Justin Welby, erkibiskupinn af Kantaraborg, gagnrýndi í páskamessu sinni í gær áætlun breskra stjórnvalda um að senda hælisleitendur til Afríkuríkisins Rúanda á meðan umsóknir þeirra um hæli í Bretlandi eru teknar til meðferðar.

Í messunni sagði Welby að „það að ráða undirverktaka til að gera skyldur okkar, jafnvel land eins og Rúanda sem gengur gott eitt til, [væri] andstætt eðli Guðs, sem tók sjálfur ábyrgð á mistökum okkar.“

Erkibiskupinn af Kantaraborg er æðsti biskup ensku biskupakirkjunnar og einingartákn biskupakirkja um allan heim. „Smáatriðin eru fyrir stjórnmál og stjórnmálamenn, en megingildin verða að geta staðist dóm Guðs – og þau gera það ekki,“ sagði Welby í messu sinni í dómkirkjunni í Kantaraborg.

Gagnrýni biskupsins beinist að áætlun sem ríkisstjórn Bretlands kynnti á fimmtudaginn í samstarfi við stjórn Rúanda. Hún felst í því að hælisleitendur sem koma koma til Bretlands sem laumufarþegar í vörubílum eða á litlum bátum verða fluttir til Rúanda. Þar fá þeir að dvelja þar á meðan hælisumsóknir þeirra eru teknar til meðferðar, og svo setjast að í landinu ef þær eru samþykktar. Bretland hefur greitt Rúanda um 158 milljarða Bandaríkjadala fyrir að taka við fólkinu.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, kynnti áætlunina nærri Dover á fimmtudaginn. Í ræðu sinni um áætlunina staðhæfði Johnson að með þessu móti fengju tugþúsundir fólks að setjast að í Rúanda á komandi árum og að „ótal lífum“ yrði þannig bjargað. Fjöldi fólks lést á síðasta ári við það að reyna að sigla til Bretlands yfir Ermasund. Johnson sagði áætlunina jafnframt vera til þess fallna að vinna bug á mansalshringjum sem herja á flóttafólk og hælisleitendur.

Priti Patel, innanríkisráðherra Bretlands, kynnti áætlun um nánara efnahagssamstarf við Rúanda fyrr í aprílmánuði.
Mynd/Getty

Louise Calvey, þjónustu- og gæslustjóri hjá góðgerðasamtökunum Refugee Action, jafnaði áætluninni sjálfri þó við kaup og sölu á mannslífum og benti á að Bretland hefði um leið tekið við flóttamönnum frá Rúanda. „Áætlunin um að taka við fimmtíu flóttamönnum í áhættuhópum frá Rúanda bendir til þess að ríkisstjórnin treysti kerfinu þar ekki alfarið til að vernda fólk sem er á flótta undan stríði og ofsóknum.“

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur einnig gagnrýnt áætlunina og sagt hana brjóta gegn alþjóðalögum.