Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segist finna fyrir áhuga landsmanna á að ferðast innanlands eins og í fyrra. Umfangið er hins vegar óljóst og gæti verið staðbundnara, en í fyrra fóru margir Íslendingar í langar ferðir hringinn í kringum landið.

„Íslendingurinn bókar oft með stuttum fyrirvara og eltir veðrið,“ segir Jóhannes. „Við vonumst til þess að Íslendingar verði duglegir að ferðast. Í fyrra kom mörgum sem ekki höfðu gert það á óvart hversu mikil gæðin og fjölbreytnin er.“

Jóhannes segir að þó að ferðalög landsmanna séu kærkomin dugi þau skammt til að fylla upp í það gat sem erlendir ferðamenn skilja eftir sig. Árið 2019 komu hingað 2 milljónir að utan og 2020 tæplega 480 þúsund, þar af 300 þúsund áður en faraldurinn skall á. Jóhannes segir að talan í ár gæti verið á bilinu 700 til 800 þúsund ef allt gengur upp.

„Nýja sóttvarnakerfið á landamærum þarf að taka gildi 1. maí, bólusetningar að ganga vel hér og úti, aflétting ferðatakmarkana og faraldurinn þarf að halda sig á mottunni,“ segir Jóhannes.

Eins og margir muna buðu hótel og ferðaþjónustufyrirtæki upp á mjög góð tilboð síðasta sumar.

„Íslendingar nutu góðs af því að þetta var atvinnugrein í rústum. Þetta voru gjafverð og algerlega ósjálfbær verðlagning frá sjónarhóli fyrirtækjanna, gert til að halda starfsfólki,“ segir Jóhannes. Hann segist eiga von á góðum tilboðum í sumar en ekki sé hægt að fara jafn djúpt í verðlagningunni. „Fyrirtækin geta ekki keyrt áfram á 50 prósenta nýtingu og 70 prósenta afslætti af verðum ár eftir ár.“

Jóhannes hefur ekki heyrt af annari Ferðagjöf eða sambærilegu verkefni en bendir þó á að um 500 milljónir séu enn ónýttar.