Banda­ríkja­maðurinn Wesl­ey Bar­nes kunni ekki að meta dvöl sína á hóteli í Tæ­landi og skrifaði því nei­kvæða um­sögn um hótelið á vefnum. Fyrir vikið gæti hann nú átt von á allt að tveggja ára fangelsis­dóm. Hann var á­kærður á for­sendum laga sem banna æru­meiðingar og ó­frægingu í landinu.

Bar­nes, sem starfar í Tæ­landi, birti nokkrar nei­kvæðar um­sagnir um hótelið á ó­líkum miðlum þar sem hann sakaði hótelið meðal annars um „nú­tíma þræla­hald.“

Leituðu til lög­reglu

The Sea View Resort hótelið sagði hins vegar gagn­rýnina frá fyrrum gestinum ekki vera sanna og hafa slæm á­hrif á orð­spor hótelsins. Hótel­eig­andinn lagði í kjöl­farið inn kvörtun til lög­reglu þar sem kom fram að gestur hafi birt ó­sann­gjarna gagn­rýni um hótelið á vef­síðunni TripA­dvis­or.

Á­greiningur milli hótelsins og Bar­nes varð eftir að hann vildi koma með flösku af sínu eigin á­fengi á veitinga­stað hótelsins fyrr á þessu ári. Í yfir­lýsingu frá hótelinu kemur fram að Bar­nes hafi valdið ringul­reið á staðnum og neitað að greiða tappa­gjald.

Gisti í fanga­klefa

Eftir at­vikið birti Bar­nes nei­kvæða gagn­rýni um hótelið sem varð til þess að hann var kærður fyrir ó­frægingu. Því næst var hann hand­tekinn og þurfi að verja þó nokkrum nóttum í fangelsi áður en hann var látinn laus gegn tryggingu.

Verði Bar­nes sak­felldur í málinu gæti hann átt von á allt að tveggja ára dvöl í fangelsi.