Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, reiknar með að framtíðarlausn verði ákveðin vegna olíuleka úr El Grillo í Seyðisfjarðarhöfn á þessu ári. Ráðherraskipti hafa tafið málið en hann skynjar jákvæðni frá stjórnvöldum.

Starfshópur umhverfisráðuneytisins, Umhverfisstofnunar, Landhelgisgæslunnar og heimamanna í Múlaþingi var stofnaður í fyrra eftir enn einn lekann úr olíuflutningaskipinu sem Bretar grönduðu eftir flugárás Þjóðverja árið 1944.

„Við teljum að það verði alltaf smitun, þó það sé ekki risaleki. Við horfum til þess að geta fangað þetta,“ segir Björn. Í tillögum starfshóps er stefnt að því að koma upp mengunarvarnar- og vöktunarbúnaði og flotgirðingu sem komið yrði fyrir ofan við flakið og myndi fanga olíuna. Hún yrði svo hreinsuð reglulega. Björn gerir ráð fyrir að þetta kosti um 10 milljónir króna.

Þegar sjávarhiti hækkar á sumrin losnar storknuð olía úr flakinu, en talið er að um 10 til 15 tonn séu eftir í því. Fuglar hafa drepist vegna þessa.

Hingað til hafa kafarar farið í nokkur skipti og steypt yfir göt á flakinu. Björn segir að það kunni að verða gert áfram.

„Ein leiðin er að færa þetta alveg,“ segir hann en ekki hefur verið ákveðin hvaða leið verði farin til framtíðar. Verið sé að horfa til reynslu erlendis þar sem svipuð mál hafa komið upp.

Að fást við El Grillo, og hugsanlega færa hann burt, er ekki vandalaust eða hættulaust verkefni. Meðal annars hafa fundist ósprungnar sprengikúlur hjá flakinu sem geta valdið mikilli hættu.