Jóhannes Loftsson, formaður stjórnmálaflokksins Ábyrgrar framtíðar, segir flokkinn enn ekki hafa tekið ákvörðun um það hvort kærð verði ákvörðun yfirkjörstjórnar um að hafna framboði hans í Suðurkjördæmi. Framboði Ábyrgrar framtíðar fyrir komandi alþingiskosningar var hafnað í gær þar sem ekki voru uppfyllt skilyrði um lágmarksfjölda meðmæla en alls vantaði 31 meðmælanda upp á.
Jóhannes segir að flokkurinn sé nú að fara yfir stöðuna, en hann hefur tíma til klukkan fjögur í dag til að kæra niðurstöðuna til landskjörstjórnar.
Í færslu á Facebook-síðu sinni lýsti Jóhannes yfir óánægju með meðmælasöfnunarkerfið. Sagði hann að honum hefði ekki verið tilkynnt um undirskriftirnar sem vantaði í Suðurkjördæmi fyrr en aðeins um þrír og hálfur klukkutími voru eftir af skilafrestinum. Sagði hann rafræna undirskriftakerfið stórgallað og benti meðal annars á að þeir sem hefðu bara íslykil gætu ekki skráð meðmæli rafrænt. Jafnframt hafi forritunarvillur komið upp hjá mörgum þeirra sem hugðust veita Ábyrgri framtíð meðmæli sín jafnvel þótt þeir hafi haft rafræn skilríki.
„Aðeins örfá meðmæli vantaði upp á að við næðum lágmarkinu á þessum stutta tíma sem við höfðum til stefnu í gær,“ skrifaði Jóhannes. „Mörgum meðmælum sem var safnað á pappír komust ekki til skila, og mörg rafræn meðmæli voru blokkuð af gölluðu tölvukerfi sem er einfaldlega óboðlegt í lýðræðissamfélagi. Ef þetta er ólöglegt, þá gætu kostningarnar í heild sinni orðið ólöglegar.“