eignast. Við tókum á­kvörðun að nú breyttist líf okkar, nú tækjum við skrefið að bera á­byrgð á annarri mann­eskju og það gerum sama hvort við séum móðir eða faðir. Við tókum á­kvörðun um að nú vissum við að lífið þyrfti eitt­hvað að breytast hjá okkur og við gerum það. En þegar nokkrir mánuðir eru liðnir og barnið fer í gæslu til dag­mömmu eða við setjum barnið á ung­barna­deild þá er á­byrgðin fyrst og fremst okkar á þessum ein­stak­lingi þrátt fyrir að við greiðum fyrir skóla­vist barnsins,“ segir Jónína.

Skóli er ekki geymslu­svæði fyrir börn á meðan við for­eldrar vinnum.

Jónína segir það ekki leik­skólans, grunn­skólans né fram­halds­skólans að taka við upp­eldi barnsins. Hún segir marga telja að skólarnir séu þjónustu­stofnanir sem lúti þar af leiðandi lög­málum um þjónustu en það rétta sé að starf þessa stofnanna snúist um að kenna börnum, sinna þjálfunum, auka orða­forða, efla sjálfs­mynd, fé­lags­tengsl og margt fleira.

„Skóli er ekki geymslu­svæði fyrir börn á meðan við for­eldrar vinnum og það sé þannig að við veljum sjálf hve lengi við getum nýtt það á hverju degi eða að það eigi bara að vera opið þegar við þurfum að nýta geymsluna,“ segir hún.

Konur ekki ólaðar niður

Til­laga skóla- og frí­stunda­ráðs Reykja­víkur­borgar hefur verið gagn­rýnt og mikil um­ræða hefur skapast í kringum hana víðs vegar í sam­fé­laginu. Jónína segir suma for­eldra setja upp dæmið um ein­stæða for­eldrið og segja opnunina koma helst niður á þeim hópi fólks.

„Þetta er gagn­rýnt af sumum og flestir sem nota rökin um ein­stæðu for­eldrana, um að konur þurfi þá að hætta að vinna og hvað eigi að gera við börnin. Ég sjálf stjórna leik­skóla og hef unnið í öðrum leik­skóla og þekki til að­stæðna í nokkrum leik­skólum. Það er mín upp­lifun að þeir sem eiga vistunar­tíma til kl 17 séu fæstir ein­stæðir. Þau börn sem eru með ein­stæða for­eldra eru frekar að fara fyrr heim á þeim stöðum sem ég þekki til á. Margir hverjir sem nú eiga tíma til kl 17 eru ekki endi­lega að full­nýta tímann, heldur að hafa hann til vonar og vara. Oft á tíðum hef ég upp­lifað að báðir for­eldrar séu að koma að sækja barnið eftir kl 16:30 og því hugsan­legt að annað þeirra geti þá sótt barnið og svo hitt for­eldrið á eftir,“ segir Jónína.

Jónína segist líka hafa heyrt þau rök að að­gerðin sé and­feminísk og geri það að verkum að konur verði ólaðar aftur niður til þess að sinna börnunum sínum.

„Sem betur fer er það þannig í dag alls staðar sem ég þekki til að feður standa sig gríðar­lega vel í sínu hlut­verki, þeir sjá um að­lögun, við hringjum oft í þá ef barnið verður veikt og það þarf að sækja það. Þeir mæta í for­eldra­við­töl og virðast ekki á nokkurn hátt vera minna hæfir til að sinna barninu sínu en konan. Það er heldur ekki þannig að það séu bara mæður sem sækja börnin sín al­mennt á leik­skólann í dag, þetta er sam­vinna for­eldra,“ segir hún.

Allt of mikið áreiti fyrir barn að vera í leikskólanum í yfir níu klukkutíma

„Rök eins og leik­skólinn eigi að þjónusta vinnu­tíma for­eldranna eru rök sem hafa ekkert með vel­ferð barna að gera. Það er ekki vel­ferð barna að eyða 9,5 tíma í leik­skóla hvort sem það sé með ó­fag­lærðu eða fag­lærðu fólki. 9-9,5 tími er langur tími fyrir börn að vera í fullu prógrammi þar sem er á­reiti svo sem sjón­rænt og heyrn­rænt á­reiti. Það er á­reiti að vera í hópi allan daginn, vera nánast aldrei einn að dunda sér, það er á­reiti fyrir lítið barn að þurfa að passa upp á leik­fangið sitt sem það valdi sér þegar ein­hver annar ætlar sér að taka það af manni. Það er á­reiti þegar barn í hópnum grætur af van­líðan, barn er að veikjast og líður illa, barn meiði sig eða grætur af því annað barn tók eitt­hvað af því. Það er á­reiti þegar barn meiðir annað barn eða þegar verið er að sækja alla aðra og bið­tíminn hefst,“ segir Jónína.

Jónína segir ná­granna­sveita­fé­lögin Kópa­vog og Hafnar­fjörð nú þegar hafa farið þá leið að loka leik­skólum klukkan 16:30 og að það hafi gefið góða raun.

„Með þessu fram­fara­skrefi eru leik­skólar Reykja­víkur ekki að missa hæft starfs­fólk yfir í ná­granna­sveita­fé­lögin þar sem starfs­menn gætu þá fengið betri vinnu­tíma í stað þess að vinna til 17 hjá Reykja­víkur­borg. Ég fagna því ef þetta verður raunin þar sem í fyrsta sinn er horft til þarfa og líðan barnanna, þeim líður nefni­lega ekkert vel að vera örfá sam­einuð inni á einni deild frá kl 16:30 -17:00 að bíða eftir að verða sótt,“ segir hún.

Á­byrgðin og valið er alltaf okkar for­eldranna að eignast barnið.

Hvetur Jónína þá for­eldra sem sjá fram á erfiða tíma sökum breytinganna að hafa sam­band við fé­lags­þjónustuna til þess að finna lausnir á sínum málum.

„Ef ekki er á­hugi fyrir því þá er annar mögu­leiki, að sækja um í einum af leik­skólum borgarinnar sem vantar starfs­fólk og fá þá þar af leiðandi betri vinnu­tíma,“ segir hún.

Jónína segir frá einu at­viki sem hún heyrði af fyrir nokkrum árum þegar sam­starfs­maður tók á móti barni eftir sumar­frí leik­skólans sem hafði verið lokaður.

„Það var for­eldri sem sagði við starfs­mann daginn eftir sem leik­skólinn opnaði eftir sumar­frí: „Það ætti að banna ykkur í leik­skólunum að fara í sumar­frí.“ Þetta er því miður ekki ein­stakt til­felli af þessari sögu og það kannski segir okkur að við­komandi hafi gleymt því að á­byrgðin og valið er alltaf okkar for­eldranna að eignast barnið. Þá þurfum við líka að vera til­búin að sinna því og færa þær fórnir sem við þurfum að gera sem fylgir því að eiga börn. Sem sagt að sækja þau á daginn þegar leik­skólinn lokar og sinna þeim í sumar­fríinu. Við munum vonandi öll ná að eldast og ef­laust upp­lifum við vel flest eftir­sjá þegar fram líða stundir að hafa ekki eytt meiri tíma með börnunum okkar.“