Byggingarfélag Gylfa og Gunnars, BYGG, skilaði inn erindi til bæjarráðs Garðabæjar á dögunum þar sem kallað er eftir viðhorfi Garðabæjar til þess að vinna breytingar á skipulagi Setbergsholts.

Hægt er að nálgast tillögur BYGG að nýju skipulagi hér.

BYGG hefur þegar skoðað mögulegar áherslubreytingar á skipulagi landsins og hefur hug á að hefja undirbúning að skipulagi og framkvæmdum á svæðinu.

Landsvæðið hefur verið í eigu BYGG í fimm ár og gera hugmyndir fyrirtækisins ráð fyrir allt að 2.550 íbúðum á svæðinu en talað um tveggja til þriggja ára undirbúningsvinnu áður en verkefnið hefst, meðal annars þurfi að bæta samgöngukerfið.

Mynd/Fundargerð Garðabæjar

Um er að ræða landsvæðið fyrir aftan verslun IKEA í Kauptúni, Garðabæ, og myndi nýja hverfið standa til móts við hið nýja hverfi í Urriðaholti.

Ef af framkvæmdunum verður þarf golfvöllur Golfklúbbsins Setbergs að víkja. Fyrir vikið hefur klúbburinn rætt við Hafnarfjarðarbæ um nýja staðsetningu.

„Það hefur legið fyrir að við þyrftum að flytja starfsemi okkar ef til þessara framkvæmda kæmi. Við höfum um leið rætt við Hafnarfjarðarbæ um möguleikann á að finna nýja staðsetningu,“ segir Högni Friðþjófsson, formaður Setbergsklúbbsins, sem var stofnaður árið 1994 og í voru 420 kylfingar árið 2019.