Ríkir ferðamenn eru fleiri hér á landi þetta sumarið en áður. Flestir frá Ameríku. Verðlagið á landinu er enda tæpast fyrir millistéttarfólk. Dýrtíðin er áhyggjuefni fyrir ferðaþjónustuna.

Fleiri sterkefnaðir ferðamenn sækja Ísland heim á þessu sumri en áður hefur þekkst. Þetta er samdóma álit fjölda stjórnenda í ferðaþjónustunni, svo og fararstjóra og viðburðastjóra sem Fréttablaðið hefur rætt við síðustu daga.

„Glöggt dæmi um þetta er að kortavelta erlendra ferðamanna er nú meiri en þegar þeir voru flestir fyrir faraldurinn,“ segir einn úr þessum hópi – og annar bætir því við að „það er ekki bara uppsöfnuð ferðaþörf hjá þessum hópi heldur og uppsöfnuð eyðsluþörf.“

Ferðaskipuleggjendur hér innanlands segja efnaða Ameríkana áberandi í þessum hópi. „Fjöldi þeirra hefur verið að ferðast um Evrópu í mánuð eða svo í sumar, en bætir svo einni viku við á Íslandi á heimleiðinni,“ segir einn reyndasti skipuleggjandinn í ferðum og upplifun ríkra útlendinga hér á landi, en hann skipuleggur allan tíma þeirra hér á landi, „frá því einkaþotudyrnar opnast og þar til þær lokast.“

Þyrluflugferðir eru mjög vinsælar hjá efnuðum ferðamönnum en þær kosta oft dágóðan skilding. Þyrluþjónustan Norðurflug hefur nú bætt við sig fjórðu þyrlunni vegna mikillar eftirspurnar.
Mynd/AntonBrink

Hann segir norðvestanverða Evrópu einkar vinsæla meðal þessara ferðalanga, ekki síst Norðurlöndin, þar sem þeir sæki í fámenni, öryggi og sterka innviði, „umfram áhættumeiri svæði.“

Annar viðmælandi bætir því við að afar algengt sé að þessi hópur ferðafólks sé nú tveimur til þremur dögum lengur á landinu en áður hafi þekkst – og eyði eftir því. „Það lætur meira eftir sér, langþreytt eftir pestartímann,“ útskýrir hann.

Birgir Ómar Haraldsson, framkvæmdastjóri þyrluþjónustunnar Norðurflugs, segir ágætt dæmi um þetta að hann hafi verið að bæta við sig fjórðu þyrlunni, svo mikið sé að gera. „Samsetningin í átt að efnameiri ferðamönnum er augljós,“ segir hann.

En það sé líka orðin áskorun fyrir íslenska ferðaþjónustu að halda í hefðbundið millitekjufólk sem þrái að ferðast. Verðlagning á Íslandi sé aðeins að verða á færi efnafólks. „Hér borgar fólk 400 dali fyrir næturgistingu á venjulegu meðalhóteli. Það jafngildir lúxusgistingu í Bandaríkjunum,“ segir Birgir Ómar og óttast áhrifin af dýrtíðinni á ferðaþjónustu til frambúðar.